Jón Þorleifsson Listmálari
 Jón Þorleifsson fæddist 26. desember árið 1891 í Hólum, Höfn í Hornafirði. Hann bjó þar þangað til árið 1912 en hóf þá nám við Flensborgarskóla í Hafnarfirði. frá 1918 til 1921 lærði hann málaralist við Teknisk Selskabs Skole í Kaupmannahöfn og Académie de Croquis árið 1921 til 1922.

Jón flakkaði nokkuð á milli Íslands, Danmerkur og Frakklands og starfaði sem listmálari á þessum stöðum frá árinu 1922 til ársins 1938. Hann settist alfarið að á Íslandi árið 1938 og starfaði sem bókari hjá Sparisjóði Nesjahrepps. Jón var um tíma listgagnrýnandi Morgunblaðsins. Einnig hlaut hann hinn merka heiður að verða riddari af konunglegu Vasa-orðunni. 

Á meðal verka Jóns voru 33 metra langt málverk í New York, altaristafla af fæðingu frelsarans í Bjarnaneskirkju og ýmis verk í Listasafni Íslands (Súlur, Flosagjá, Örœfa¬jökull, skip í Reykjavíkurhöfn). Jón málaði látlausar og fremur raunsæjar náttúrulífsmyndir en expressjónískra áhrifa gætti einnig í verkum hans. Hús, þorp, bátar og fólk urðu meira áberandi í verkunum með árunum og seinna meir var Jón undir áhrifum frá Fauvisme.

Hann var einn af hinum fáu „yngri“ málurum sem valdir voru á yfirlitssýningu íslenskrar listar í Kaupmannahöfn og Þýskalandi 1927-28, og á hinni opinberu sýningu af tilefni Alþingishátíðar 1930 var honum enn skipað á bekk með hinum „viðurkenndu“ listamönnum. Hann lést þann 14. júlí 1961, 69 ára að aldri.

Súlur  1929

Sumar  1931


Grjótprammi  1940


Vestra Horn við Hornafjörð 1936

Jón Þorleifsson fæddist og ólst upp að Hólum í Hornafirði en þar hafa margir íslenskir myndlistarmenn málað og verið heillaðir af birtunni, víðáttunni og litum fjallanna.

Hann málaði í fyrstu landslagsmyndir en það höfðu frumherjarnir í íslenskri málaralist, Þórarinn B. Þorláksson og Ásgrímur Jónsson, líka gert. Hann málaði myndir af náttúru landsins og af fólki við ýmis störf.

Hann hafði afar næmt auga fyrir birtu og margvíslegum litbrigðum. Í myndlist hans eru mörg einkenni impressjónistanna en um þá var sagt að þeir máluðu ekki það sem þeir hefðu fyrir augunum heldur birtuna sem félli á það. Birtan í verkum Jóns er tær þar sem hann horfði á landið baðað hásumarsól. Hann málaði landið líka í regni og drunga og í vetrarskrúða, myndir sem sýna fólk að störfum, t.d. í Reykjavík og á Siglufirði, og kyrralífsmyndir.

Áhugi Jóns á málaralistinni vaknaði strax á unga aldri. Hann hafði þó ekki tækifæri til að mála fyrr en um tvítugt. Þá fyrst fékk hann liti, bæði olíuliti og vatnsliti og fór að föndra með þeim upp á eigin spýtur. Um það leyti kynntist hann líka Ásgrími Jónssyni listmálara sem sá hvað í honum bjó og hvatti hann til að halda út á listabrautina.

Jón stundaði myndlistarnám í Kaupmannahöfn og París. Í París kynntist hann verkum eftir franska málarann Paul Cézanne. Verk Cézanne og aðferðir hans áttu eftir að hafa mikil áhrif á myndsköpun hans. Þegar Cézanne málaði myndir af náttúrunni reyndi hann ekki að líkja eftir því sem hann hafði fyrir augunum. Hann umskapaði það, lagði áherslu á aðalatriðin en lét það sem minna máli skipti eiga sig. Hann notaði líka andstæða liti mjög djarflega.

Á árunum milli 1940 og 1950 málaði Jón bæði landslagsmyndir og myndir sem sýndu atvinnuhætti. Hann málaði ekki abstraktmyndir þegar þær komu til sögunnar í lok fimmta áratugarins.

Jón var oft kenndur við hús sitt við Kaplaskjólsveg sem hann nefndi Blátún.
Þar hélt hann líka sýningar á verkum sínum. Blátún er horfið af sjónarsviðinu og einnig annað hús sem Jón átti mikinn þátt í að koma undir þak á sínum tíma, Listamannaskálinn við Kirkjustræti í Reykjavík, en það var fyrsti salur í Reykjavík sem var gerður sérstaklega fyrir myndlistarsýningar.

Þá braut Jón blað í umfjöllun um íslenska myndlist árið 1931 þegar hann gerðist listgagnrýnandi Morgunblaðsins en því starfi sinnti hann fram á sjötta áratuginn.
Gullfoss 1940


Vestmannaeyjar 1951


Ísenskur fjörður


Tengt efni

Eldri tölublöð
Efnisyfirlit
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga