Picasso eftir Jón Þorleifsson

Picasso  efir Jón Þorleifsson

Síðastliðinn vetur sá ég i Kaupmannahöfn stóra sýningu með verkum þeirra Matisse, Picasso,Braque og myndhöggvarans Laurenz. Það værí fróðlegt að skrifa um þessa sýningu í heild, því að svo má að orði kveða, að þeir séu hver öðrum merkilegri, hver á sinn hátt, en það verður þó ekki gert hér, heldur vildi ég aðeins minna á einn þeirra öðrum fremur, sem sé Picasso, sem kom mér þannig fyrir sjónir, að hann væri jötunn jötnanna i hinum nýja listheimi.
Í þessu sambandi vil ég aðeins minna á hið merkilega listasafn verkfræðingsins J. Rump, sem nú er i Ríkissafninu í Kaupmannahöfn. Ég sá það einnig í vetur. Það hefur að geyma mjög mikið af franskri nútimalist eftir Matisse, Picasso, Braque, Modigliani, Duby og marga fleiri. Rump var á stúdentsárunum í félagsskap stjórnleysingja. Seinna varð hann sósíalisti og var lengi í bæjarsljórn Kaupmannahafnar, en auk þess hafði hann mikinn áhuga fyrir nýrri list og varði miklu fé til kaupa á frönskum verkum. Jafnframt því,sem hann gaf Ríkissafninu listaverk sín, gaf hann einnig stóra upphæð, sem verja skal af árlega til innkaupa í nýjum listaverkum. Þau ákvæði eru sett, að aðeins má kaupa verk, sem eru eigi eldri en 25 ára, og er þannig séð fyrir, að hið nýja komi fram og sé til sýnis i Ríkissafninu. Einnig að þessu leyti hefir Rump lagzt á. móti straumnum.
Fáir eru þeir núlifandi listamenn, sem eins mikið hefur  verið deilt um eins og Spánverjann Pablo Ruis Picasso,
sem fæddist í Malaga 23. okt. 1881.
Ungur kom hann til Parísar til þess að nema málaralist, og varð hann fljótt mikill vinur ýmissa franskra listamanna, til dæmis Georges Braques. Picasso var óvenjulega gáfaður og bráðþroska listamaður. Strax á unga aldri gerði hann verk, sem telja má, að séu heilsteypt listaverk, þótt þau þoli ekki samanburð við það,sem seinna kom frá hans snilldarhendi og fremur má likja við yfirnáttúrleg sköpunarverk en mannlega getu, svo sem Guernica, er hann málaði i spanska sýningarsalinn í París 1937 fyrir spönsku stjórnina, en henni fylgir hann að málum á móti Franco, enda kvað hann af  mikilli rausn hafa hjálpað spönskum flóttamönnum í París, en Picasso er sagður ríkur vel. Hann virðist sameina í list sinni raunsæi og dulrænt hugmyndaflug, sama og maður rekst oft á hjá hinum miklu gömlu  spönsku listamönnum, en fágað og mótað af lífsreynslu og sjálfstæðum athugunum. En hversu mikið hann hefur frá franskri list eða hvað honum er i blóð borið,er ekki hægt að segja með vissu. En eitt er víst, að frá mörgum af verkum hans andar á móti oss samtímis ískaldur veruleiki og glóðheitur andi. Sjálfur talar hann oft um þá miklu þakklætisskuld, sem hann sé í  við franska list og Paris, þar sem hann hefur búið svo lengi.
Picasso og Braque unnu saman á unga aldri, og eftir aldamótin, á árunum 1906 til 1908, varð kubisminn til hjá þeim báðum i sameiningu. Til þess að gera sér ljóst, hvernig kubisminn eiginlega varð til, er nauðsynlegt að kynna sér vel það, sem gerðist í hinum franska listaheimi um aldamótin. Margar ólikar hugsjónahræringar gerðu þá vart við sig innan veggja hinna mörgu vinnustofa i Montmartre og hjá listamannahópnum við Place Ravignan. Í nærfellt 20 ár höfðu ýmsir, sem aðhylltust hugsjónastefnuna, leitað eftir einfaldleika og strangara formi. Af þeim var Ganguin sá, sem mest bar á. Hugsunin um verðleika línu, ljóss og skugga sem hlutlausa fegurð, skipaði hærri sess hjá Matisse sem í fyrsta sinn 1908 birti opinberlega skoðun sína á þýðingu sjálfrar myndarinnar: að hún væri einvöld og háð sinu innra lögmáli. Margir voru undir áhrifum frá Cezanne. Með list sinni hafði hann snortið við veruleikanum, en snertingin var svo hárfín, að hún virtist óraunveruleg. Menn uppgötvuðu þá Negraskúltúrinn, og ýmsir urðu fyrir áhrifum frá honum. Þetta og margt fleira varð til þess að losa um böndin, sem áður höfðu knýtt listina svo fast við veruleikann. Fyrstu kúbisku verk þeirra Picassos og Braques, sem raunar eru nokkuð óákveðin, eru einskonar skipulögð rúmfræði og sýna greinilega vilja í þá átt að bjóða náttúrunni byrginn til þess að gefa myndinni auðsætt lifandi samræmi.
Árið 1908 sendi Braque nokkur verk á Salon d'automne, en þau voru ekki tekin með, svo að hann sýndi þau á sérsýningu. Matisse sá þessi verk og hafði talað um, að þau væru máluð i teningum. Listdómararnir tóku hann á orðinu og kölluðu málarann kúbista, þ. e. þann„ sem málar i teningum.
Siðan hefur nafnið haldizt, þótt það sé eigi sem heppilegast. Matisse hefur aldrei sjálfur málað beinlinis í stíl kúbismans, og það eru höfð eftir honum orð, sem bent gætu i þá átt, að hann sé stefnunni mótfallinn. En eins og oft hefur verið nefnt, hefur hann samt átt þátt í því að skapa kúbismann,og í seinni verkum hans má að minnsta kosti sjá greinileg áhrif frá kúbistunum, eins og líka má sjá áhrif frá þeim hjá fjölda annarra listamanna, þó að þeir máli ekki beinlínis í kúbiskum stil. Enda er varla hægt að benda á nokkurt annað tímabil i listasögunni, þar sem nýjar hugsjónir hafa rutt sér til rúms með jafnmiklum hraða og einmitt á veltiárum kúbismans.
Kúbisminn er frjálsborin hreyfing, sem bar fram á við að heilbrigðu, náttúrlegu marki, enda sýnir reynslan, að hann var strax í byrjun nógu viðfeðmur til þess, að hann gæti alið við brjóst sér ólíka listamenn, sem gátu nægilega fjarlægzt hver annan og skapað sjálfstætt. Það er þvi alveg út i hött, þegar menn segja, að kúbisminn sé hugsjónalaus, dauðfædd stefna. Í þessu sambandi má nefna fyrir utan Picasso og Braque þá Lyonel Feininger, Roger de la Fresnaye, Juane Gris, Jean Metzingen, Fernand Léger, Gromaire og marga fleiri, sem eru ólíkir hver öðrum, þótt þéir í stórum dráttum vinni að sama marki. Enda er óhætt að fullyrða, að engin önnur listastefna hefur náð jafn föstum tökum og kúbisminn, ekki aðeins á málara- og myndhöggvaralist, heldur líka á byggingarlistina, hvar sem er i heiminum. Þar hefur kúbisminn komið af stað fullkominni byltingu, sem hægt er að sannfærast um jafnvel við að ganga eftir bæ okkar, Reykjavik, og athuga nýbyggingarnar þar.
Á hinni fyrrnefndu sýningu hafði Picasso 33 verk.Auk liinnar geysistóru Guernica-myndar, sem er 7% metri á breidd og 4 metrar á hæð, voru mörg málverkin um og yfir 2 metrar á hvorn veg. Verk þessi eru máluð á siðustu 20 árum, enda -gaf sýningin mjög gott yfirlit yfir starf listamannsins, sem engan veginn er einhæft. Hann hefur, auk hinna kúbisku mynda, málað verk, sem minna á hina gömlu klassisku list. Hann er með afbrigðum góður teiknári, og virðist þar allt leika i höndunum á honum. Hann liefur málað góðar mannamyndir. En dýpst virðist hann samt ná i hinum siðustu verkvun sinum, þar sem hann fremur öðru túlkar ást sína og samúð með Spáni og hatur sitt til uppreisnarinnar. Þar birtist hann ekki aðeins sem mikill listamaður og brautryðjandi, heldur líka miklu fremur sem ástriðufullur, tilfinningaríkvir maður. Og i Guernica speglast stór, ástríðurík sál, sem er hafin langt upp fyrir það almenna.
Guernica er aðallega máluð með gráum litum, svart er dýpsti litur og hvitt sá hæsti, öll teiknuð með svörtum lit. Efnið er, eins og áður var getið, sótt til spönsku uppreisnarinnar, þegar flugvélar Francos gereyddu Guernica-borgina, sem var algerlega varnarlavis. Myndin er hugsuð á tveimur sviðum. Öðrum megin er gripahús. Þangað hafa menn reynt að leita sér hælis, og hinum megin sér svo út á opna götu. Í baksýn teygja sig eldtungur upp í loftið, en kona krýpur á götunni og fórnar upp höndum, um leið og hún horfir á eftir flugvélunum, sem öllum   hörmungunum ullu.Í loftinu i húsinu lýsir rafljós, undir því er hestur, særður mörgum sárum. Til vinstri stendur naut mikið, og þar framan við liggur kona í angist sinni með dáið barn á skauti sér. Til hægri og neðst á sviðinu er kona með logandi fötin í flygsum, hún á eftir nokkur fótmál, áður en hún hnígur magnþrota til jarðar.
Sundurtætlum limum er stráð víðs vegar. Inn um glugga teygir sig höfuð og hönd, sem heldur á ljósi og á ef til vill að tákna sigurvegarann, sem líti eftir, hvort meira sc til að eyðileggja. Öll bygging myndarinnar er dramatisk, með mörgum skáhornahreyfingum. Ljósið í loftinu er í vinstra gullinsniði, og í vinstra og hægra gullinsniði að neðan standa tveir fætur hestsins. Heildarbyggingin myndar pýramída, sem hefur horn sin í báðum neðri hornum myndarinnar og topp i vinstra gullinsniði. í myndinni eru mörg smá og stór bygging-
arfræðileg atriði, sem gaman er að taka eftir.
Christian Zervos hefur einu sinni birt samtal við Picasso, sem gefur nokkra visbendingu um, hvernig Picasso 
hugsar og vinnur. Ég birti hér í lauslegri þýðingu nokkrar línur úr því samtali: „Til allrar ólukku fyrir mig, eða kannski til gleði fyrir mig, kem ég hlutunum fyrir eftir því, sem mér lika þeir. Mikil ógæfa hlýtur það að vera fyrir málara, sem elskar ljóshærðar slúlkur, að verða að neita sjálfum sér um að taka þær með í myndina, af því að þær samræmist ekki ávaxtakörfunni. Hvílik ógæfa fyrir málara, sem ef til vill hatar epli, að verða einlægt að nota þau, af því að þau fara vel við teppið. Ég nota í myndum minum allt það, sem mér geðjast að. Það bitnar því ver á hlutunum sjálfum, sem þá verða að reyna að koma sér saman. Málverk er ekki hugsað að öllu leyti fyrirfram. Meðan verið er að mála það, fylgist það með hugarhræringunum. Og þegar það er fullgert, breytist það á ný eftir hugarhræringum þess, sem skoðar það. Málverk lifir sinu lífi  eins og hver önnur lifandi vera, breytileg eftir aðstæðum hins daglega lífs. Þetta er eðlilegt, þar eð sérhvert málverk lifir aðeins hjá þeim, sem skoðar það.
Þegar menn byrja á mynd, fá þeir oft fagra hluti gefins. Það er bezt að vera á verði fyrir slíku, maður á að eyðileggja myndina og gera hana upp á ný, umskapa hana aftur og aftur. Þó að eyðilagður sé fundinn hlutur, afmáir maður hann ekki, en hann breytist i hvert sinn. Þetta skapar framhald verksins og gerir það kjarnmeira. Gott verk er árangurinn af fleygðum fundum og tilviljunum. — Hugsjónirnar og tilfinningarnar eru kveiktar i verk manns og geta ekki sloppið úr verkinu. Þær sameinast óaðskiljanlega hlutum þess, og eins þótt nærvera þeirra sé ógreinanleg. Hvort maðurinn vill það eða ekki, er hann hljómgrunnur náttúrunnar. Hún þröngvar á hann eiginleikum sinum innri og ytri .... Það er ekki hægt að gera uppreisn móti náttúrunni. Hún er sterkari hinum sterkasta manni. Það er bezt fyrir okkur að koma okkur vel við hana. Við getum leyft okkur dálitið frjálsræði,en það eru aðeins smámunir  ....
Listamaðurinn er miðdepill ýmis konar strauma, sem koma úr öllum áttum, frá himni og jörðu, frá pappírsblaði, frá andliti, sem við mætum á förnum vegi, frá köngurlóarvef. Það er þess vegna, að við megum ekki gera mun á hlutunum. Hjá þeim er enginn stéttamismunur. Við verðum að taka það, sem not er fyrir, hvar
sem það finnst."
Ragnar Hoppe segir: „Enginn nútiðar listamaður hrærir eins við fólki og Pablo Picasso, enginn er eins dýrkaður og enginn heldur jafn hataður. Rúmlega fimmtugur hefur hann komið af stað fullkominni byltingu í listheiminum og fært listinni fleiri ný verðmæti en nokkur annar, sem nú er á lífi. Hann hefur byggt upp, en hann hefur líka rifið niður. Það er lika margra skoðun, að hann sé hættulegur maður." En það alversta er, segir Hoppe, að Picasso stendur aldrei kyrr; að hann einn daginn vinnur sér mikilvægt virki, sem hann svo yfirgefur næsta dag. Þeir, sem reyna að fylgja honum eftir, eiga ekki sjö dagana sæla, þvi að framar öllum er hann Qg verður óvæntur og órannsakanlegur.
Einn af vinum mínum sagði, að margur hefði misst höfuðið fyrir minna en Guernica, en það er vissa mín, að þótt Picasso verði gerður höfðinu styttri, munu verk hans lifa.
Rauðir pennar 3.árgangur 1938.4.tbl


Tengt efni

Eldri tölublöð
Efnisyfirlit
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga