Dvergasteinn í Seyðisfirði


Steinninn stendur í flæðamálinu neðan við samnefnda forna kirkjujörð. Þjóðsagan um Dvergastein og ferðalag hans yfir fjörðinn á eftir kirkjunni, þegar hún var flutt frá suðurströndinni norður yfir fjörðinn, er landsþekkt. Steinninn er sérkennilegur að lögun og stingur í stúf við umhverfið.

Utar með firðinum  að vestan er forn  kirkjustaður, sem Dvergasteinn er nefndur.
Í þjóðsögum segir að prestssetrið  í  Seyðisfirði hafi í fyrndinni staðið austan  fjarðar. Ekki er getið nafns þess, en í grennd við það stóð steinn og héldu menn almennt og trúðu að dvergar byggju þar og var hann kallaður Dvergasteinn.
Síðar var kirkjan flutt vestur yfir fjörðinn. Þegar kirkjubyggingunni á hinum nýja  stað var að mestu lokið varð mönnum er við hana unnu, starsýnt út á fjörðinn, en þeir sáu hús koma siglandi handan yfir og stefndi það þangað sem kirkjan stóð. Hélt húsið áfram þar til það kennir grunns í fjörunni. Verða menn þess þá vísari að þar er kominn Dvergasteinn sem áður hafði staðið við kirkjustaðinn austan fjarðarins.
Munu dvergarnir ekki hafa kunnað við sig er kirkjan hafði verið flutt frá þeim og drógu sig á eftir henni. Prestssetrið var því nefnt Dvergasteinn. Síðar var kirkjan flutt, sem fyrr segir, inn á Vestdalseyri og nú stendur hún inn í fjarðarbotni. Ekki hafa dvergarnir þó séð ástæðu til þess að flytja bústað sinn enn á ný, og stendur Dvergasteinn þar sem hann kom á sínum tíma, siglandi austan yfir fjörðinn.

Vignir Guðmundsson í Lesbók Morgunblaðins des.1962

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga