Greinasafni: Austurland
Hengifoss er þriðji hæsti foss landsins


Hengifoss er foss í norðanverðum Fljótsdal á móts við innri enda Lagarfljóts. Hengifoss er þriðji hæsti foss landsins. Fram að þessu hefur hann verið talinn 118 m hár en nýjar mælingar sýna að hann er töluvert hærri. Í fossbrúninni eru blágrýtislög en undir þeim sandsteinn. Í honum finnast steingerðir trjástofnar sem vitna um mun hlýrra loftslag enda sandsteinninn myndaður á tertíertíma. Nokkru neðan við Hengifoss er annar foss í ánni, Litlanesfoss. Hann er  í óvenju fallegri stuðlabergsumgjörð. Auðvelt er að ganga upp að Hengifossi frá þjóðveginum.
Staðsetning: Um 15 mín. akstur frá Hallormsstað á vegi 931

Hengifoss, póstlagt/posted 1917

 ( frá vef www.alta.is)
6.18 Hengifossárgriðland innifelur fjallshlíðina milli Hengifossárgils og Hölknárgils, að báðum meðtöldum, en neðsti hluti hennar kallast Brekkuteigur. Hengifossá hefur sett mark sitt á þetta svæði og grafið þar ýmsa farvegi, áður en hún myndaði Hengifossárgil, sem er með fegurstu árgiljum hér á landi, og í því eru frægir fossar. Mikil og merkileg setlög eru í giljunum, með jurtaleifum frá tertíertíma, og óvenju fagurt stuðlaberg. Griðlandið tilheyrir jörðunum Melum, Hjarðarbóli og Brekku.
 
 ***6.18.1 Hengifossárgil er klettagil mikið sem Hengifossá hefur grafið í hlíðina, frá heiðarbrún niður á jafnsléttu. Í gilinu eru margir og fjölbreyttir fossar. Neðst í gilinu að utanverðu er Skógarhvammur, vaxinn birki- og reynitrjám, og ofan við hann fallegur foss með stórt reynitré við hlið, og mætti því heita "Reynifoss". Nokkru ofar kemur fram gulbrún setlagasyrpa í gilinu, um 20 m þykk, í um 100 m hæð. Þar fyrir ofan er klettakór mikill með óvenju reglulegu stuðlabergi úr háum og beinum súlum, er þykir eitt hið fegursta sinnar gerðar hér á landi. Í kórnum er Stuðlabergsfoss (Litlanesfoss), er myndar um 30 m langa svuntu í klettaþröng. Best er að skoða stuðlagilið í sólskini fyrri hluta dags. Í heiðarbrún er Hengifoss, einn hæsti foss landsins, 128 m í einni fallbunu. Fossbrúnin er í 450 m h. y.s. Fossinn fellur ofan í hrikalegt og ægifagurt gljúfur með standbjörgum og áberandi rauðalögum milli berglaga. Neðst eru eru tuga metra þykk setlög með surtarbrandi. Að utanverðu er hrúgald er hefur hrunið úr þeim, en sunnanvert falla tveir Sellækir í flúðum niður hallandi fláa. Neðan við Sellæki er gilið þröngt og grunnt á kafla, með röð af birkitrjám á börmum. Ofan við Hengifoss eru tveir fossar, nafnlausir. Utan við gilið eru grunnir og grónir aukafarvegir árinnar og heitir þar Grenisgjóta utan og neðan við Hengifoss. Hjörleifur lýsir jarðfræðinni svo:

"Undir fossinum taka við mikil og forvitnileg setlög, um 100 m á þykkt, og hafa eflaust auðveldað ánni að grafa geilina og mynda fossinn. Þau hafa að líkindum orðið til í stöðuvatni fyrir um 5,7 milljónum ára, þar sem safnast hefur saman glerkennd gosaska með ívafi af flikrubergi og súrri gjósku. Ofarlega í setlögunum við Hengifoss er surtardrandur, leifar af allstórvöxnum skógi, og standa bútar af trjástofnum, sem pressast hafa saman undan fargi jarðlaga, svo og rótarhnyðjur á víð og dreif út úr surtarbrandslögunum. Yfir skógana í þessari kvos hefur runnið þunnt basalthraun, sem liggur á milli setlaganna skammt neðan við fossinn í um 350 m hæð. Margir náttúrufræðingar hafa skoðað surtarbrandinn, m.a. Jónas Hallgrímsson 1842, Þorvaldur Thoroddsen 1882 (Ferðabók I, 1958, bls. 52-54) og Þorleifur Einarsson 1957. Nákvæmar rannsóknir hafa þó ekki verið gerðar á honum, en að hluta til er um að ræða leifar barrskóga, sem bera vott um kólnandi loftslag seint á tertiertímanum. Litlu ofar í jarðlagastaflanum í Fljótsdal eru um 5,5 milljón ára gömul setlög, sem bera vott um fyrstu jökulminjar á þessu svæði (Ágúst Guðmundsson, 1978)." (Hjörleifur Guttormsson, 1987, bls. 60).

Hengifossárgil var skráð af NAUST 1973 og síðan sett á skrá Náttúruverndarráðs, þannig skráð: "Hengifossárgljúfur, Fljótsdalshreppi, N.-Múl. (1) Gljúfrið, með Hengifossi og Litlanesfossi. (2) Sérstæð umgjörð um Hengifoss, einn hæsta foss landsins, og stuðlabergsmyndanir við Litlanesfoss." Á árunum 1973-75 var athugað um friðlýsingu en hún náði ekki fram að ganga. Hengifoss er vafalítið frægastur allra náttúrumæra á Austurlandi og nær sú frægð langt út fyrir landsteina. Þangað kemur árlega fjöldi ferðafólks, líklega tugir þúsunda og flestir ganga upp að fossinum, sem er þægileg hálftíma ganga. Í gilsmynninu við brúna eru leifar af gamalli skilarétt (Melarétt). Á síðustu árum hefur allgóð aðstaða verið gerð við brúna fyrir ferðamenn, og stígur lagaður upp með gilinu að innan. Þar eru einnig upplýsingaskilti Vegagerðarinnar. Innan við gilið er að vaxa upp lerkiskógur í landi Mela.

Heimildir: Ágúst Guðmundsson: Austurlandsvirkjun - Múlavirkjun. Frumkönnun á jarðfræði Múla og umhverfis. Orkust. 1978.  Helgi Hall.: Jónas Hallgrímsson skoðar surtarbrand í Fljótsdal. - Austri 31. árg., jólablað 1986: 16-17. Sami: Hengifoss mældur.  Glettingur 13 (3): 45-47. Hjörleifur Guttormsson: Norð-Austurland. Árb. Ferðafél. Ísl. 1987, bls. 59-60. Sigurður Blöndal: Hengifoss og Hengifossárgil. - Austurland 7. júlí. 1967.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga