Greinasafni: Austurland
Norðfjörður

Norðfjörður
Við Norðfjörð er nyrsti og fjölmennasti byggðarkjarninn í Fjarðabyggð. Árið 1895 var löggiltur verslunarstaður á Nesi í Norðfirði, en þá var hafin þar þorpsmyndun. Ástæður þéttbýlisþróunarinnar eru mjög ljósar, því um 1870 hófst saltfiskverkun í miklum mæli og við það elfdist útgerð, en Norðfjörður liggur mjög vel við gjöfulum fiskimiðum.

Árið 1905 urðu merk tímamót þegar Norðfirðingar eignuðust sína fyrstu vélbáta og voru á þeim tíma gerðir út um 60 bátar til fiskveiða en íbúar Nesþorps orðnir um 355 talsins. Hafði því talsverð fjölgun íbúa átt sér stað því árið 1895 voru þeir um 180. Árið 1913 var þorpið aðskilið frá sveitinni og nefnt Neshreppur og bjuggu þar þá 636 íbúar.

Þann 1. janúar 1929 fékk Neshreppur kaupstaðarréttindi og nefndist Neskaupstaður og voru íbúar hans þá 1103 að tölu. Upp úr 1930 fór að draga úr íbúafjölgun og árið 1990 voru íbúar 1.754 talsins. Haustið 1993 var samþykkt að sameina Norðfjarðarhrepp og Neskaupstað undir nafni Neskaupstaðar og tók sameiningin gildi
11. júní 1994 og voru þá mörk sveitarfélagsins orðin þau sömu og fyrir 1913.  Í Norðfirði er nú fjölmennasti byggðarkjarninn í Fjarðabyggð og eru íbúar um 1400.

Sjávarútvegur, fiskvinnsla og tengd þjónusta er aðalatvinnuvegur íbúa í Neskaupstað og þar er eitt af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins, Síldarinnslan h/f .s em rekur eitt stærsta og fullkomnasta fiskiðjuver í Evrópu, þar sem uppsjávarfiskur er unnin til manneldis. Fjórðungssjúkrahúsið er einnig fjölmennur vinnustaður. Þá er nokkur landbúnaður í Norðfjarðarsveit.

Áhugaverðir staðir

Safnahúsið
Í safnahúsinu er: Sjóminja- og smiðjumunasafn Jósafats Hinrikssonar, Málverkasafn Tryggva Ólafssonar og  Náttúrugripasafnið í Neskaupstað.
Þar er opið alla daga frá 1. júní til 31. ágúst: 13:00 - 17:00 alla daga vikunnar. Utan þess tíma, eftir samkomulagi við safnvörð.

Fólkvangurinn við rætur Nýpunnar
Við rætur Nýpunnar, hæsta standbergs í sjó fram á Íslandi, er fyrsti friðlýsti fólkvangur landsins og tók friðlýsingin gildi árið 1972. Í fólkvangnum eru stuttar gönguleiðir og áhugaverðir staðir svo sem um Urðir og Hagann,sem er gönguleið með sjónum út í Páskahelli, sem er hvelfing við sjávarborðið. Í hvelfingunni eru holur eftir 10-12 milljón ár gömul gildaxin tré. Þar er fræðslustígur með ábendingum um ýmis náttúrufyrirbæri. Skemmtilegur útivistarstaður.


Hengifoss-Norðfirði Hæsti foss í Norðfirði fellur í samnefndri á úr Oddsdalnum niður í Seldal í afar fallegu og gróðursælu gljúfri.

Snjóflóðagarðurinn
Ofan byggðarinnar eru risin mikil mannvirki til varnar ofanflóðum í Neskaupstað. Búið er að koma fyrir gönguleiðum í kring um mannvirkin og hægt er að ganga uppi á þeim og njóta útsýnisins yfir Norðfjörð.

Skíðasvæðið í Oddskarði
Skíðasvæði íbúa í Fjarðabyggð er staðsett í Oddskarði og er ein af perlum sveitarfélagsins. Þar er skíðalyfta, sem hefst í 513 metra hæð og þegar upp á topp er komið, í 840 metra hæð, blasir við ægifagurt útsýni yfir Reyðarfjörðinn. Svæðið er eitt af skemmtilegustu skíðavæðum á Íslandi og gengur undir nafninu „Austfirsku Alparnir“ í daglegu tali þeirra sem þangað hafa komið. Einnig er á svæðinu barnalyfta og ágætur skíðaskáli með veitingaaðstöðu.
Gerpissvæðið
Fjarðabyggð er sannkölluð paradís fyrir göngufólk. Gerpissvæðið milli Norðfjarðar og Reyðarfjarðar er að verða eitt af vinsælustu gönguleiðavæðum landsins og hefur Ferðafélag Fjarðamanna verið ötult við að merkja þar gönguleiðir eins og víða um sveitarfélagið. Göngukort þeirra fæst í upplýsingamiðstöðvum og verslunum víða í Fjarðabyggð.

Rauðubjörg
Falleg líparítbjörg á Barðsnesi við Norðfjarðarflóa. Norðfirðingar hafa löngum sagt að ef sólin glampar á Rauðubjörg að kvöldi viti það á gott veður næsta dag.

Hellisfjörður
Fallegur og gróðursæll eyðifjörður sem gengur inn úr Norðfjarðarflóa. Þar má enn sjá leifar gamallar hvalstöðvar sem starfrækt var í byrjun 20. aldar.

Viðfjörður
Syðstur fjarðanna þriggja við Norðfjarðarflóa. Þórbergur Þórðarson skrifaði bókina Viðfjarðarundrin, um mikinn draugagang sem átti sér stað í Viðfirði. Allt fram á síðustu ár hafa menn orðið varir við undarlegar uppákomur í þessum ævintýralega firði.

Sandvík
Eyðivík norðan við Gerpi, þar sem áður var austasta byggt ból á landinu. Við Sandvík er kenndur draugurinn Glæsir sem fylgir gjarnan Sandvíkingum og tekur ofan höfuðið þegar hann heilsar fólki.

Gerpir
Austasti oddi landsins og sennilega elsti hluti Íslands. Á Gerpissvæðinu er fjöldi vinsælla gönguleiða.

Vöðlavík
Eyðivík sunnan Gerpis þar sem áður var fjöldi bæja. Náttúrufegurð er mikil í víkinn og margt að sjá, til að mynda skemmtileg sandfjara og hreindýrahjarðir yfir sumarið.

Þjónusta
Í Norðfirði er að finna alla þá þjónustu sem ferðamaðurinn þarfnast. Þar eru dagvöru-og sérvöruverslanir, hótel, veitingahús, kaffihús, söluskáli og bifreiðaverkstæði. Þar er banka- og póstþjónusta, vínbúð, lyfjaverslun, heilsugæslustöð og sjúkrahús.

Afþreying
Auk þess sem áður er getið um áhugaveða staði er ýmislegt fleira við að vera á Norðfirði. Hægt er að fara í golf, veiði, siglingu um nálæga firði, kæjakferðir og skoða söfn og handverkshús. Um verslunarmannahelgina er haldin mikil fjölskylduhátíð sem kallast Neistaflug. Margt fleira mætti nefna, en sjón er sögu ríkari


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga