Gamla pósthúsið á Hvolsvelli
  Ferðafólk tekur með sér minningar úr Eldstónni á Hvolsvelli
Í gamla Pósthúsinu á Hvolsvelli, við þjóðveg eitt, leynist gimsteinn sem ferðamenn ættu ekki að láta fram hjá sér fara. Þar reka hjónin G.Helga og Þór kaffihús og verslun, sem og leirkera– og listmunaverkstæðið Eldstó & Hús Leirkerasmiðsins. 

„Hingað kemur fólk víða að og þykir Eldstó Café einstaklega notalegt og heimilislegt,“ segir G. Helga. Ekki að undra, því í Eldstó er allt heimagert, kökur, brauð, súpur og annað og áhöldin sem veitingarnar eru bornar fram í eru verk Þórs og Helgu. Þór lærði leirkerasmíði 1971-75 hjá tveimur meisturum, Gerhard Schwarz frá Þýskalandi og Paul Martin frá Írlandi og var auk þess árum saman hönnuður í leirmunagerðinni Glit.

Þór hefur verið líkt við einn frægasta leirkerasmið Breta, Bernhard Leeds, sem er Kjarval þeirra Breta í leirlistinni. Verk Þórs eru mjög stílhrein og hann hefur einstakt vald á forminu, eins og hlutir hans bera með sér.
Guðlaug Helga Ingadóttir, kona Þórs, er menntuð söngkona og lærð í myndlist, en hefur einnig lært að vinna með leirinn af eiginmanni sínum, þó ekki handrennsluna, enda hægt að skapa í leirinn á margvíslegan hátt. G.Helga handmálar sumt af þeim munum sem Þór rennir en auk þess hannar hún skartgripi úr gleri, postulíni, silfri, leðri, perlum og steinum. Skartgripirnir eru model og því engir tveir eins. Þeir hafa fengið mjög góðar viðtökur og selst vel.

„Þór hefur haft mikið að gera undanfarið,“ segir kona hans og bætir við að margt nýtt og fallegt hafi orðið til í listsköpun hans. „Gott dæmi eru tekatlar sem vísa til framtíðar, ásamt kötlum með hefðbundnara formi. Það er yndislegt að bera bollana hans að vörum sér, kaffið bragðast öðruvísi úr handgerðum bolla. En hér er margt fleira sem hann hefur gert, allt hvað öðru fallegra.“

Hjónin settust að á Hvolsvelli 2004 en höfðu áður verið með gallery og vinnustofu í Miðgarði á Selfossi. Á Hvolsvelli settu þau ekki aðeins upp leirkeraverkstæði heldur líka kaffihúsið Eldstó. „Við leggjum áherslu á að andrúmslotið sé notalegt og umhverfið fallegt og heimilislegt. Að vera með góðar veitingar og hlýlegt viðmót, er það sem við leggjum áherslu á. Gefa fólki tíma þannig að það finni að það er velkomið. Þegar fólk ferðast er það að safna minningum og við reynum að mæta því. Gestir okkar eiga að geta notið þess að sitja og upplifa fallegt umhverfi, ásamt góðum veitingum. Og ef mönnum hugnast, geta þeir keypt sé eitthvað fallegt úr Eldstó til að taka með sér heim til minningar.“

Sjá www.eldsto.is

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga