Menningarveisla á Sólheimum

Menningarveisla hefur staðið yfir á Sólheimum síðan í byrjun júní í sumar og stendur til 8. ágúst. Þetta hefur mælst mjög vel fyrir og í júlí og ágúst er boðið upp á ýmis konar tónlistaratriði á laugardögum og hefjast þau klukkan 14. 

Á Sólheimum er mjög fjölbreytt starfsemi. Sýningar eru í Ingustofu, Sesseljuhúsi og í íþróttaleikhúsinu. Þarna er fallegur Höggmyndagarður og þann 8. ágúst kl. 16 mun Hrafnhildur Schram listfræðingur sýna fólki garðinn. Í kaffihúsinu Grænu Könnunni er hægt að fá ilmandi kaffi og meðlæti. Verslunin Vala selur fallega listmuni sem framleiddir eru í þeim fjölda listvinnustofa sem eru á staðnum og hægt er að kaupa sér lífrænt ræktað grænmeti á svæðinu. Lífrænn markaðsdagur verður haldinn þann 8. ágúst og hefst kl. 13. Í byggðahverfinu á Sólheimum er auk þess kirkja, þar sem oft eru guðsþjónustur, trjásafn, hljómgarður, listsýningarsalur, gistiheimili og umhverfissetrið Sesseljuhúsi.

Sólheimar byggja á traustum grunni sem lagður var fyrir 80 árum. Í upphafi var markmiðið að leggja þeim börnum lið sem bjuggu við erfiðar aðstæður. Síðan var farið að leggja fötluðum börnum lið. Sólheimar hafa síðan þróast og breyst en markmiðið er ávallt að hámarka lífsgæði skjólstæðinganna.
 
Skjólstæðingahópur Sólheima er fjölbreyttur
fatlaðir, langtíma atvinnulausir einstaklingar, fangar og krabbameinssjúkir. Rúmlega 100 manns búa og starfa á Sóheimum sem er sjálfbært samfélag. Byggðahverfið Sólheimar leggur áherslu á ræktun manns og náttúru. Rekin er öflug félagsþjónusta þar sem einstaklingum með fjölbreyttan bakgrunn er veitt tækifæri til atvinnu og starfsþjálfunar, búsetu og félags- og menningarstarfs.
Íbúar Sólheima leggja metnað sinn í að taka vel á móti gestum og eru allir velkomnir.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga