Greinasafni: Söfn einnig undir: Veitingar
Gunnarsstofnun - Skriðuklaustur

 

Skriðuklaustur nefnist bær og jörð í Fljótsdal sem liggur á milli hinna fornu höfuðbóla, Valþjófsstaða(r) og Bessastaða. Staðurinn hét upphaflega Skriða en þar var stofnað munkaklaustur undir lok 15. aldar. Var það eina klaustrið í Austfirðingafjórðungi og jafnframt hið síðasta sem stofnað var í kaþólskum sið. Nú er staðurinn þekktastur fyrir hið einstæða stórhýsi sem Gunnar Gunnarsson skáld reisti þar sumarið 1939 og gaf íslenska ríkinu 1948 til ævarandi eignar. Þar er nú rekið menningar- og fræðasetur með starfsemi allan ársins hring. 

 Kraftaverk
Gömul helgisögn greinir frá því að kraftaverk hafi gerst á hjallanum fyrir neðan bæinn að Skriðu. Presturinn á Valþjófsstað reið út dalinn til að þjónusta dauðvona sóknarbarn sitt. Þegar hann ætlaði að veita hinum sjúka sakramentið fann hann hvorki í fórum sínum kaleikinn né annað sem til þurfti. Því var sendur maður til að leita. Sagan segir að á þúfu fyrir neðan Skriðu hafi hann fundið kaleikinn fullan af víni og patínuna yfir honum með brauði á. Litu menn á þetta sem furðuverk guðs og byggðu þar kapellu með altarið þar sem þúfan var.

 Klaustur
Talið er að klaustur hafi verið stofnað á Skriðu 1493. Heyrði það til Ágústínusarreglu og var stjórnað af príor. Ætla má að munkar hafi aldrei verið fleiri en sex við klaustrið en þeir hafi m.a. sinnt kennslu.
Árið 1500 gefa hjónin á Víðivöllum jörðina Skriðu "fyrst að upphafi guði almáttugum, jómfrú Marie og helga blóð, til ævinlegs klausturs." Í vígslubréfi Skriðuklausturskirkju frá 1512 kemur fram að hún skuli helguð heilagri Maríu guðsmóður, líkama Krists og blóði. Ekki er vitað um aðra kirkju hér á landi sem helguð var altarissakramentinu og styður það helgisögnina.
Skriðuklausturskirkja var reist á næsta hjalla fyrir neðan bæjarhúsin sem stóðu nærri núverandi bæjarstæði. Heimild frá 1598 greinir frá 16 húsum á staðnum.
Klausturkirkjan var mikið hús sem stóð fram á 18. öld. Þá hafði verið byggð ný kirkja og minni sem enn sjást veggjabrot af í gamla kirkjugarðinum. Kirkja var lögð af á Skriðuklaustri 1792 en minjar hennar eru friðlýstar.
 
 Skriðuklaustursumboð
Klaustrið eignaðist um 50 jarðir og hjáleigur á þeim tæpu 60 árum sem það var starfrækt. Þessar jarðir urðu eign konungs eftir siðaskipti og voru seldar á leigu. Var það kallað Skriðuklaustursumboð og leigutakar umboðsmenn eða klausturhaldarar. Sumir þeirra sátu á Skriðuklaustri og voru margir jafnframt sýslumenn í Múlaþingi. Eftir 1874 urðu klausturjarðir að þjóðjörðum og um aldamótin voru flestar seldar ábúendum.
 
 Klaustur-María
Heimildir greina frá Maríulíkneski á Skriðuklaustri sem trúlega hefur staðið í klausturkirkjunni á sínum tíma. Breskur fiskkaupmaður, Pike Ward, safnaði um aldamótin 1900 nokkru af fornmunum hér á landi. Þegar Þjóðminjasafnið eignaðist það safn 1950 kom í ljós fagurlega útskorin Maríumynd sem fylgdu þau orð að hún hefði fundist þegar bóndinn á Klaustri við Lagarfljót var að endurbyggja gamlan fjósvegg. Líkneskið er varðveitt á Þjóðminjasafni Íslands og er meðal mestu dýrgripa safnsins. Á Skriðuklaustri er hins vegar eftirmynd gerð af Sveini Ólafssyni myndskera.

 Jón hrak
Gömul sögn er um að flækingurinn Jón hrak hafi endað líf sitt í Fljótsdal og verið grafinn í klausturkirkjugarðinum þannig að leiðið sneri "út og suður". Stephan G. Stephansson orti frægt kvæði um Jón þennan og lét hlaða upp leiðið. Hákon Bjarnason skógræktarstjóri lét síðan gera legstein með nafni hans sem sjá má í einu horni garðsins.

Þekkt er vísan:

Kalt er við kórbak,
kúrir þar Jón hrak,
ýtar snúa austur og vestur,
allir nema Jón hrak.

 Helg tré
Á brún Klausturhamra, sem eru rétt neðan við gamla kirkjugarðinn, er röð af öldnum birkitrjám. Sagt er að höggvi menn þessi tré falli besti stórgripurinn á bænum.
 
 Bessasteinn
Aflraunasteinar tveir hafa lengi verið á Klaustri. Annar þeirra nefnist Bessasteinn og var upphaflega á Bessastöðum. Átti Bessi gamli að hafa sparkað honum niður völlinn til að marka sér legstað. Dæld er í steininum eftir sparkið.
 
 Hans Wíum og Sunneva
Hans Wíum (1712-1788) sýslumaður fékk Skriðuklaustur 1740. Hann var óvenjulegur embættismaður sem reyndi að sporna gegn dómhörku og tók milt á smávægilegum afbrotum. Til eru sögur um að hann hafi skotið skjólshúsi yfir Fjalla-Eyvind og Höllu einn vetur.
Örlög Hans Wíum urðu að flækjast í sakamál sem stóðu í nærfellt tvo áratugi og kölluð voru Sunnevumál. Systkinin Jón og Sunneva, frá Geitavík í Borgarfirði, urðu uppvís að barneign á unglingsaldri. Faðir Hans, Jens Wíum sýslumaður, dæmdi þau til dauða samkvæmt "Stóradómi" 1740. Dómnum var skotið til alþingis og konungsnáðar en litlu síðar fórst Jens á sjó. Tók Hans þá við embætti föður síns og gæslu systkinanna. Sunneva varð aftur þunguð 1741 og lýsti hún Hans föður að barninu, en hann sór af sér. Málið tók þá óvænta stefnu og var Hans um tíma dæmdur frá embætti. Sunneva lést í varðhaldi á Skriðuklaustri 1757. Munnmæli herma að Hans hafi drekkt henni í Drekkingarhyl eða Sunnevuhyl sem er við gilsmynni Bessastaðaár.

Þekkt er vísan:

Týnd er æra töpuð sál
tunglið veður í skýjum.
Sunnevu nú sýpur skál,
sýslumaðurinn Wíum.

 Stórbændur
Meðal stórbænda sem bjuggu á Skriðuklaustri í fyrri tíð og urðu frægir fyrir búsumstang sitt var Sigfús Stefánsson (1823-1910). Hann var bóndi þar 1863-1881 og var um skeið í tölu tólf skatthæstu bænda landsins. Frægt er að þegar askan féll úr Öskjugosinu 1875 rak hann búsmala sinn norður í Öxarfjörð og til baka árið eftir.
Tengdasonur Sigfúsar var Halldór Benediktsson (1852-1918). Hann keypti Skriðuklaustur af Landssjóði og endurbyggði öll bæjarhúsin um 1890. Varð Klausturbærinn þá fyrirmynd torfbæja í landinu en hann byggði þar einnig timburhús. Eitt af því sem Halldór gerði var að byggja kornmyllu í skurði þar sem kaldavermsl tryggði vatn allt árið. Stórt mylluhjólið nefndu sveitungar hans „Veraldarhjólið“, enda snerist það jafnt nótt sem dag. 
Uppgröftur sumarsins hafinn - fornleifar

Uppgröftur er nú hafinn að nýju á Skriðuklaustri. Er þetta fimmta sumarið sem grafið er rústir klaustursins sem þar var starfrækt á miðöldum. Haldið verður áfram uppgrefti á klausturhúsunum og klausturkirkjunni nú í sumar, auk þess sem rannsóknum á mannabeinum úr kirkjugarðinum verður haldið áfram. Nú þegar hafa tvær grafir verið grafnar upp og verið er að grafa upp þá þriðju. Á sjöunda hundrað gripa hafa fundist nú í sumar, þar á meðal stór vikursteinn með sléttri hlið en það bendir til þess að hann hafi verið notaður við bókagerð. Nokkrir hnappar hafa fundist, fingurbjörg og lykill.

Skriðuklaustur 701,Egilsstaðir Sími:471-2990 / 471-2992
klaustur@skriduklaustur.is    www.skriduklaustur.is


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga