Á golfvellinum á Selfossi, Svarfhólsvelli

Þú einfaldlega mætir og spilar

Á golfvellinum á Selfossi, Svarfhólsvelli, er allt til alls til að gera daginn skemmtilegan. Ólíkt mörgum öðrum golfvöllum er lítið um mót á vellinum og engin rástímapöntun. Fólk einfaldlega mætir og spilar!
 

Steinsnar frá höfuðborginni, nálægt sumarhúsasvæðum og allri þjónustu er að finna þennan gæðavöll, sem býður upp á golf í afslöppuðu andrúmslofti og einstakri náttúrufegurð. Þar má finna afburðagott og stórt æfingasvæði með yfirbyggðum æfingabásum, níu holu púttflöt, vippflöt og æfingaglompu.
Golf síðan 1971 

Golfklúbburinn býður upp á golfkennslu, bæði einka- og hóptíma, fyrir nýliða nú eða þá sem vilja bæta sig og fá góða handleiðslu. Öflugt unglingastarf fer fram í klúbbnum auk kvenna- og afrekskylfingastarfs. 

Golfklúbbur Selfoss var stofnaður árið 1971 og hefur núverandi völlur, Svarfhólsvöllur, verið í notkun frá árinu 1986. Í gegnum árin hefur verið unnið að endurbótum og breytingum á vellinum og lögð er áhersla á fyrsta flokks gæði. Nýtt vallarmat hefur verið slegið og má sjá frekari upplýsingar á http:// www.golf.is/gos

Hola í höggi 
Í golfskála klúbbsins er metnaðarfull veitingasala þar sem tilvalið er að setjast niður og fá sér mat, kaffi eða öl eftir leiki dagsins. Þá eru einnig seldar golfvörur í skálanum, s.s. boltar, hanskar, tí og flatarmerki. 

Völlurinn er að mörgu leyti perla á meðal golfvalla og kemur fólki oft skemmtilega á óvart. Nýlega komst Svarfhólsvöllurinn síðan í fréttirnar og er orðinn einn frægasti völlur landsins til þess að fara holu í höggi eftir að ungur golfspilari náði þessum merka áfanga tvisvar í sömu vikunni. Það er því ekki eftir neinu að bíða heldur tími kominn til að grípa golfsettið og bruna á Svarfhólsvöll, njóta sumarsins og spila golf.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga