Greinasafni: Austurland
Hólmsnes

Gönguleiðir og áhugaverðir staðirSkeleyri

Auðvelt er að ganga út á Skeleyri og er best að fara út með ströndinni frá bílastæði við gömlu sorphaugana. Í fjörunni má sjá strandplöntur sem þola seltu sjávar svo sem blálilju, hrímblöðku og fjöruarfa og á fjörukambinum kattartungu, tágamuru og hvönn. Æðarfugl og fleiri fuglar sjást á sundi við ströndina og vaðfuglar spígspora í fjörunni. Fagurt útsýni er yfir fjörðinn og til hafs. Ströndin út með firði að norðan er skreytt grænum túnblettum, uppaf rís margbrotinn fjallgarður og eyjan Skrúður sést í fjarska. Á hina höndina eru fyrst grasi vaxnar og blómskrúðugar brekkur með smá klettum en undan Baulhúsum mosaríkir móar og mýri. Á grynningu í sjónum vestan við
Skeleyri má sjá hellur úr ljósu líparíti standa uppá rönd á sérstæðan hátt. Skeleyrin sjálf er formfögur með sínum ávölu línum og ljósleitri möl. Þar er kjörið að skoða skeljar, vaða í sjónum á heitum dögum og fara í leiki.

Baulhús - Baulhúsamýri

Taka má sveig upp að Baulhúsum frá gönguleiðinni út að Skeleyri eða ganga frá þjóðveginum á Hólmahálsi og niður að bæjarstæðinu. Baulhús eða Bauluhús munu hafa byggst fyrst um 1830 sem afbýli frá Hólmum. Býlið dregur nafn sitt af kletti sem kallast Baula og er í flæðarmálinu rétt vestan við Skeleyri. Þar var búið frá um 1830 til 1845 og aftur frá 1909 til 1917 og enn má sjá móta þar fyrir túni. Útsýni er fagurt frá Baulhúsum og tilvalið að setjast á tóftarveggina og hugsa til fornra búskaparhátta eða ganga út í Baulhúsamýri og skoða vot-lendisplöntur eins ogt.d. vetrar-kvíðastör, hengistör, mýrastör, gulstör, klófífu, mýrelftingu, engjarós og horblöðku.

 Básar - Ögmundargat
Ef haldið er áfram frá Skeleyri út ströndina er komið í Bása sem eru litlar hömrum girtar víkur. Utarlega millitveggja bása er Ögmundargat. Það dregur nafn sitt af fjármanni áHólmum er Ögmundur hét. Eitt sinn var hann þar með fé sitt og beitti því á þara í bás eða viki einu við sjóinn og var öðrumegin þunn brík eða kambursem gekk fram í sjó. Dvaldi Ögmundur svo lengi með féð þarna að hann flæddi uppi svo að hann sá sér ekki bjargar von en brim var að vaxa og blasti dauðinn við honum. Tekur hann þá til bragðs að pjakka með broddstaf sínum
gat í gegnum fyrrnefnda brík og komst þar í gegn með allt féð. Gatið hefur verið við hann kennt; var það svo stórt að á stórstraumsflóði og í ládeyðu var hægt að skjóta þar gegnum fjögurra manna fari. Nú hefur brimið brotið stykki framan af bríkinni og rofið gatið á eina hlið, en sagan um hinn úrræðagóða smala lifir enn.

Ytri-Hólmaborg
Hægt er að ganga á Ytri-Hólmaborg og er sæmileg leið á hana upp aðaustan. Útsýni þar er fagurt og ómaksins virði að ganga þar upp. Norðan í Ytri-Hólmaborg er Sauðahellir, allmikill skúti, og er sagt að þar hafi Hólmabændur fengið skjól fyrir sauði sína í vondum veðrum. Hægt er að ganga að Sauðahelli t.d. frá Skeleyri eða frá Borgahvammi.

 Gránubás - Hellrar - Borgasandur
Úr Básum er gangfært suður í Gránubás sem dregur nafn sitt af grárri hryssu sem sögð er hafa synt yfir Reyðarfjörð frá bænum Eyri og komiðþarna í land. Áfram er gengt um Hellra og yfir í Borgahvamm suðvestanundir Ytri-Hólmaborg. Gæta þarf varúðar á leiðinni, einkum ef hált er. Úr Borgahvammi má halda upp á Innri-Hólmaborg eða ganga öðruhvoru megin við hana í Urðarhvamm eða í Urðarskarð.

Innri-Hólmaborg - Urðarskarð - Urðarhvammur
Ganga á Innri-Hólmaborg er tiltölulega auðveld hvort sem er austan frá eða úr Urðarskarði. Ágætt útsýni er af borginni og úr Urðarskarði og er gaman að skoða jökulsorfnar klappir uppi á Borginni.
Urðarhvammur er sérstakt ævintýraland. Urðin er hrun eða berghlaup með mosavöxnu stórgrýti og milli steinanna eru gjótur þar sem finna má elftingar og burkna. Upp frá urðinni norðanmegin er brött sólrík brekka í skjóli fyrir norðanátt og er hún vaxin miklu blómskrúði og berjalyngi. Þar vexstóriburkni á einum stað. Í klettaveggnum vaxa aronsvöndur, sigurskúfur, reyniviður, burknar og steinbrjótar. Gæta skal þess að skerða ekki sjaldgæfar tegundir svo sem aronsvönd og stóraburkna eða vaxtarstaði þeirra.Hólmar - Leiðarhöfði


Hægt er að ganga úr Urðarhvammi eða frá þjóðveginum sunnan í Hólmahálsi niður að ströndinni við Leiðarhöfða og Hólma. Hólmarnir aðrir en Flathólmi eru allháir og kúptir, iðjagrænir
af skarfakáli sumar sem vetur og veita skjól fjölda fugla, einkum æðarfugli og lunda, en sá
síðarnefndi verpir aðeins í Stórhólma.
Leiðarhöfði mun bera nafn sitt af leiðarþingum sem Reyðfirðingar sóttu þar til forna. Samkvæmt heimildum voru á þessum slóðum tvö afbýli frá Hólmum; Stekkur var upp af Leiðarhöfða og á grandanum milli Leiðarhöfða og lands var Eneshús sem líklega var íveru- og sjóhús byggt af norskum síldveiðimanni um 1880. Umferð er bönnuð um ströndina við Leiðarhöfðavík og Leiðarhöfða frá 15. apríl til 15. júní vegna æðarvarps.

Völvuleiði á Hólmahálsi
Hægt er að keyra eða ganga frá þjóðveginum upp að Völvuleiði efst áHólmahálsi. Áður voru þar þrjár steinhellur en nú hefur verið hlaðin há varða á legstað völvunnar, sem er talin vera verndarvættur Reyðarfjarðar. Sagan segir að völva ein hafi búið á Sómastöðum í Reyðarfirði nokkru fyrir þann tíma er Tyrkir rændu hér við land árið 1627. Áður en hún andaðist mælti hún svo fyrir að sig skyldi grafa þar er best væri útsýni yfir Reyðarfjörð og kvað þá fjörðinn aldrei mundu rændan af sjó meðan nokkurt bein í sér væri órotið. Var hún þá grafin á fyrrnefndum stað. Þegar Tyrkir komu að Austfjörðum hugðust þeir sigla inn á Reyðarfjörð og ræna Hólmakirkju og kaupstað að Breiðuvíkurstekk. Þóttust þeir eiga þar fangsvon góða. En er þeir komu í fjarðarmynnið kom á móti þeim geysandi stormur svo að fjöll þakti í sjávarroki beggja megin fjarðar. Urðu þeir frá að hverfa við svo búið.

Friðlýsing

Hólmanes, Hólmatindur
og hólmarnir


Hólmanes og hluti af Hólmahálsi voru friðlýst árið 1973 sem fólkvangur norðanmegin en friðland
sunnanmegin og réði því mismunandi eignarhald. Um svæðið gilda þó samræmdar reglur. Samkvæmt náttúruverndarlögum eru fólkvangar svæði sem friðlýst eru til útivistar og almenningsnota en hafa einnig að geyma fjölbreytta og fagra náttúru. Friðland er svæði sem mikilvægt er að varðveita sakir sérstaks landslags eða lífríkis. Til að ná markmiðum friðlýsingarinnar gilda eftirfarandi reglur um svæðið:
Gangandi fólki er frjáls umferð, enda virði það almennar umgengnisreglur
Ekki má skemma gróður eða trufla dýralíf
Mannvirkjagerð, jarðrask og meðferð skotvopna eru bönnuð á svæðinu

Svæðið er kjörið útivistarsvæði og ákjósanlegt til kennslu og náttúrufræðslu enda er landslag og lífríki þar fjölbreytt og jarðfræðin áhugaverð.

Landslag og jarðfræði

Skeleyri

Hólmatindur er afar tilkomumikið fjall og rís 985 m yfir sjávarmál milli Eskifjarðar og
Reyðarfjarðar. Hólmanes sem teygir sig til suðausturs frá honum er klettótt og ber þar mest á Ytri-Hólmaborg (114 m) en norðan á nesinu er þó nokkurt sléttlendi. Utan til á nesinu eru víða hamrar í sjó fram en innar malar- og þangfjörur.
Hólmanes og Hólmaháls eru að miklu leyti úr basísku bergi sem hefur storknað á yfirborðinu
og er dökkt á lit. Yst á nesinu er berggrunnurinn þó úr súru gosbergi, svokölluðu líparíti, sem er ljósleitt og er þar vestasti og yngsti hluti


Ögmundargat

Reyðarfjarðareldstöðvar sem var virk fyrir 11-12 miljónum ára. Líparítið er viðkvæmt fyrir veðrun og klofnar sundur í flögur og sést þetta mjög greinilega norðan og austan við Ytri-
Hólmaborg. Borgirnar og Hólmarnir eru aftur á móti innskot sem hafa myndast við storknun bergkviku neðanjarðar sem tróðst inn á milli hraunlaganna er fyrir voru. Þessi innskot, sem eru úr basísku bergi, svokölluðu díabasi, reyndust harðari en hraunlögin í kring og hefur því rofmáttur ísaldarjökulsins ekki náð að vinna eins auðveldlega á þeim og berginu í kring.
Eftir að eldvirkni lauk við Reyðarfjörð hafa roföfl unnið að landmótun og áhrifamestir voru jöklar ísaldar. Reyðarfjörður er heljarmikill jökulsorfinn dalur og lá meginjökullinn út eftir honum. Annar þynnri jökull hefur skriðið út Eskifjörð og er hann því grynnri en Reyðarfjörður. Dýpi í mynni
Eskifjarðar er 30-50 m en 60-150 m í Reyðarfirði, sunnan við nesið. Hólmarnir líta út eins og hvalbök og vitna um skriðstefnu jökulsins. Skeleyri hefur myndast við sjávarrof. Hún er gerð úr líparítmöl sem sjórinn hefur skolað utan úr Básum og hlaðið upp á straumaskilum.

Gróðurfar


Líparítflögur í sjó við Skeleyri

Í Hólmanesi má finna fjölbreytileg gróðurlendi og mikla tegundafjölbreytni þrátt fyrir að nesið virðist fremur hrjóstrugt. Alls hafa verið skráðar ríflega 150 tegundir háplantna á friðlýsta
svæðinu. Þar vaxa einkennisjurtir Austfjarða: Klettafrú, sjöstjarna, gullsteinbrjótur, maríuvöttur og bláklukka.
Einnig allmargar fremur sjaldgæfar tegundir svo sem villilín, dökkasef, aronsvöndur, sigurskúfur og stóriburkni.

Graslendi er meðfram ströndinni einkum við Baulhúsavík og kringum Leiðarhöfða en einnig við Baulhús. Mosi er áberandi í brekkum austan í Hólmahálsi, utan í Borgum og á flatlendinu upp af Skeleyri og Básum. Hann er ýmist einráður eða innan um lyng, sef eða gras. Gróskumikill
lynggróður er víða í brekkum, einkum í vestanverðum Baulhúsadal, Urðarhvammi og innan um mosagróðurinn í allri brekkunni austan í Hólmahálsi.
Baulhúsamýri er stærsta votlendið en votlendi er einnig í Borgahvammi og mýrablettir eru í brekkunum suðaustan í Hólmahálsi. Víða sjást lítil flög og opnur í gróðurþekjunni, og þar er kjörlendi tegunda svo sem flagahnoðra, blómsefs, flagasefs og dökkasefs. Þykkur mosi þekur urðirnar í Urðarhvammi og við Ytri-Hólmaborgina og burknar og elftingar leynastmilli steina í urðunum þar sem skjólgott er og skuggsælt. Í klettaveggjum utan í Hólmaborgum og upp af Urðarhvammi vaxa klettafrú, bergsteinbrjótur, burknar og fleiri tegundir.

Dýralíf
Mikið fuglalíf er í Hólmanesi allt árið um kring. Sjófuglar setja mestan svip á fuglalífið en í fjörum og móum vappa vaðfuglar og mófuglar. Endur og gæsir sjást í Hólmunum og sjónum þar um kring. Í Langhömrum, Ytri-Hólmaborg og í sjávarhömrum er varpstaður fjölmargra bjargfugla. Fýll er algengur og verpir á klettasyllum víðs vegar um nesið og silfurmáfabyggð er uppi á Ytri-Hólmaborg. Æðarfugl verpir aðallega í hólmunum en einnig víðar með ströndinni og stöku sinnum leynist æðarkóngur í hópi þeirra. Töluvert kríuvarp var í Leiðarhöfða á árum áður en er nú lítið. Toppönd, grágæs, stelkur, heiðlóa, hrossagaukur, tjaldur, svartbakur, þúfutittlingur,
lundi, rita, teista, steindepill og hrafn eru allt varpfuglar í Hólmanesi. Fleiri fuglar dvelja þar en verpa ekki, t.d. sést dílaskarfur við sunnanvert nesið ogtildrur við Stórhólma. Áður verpti bjargdúfa á þessum slóðum en flutti sig um set.
Skeljar finnast einkum á Skeleyri en klettadoppur og hrúðurkarlar sitja á steinum og klettaveggjum, meðal annars í Básum. Í brekkum leynast lyngbobbi og svartsnigill.
Tófa sést í Hólmanesi og þar finnst greni af og til. Minkur er þar líka og er hann ásamt tófunni vágestur í æðarvarpi. Hreindýr sjást stundum í Hólmanesi síðla vetrar, einkum tarfar.

Umhverfismálanefnd Fjarðabyggðar gefur bæklinginn út
Umbrot, texti og kort: Náttúrustofa Austurlands
Myndir: Skarphéðinn G. Þórisson, Berglind Steina Ingvarsdóttir
og Benedikt Jóhannsson


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga