Greinasafni: Sveitarfélög
Rangárþing eystra
 
Hart barist á víkingahátíð

Fjölmargar náttúruperlur í einu sveitafélagi
Þórsmörk, Tindfjöll, Eyjafjallajökull, Skógarfoss, Seljalandsfoss, Paradísarhellir, Sögusetrið, Njálusýning, Kaupfélagssýning, Skógasafnið, fjöruferðir, gönguferðir,veiði, golf, hestaleigur og margt fleira er í boði í Rangárþingi eystra sem nær frá Eystri Rangá í vestri til Jökulsár á Sóheimasandi í austri.

Rangárþing eystra er mikið landbúnaðarhérað en jafnframt er ferðaþjónusta vaxandi atvinnugrein. Ferðaþjónustan í sveitafélaginu er í miklum blóma og fyrir gesti svæðisins er margt að sjá og gera. Ágætis uppgangur hefur verið í sveitafélaginu undanfarið og fjölgun íbúa umfram landsmeðaltal. Svæðið er það auðræktanlegasta á landinu og mjólkurframleiðsla stendur traustum fótum. Framkvæmdir standa yfir við Landeyjahöfn og fer að opnast nýtt útivistarsvæði á Seljalandsheiði. Landeyjarhöfn mun koma til með að opna enn frekari möguleika fyrir ferðaþjónustu á svæðinu.

Skógarfoss

Bændur taka á móti gestum
Sú nýbreytni hefur verið tekin upp að nokkrir bændur í héraðinu taka á móti gestum og eru þátttakendur í því sem kallast „opin býli“. Þá taka nokkrir bændur þátt í verkefninu „beint frá býli“, þar sem gestum gefst kostur á að kaupa varning beint frá bónda.

Í sveitafélaginu eru margar þekktari náttúruperlur eins og t.d. Þórsmörk, Tindfjöll, Eyjafjallajökull, Skógafoss, Seljalandsfoss og Paradísarhellir en auk þess er að finna einstakar náttúru-og jarðfræðiminjar eins og Mögugilshelli sem er talin vera stærsti náttúrugerði móbergshellir í norður Evrópu.

Auk þessara minja teygir sögusvið Brennu-Njáls sögu sig um allt svæðið og er gestum gefinn kostur á að upplifa söguna á lifandi og eftirminnilegan hátt. Þá eru aðstæður í sveitafélaginu þannig að auðvelt er að komast upp á hálendið af stuttu færi. Þannig geta menn á láglendi í Fljótshlíðinni komist upp á heiðar á skammri stundu, eða upp á Eyjafjallajökul á innan við klukkustund.

Í sveitafélaginu eru margir og fjölbreyttir gistimöguleikar enda ferðaþjónustufyrirtækin mörg, hótel, tjaldstæði, gistiheimili, gistiskálar, sumarhús og félagsheimili. Svæðið er gríðarlega vinsælt fyrir ættarmót, enda eru alls 5 félagsheimili til útleigu þar allt sumarið.

Afþreying er af ýmsu tagi í Rangárþingi eystra og hentar öllum aldurshópum, s. s. Sögusetrið á Hvolsvelli, Skógasafnið á Skógum, gönguleiðir eru góðar, hestaleigur, veiði í hinum ýmsu ám eins og Eystri-Rangá, Þverá, Hólsá og Skógá. Þá er hægt að fara í golf við Hellishóla og Strönd, á hestbak í Miðhúsum, Torfastöðum, Skálakoti og Smáratúni og fjöruferðir við Grandavör.

Hádegislúrinn úti í haga
Njála og Kaupfélagið í Sögusetrinu
Saga landsins á þessu svæði er mjög áhugaverð og má segja að Sögusetrið á Hvolsvelli reyni að gera henni skil að hluta. Sögusetrið var sett upp fyrir um 11 árum og má segja að það hafi verið frumkvöðull í menningartengdri ferðaþjónustu á sínum tíma. Sögusetrið hefur byggst upp sem einskonar menningarmiðstöð og þar er alltaf eitthvað nýtt um að vera, nýjar sýningar, tónleikar, uppákomur og Njáluerindi. Í Sögusetrinu ber hæst Njálusýning sem flestir hafa heyrt af en önnur sýning er þar líka sem er ekki síður áhugaverð, en það er Kaupfélagssýningin. Á Kaupfélagssýningunni er farið yfir sögu verslunar á Suðurlandi og sérstaklega sögu kaupfélaganna og starfsemi Sambands íslenskra Samvinnufélaga. Þessi sýning er ætluð allri fjölskyldunni.

Að sögn Þuríðar Halldóru Aradóttur markaðs-og kynningarfulltrúa Rangárþings eystra er það helst Seljalandsfoss, Skógafoss, Þórsmörkin, Fljótshlíðin og minjasafnið á Skógum sem dregur flesta ferðamenn á svæðið. „Svo gerum við líka mikið út á söguna, en Njálssaga er nokkuð stór þáttur í ferðaþjónustunni og hefur verið það mörg undanfarin ár.“

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga