Greinasafni: Austurland einnig undir: Sveitarfélög
Fljótsdalshérað
Fljótsdalshérað
Fljótsdalshérað er víðáttumikið láglendi sem markast af Héraðsflóa í norðri og Vatnajökli í suðri. Inn af láglendinu skerast Jökuldalur, Skriðdalur og Fljótsdalur. Ólíkt stórskornu Alpalandslagi fjarðanna, einkennist Héraðið af heiðadrögum, fjölbreyttu gróðurfari og stöðuvötnum. Um það falla vatnsmiklar ár, Jökulsá á Brú, Selfljót og Lagarfljót (er kallast Lögurinn brúa í millum í Fljótsdal). Snæfell- hæsta fjall landsins utan jökla- og Dyrfjöll milli Héraðs og Borgarfjarðar eystri, setja svip sinn á umhverfið, að ógleymdum Smjörfjöllum, milli Vopnafjarðar og Héraðs. Á Fljótsdalshéraði er að finna stærsta skóg landsins, Hallormsstaðaskóg, og nytjaskógrækt er vaxandi búgrein.
Landið er frjósamt og mörg reisuleg býli eru á Héraði. Dýralíf er fjölbreytt og á hálendinu ofan Héraðs eru heimkynni hreindýra sem einnig gista stundum láglendi. Lax og silungur eru í ám og vötnum og skógurinn og kjarrið eru kjörlendi fugla. Á Úthéraði er fuglagriðland á heims- mælikvarða, t.d. víðfeðmasta kjóavarp heims.
Á söndunum kæpa selir og í vötnum og ám svermar fiskafjöld. Þéttbýlin á bökkum Lagarfljóts heita Fellabær og Egilsstaðir og mynda helstu miðstöð samgangna og þjónustu í fjórðungnum, auk þess sem þar er alþjóðaflugvöllur. Lunginn af opinberri starfsemi á Austurlandi er á Egilsstöðum. Heitt og kalt vatn sprettur úr borholum í og við Urriðavatn.
Góð íþróttaaðstaða er á Fljótsdalshéraði, sundlaugar, íþróttavellir, golfvöllur á Ekkjufelli
og skeiðvöllur á Iðavöllum svo eitthvað sé nefnt. Fjölbreytt félagsstarf er á Héraði.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga