Listasafnið á Akureyri yfirlitssýningu á verkum hollenska myndlistarmannsins Jorisar Rademaker.
Laugardaginn 16. janúar2010 klukkan 15 opnaði Listasafnið á Akureyri yfirlitssýningu á verkum hollenska myndlistarmannsins Jorisar Rademaker.Joris er fæddur í smábænum Eersel í Hollandi árið 1958 en hefur búið á Íslandi í hartnær tvo áratugi. Hann hefur fengist við myndlist síðan árið 1983 og einnig starfað sem myndlistarkennari á Akureyri um árabil. Undanfarin ár hefur Joris starfrækt Gallerí+ á Akureyri ásamt Pálínu Guðmundsdóttur eiginkonu sinni. Joris var útnefndur bæjarlistamaður Akureyrar árið 2006.

Myndlist Jorisar spannar ólíkar stefnur og rífur skörð í þá múra sem eitt sinn stóðu fyrir kynslóðabil andstæðra fylkinga. Hann vinnur með hugsanaflæði, bæði tvívítt og þrívítt, og styðst við fundna hluti og látlausan, gjarnan lífrænan efnivið eins og tré, pappír, tau, blek og þrykk. Ál og stál kemur einnig við sögu. Í byrjun var pallettan sterk en smám saman hefur hún orðið nær litlaus.

Ákveðin stef eru könnuð í mörgum mismunandi útfærslum og byggja á formrænni einföldun sem á meira skylt við geómetríska abstraktsjón, eða De Stijl-skólann, og skynvilluleiki op-listarinnar en kaldrifjaða smættarhyggju. Ákveðin stef eru könnuð í mörgum mismunandi útfærslum og byggja á formrænni einföldun þar sem möguleikar skynjunar og alls konar skynvilluleikir ráða ferðinni.

Við fyrstu kynni virðist þessi myndheimur Jorisar nokkuð framandi þótt reglulega bregði fyrir bernskum fígúrum og malerískum, expressjónískum hvellum. Inn í hann fléttast einnig tvö vinsæl viðfangsefni sem heltóku myndlistina á níunda og tíunda áratugnum, nefnilega líkamslist (e. body-art) og auðkennispólitík (e. identity politics). Verkin virka stundum eins og litlir, viðkvæmir púðluhundar sem allt í einu sýna í sér vígtennurnar og eru ótrúlega ógnandi. List Jorisar hefur samt engar beinharðar pólitískar blammeringar að geyma eða samfélagsgreinandi gegnumlýsingu. Hún margsnýst í leit sinni að staðsetningu sjálfsins sem reif sig upp með rótum og endurkastast nú milli tveggja heima, Hollands og Íslands, þar sem Joris hefur búið. Stráhattur van Goghs og skólufsur flækingsins, sem dúkka stundum upp, minna okkur á að hann er aðkomumaður.

Í tilefni af sýningunni hefur Listasafnið á Akureyri gefið út 90 síðna bók með ítarlegri umfjöllun um feril og list Jorisar eftir Úlfhildi Dagsdóttur bókmenntafræðing og Hannes Sigurðsson forstöðumann Listasafnsins á Akureyri.

Sýningin stendur til 7. mars 2010 og er opin alla daga nema mánudaga frá 12-17.

Ræða Hannesar Sigurðssonar við opnun sýningarinnar

Góðir gestir,

Um nokkurt skeið hefur Listasafnið á Akureyri ár hvert beint sjónum að einum tilteknum listmanni sem mikið hefur látið að sér kveða í heimaslóðum og gert honum verðug skil með því leggja allt safnið undir. Í ár er röðin komin að hollenska myndlistarmanninum Jorisi Rademaker, sem allir hér ættu að vera vel kunnugir svo mjög sem hann hefur haft sig í frammi í menningarlífi bæjarins. Joris datt ekki beinlínis af himnum ofan inn í akureyrskt samfélag fyrir rétt tæpum tuttugu árum, heldur má segja að hann hafi verið lokkaður hingað af ástinni.

Eins og títt var um íslenska myndlistarmenn á níunda áratug síðustu aldar fór eiginkona hans Guðrún Pálína Guðmundsdóttir til framhaldsnáms í Hollandi, nánar tiltekið Jan van Eyck akademíuna í Maastrict, þar sem leiðir þeirra lágu saman. Árið 1991 flutti Joris til Akureyrar og starfaði við almenn störf hjá Kjarnafæði fyrstu mánuðina, en síðan tók hann við af Einari Helgasyni sem myndmenntakennari við gamla barnaskólann.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá. Á þeim tíma sem liðinn er hefur Joris haldið hvorki fleiri né færri en 23 einkasýningar og 8 samsýningar á Akureyri, starfrækt Gallerí+ við Brekkugötu ásamt Guðrúnu Pálínu í um það bil fimmtán ár og ötullega sinnt myndlistarkennslu við Brekkuskóla, jafnframt því sem hann aðstoðaði í sjö ár við uppsetningu sýninga í Listasafninu á Akueyri og vann að þeim verkefnum af einstakri natni, næmni og samviskusemi. Það kom líka fáum á óvart þegar hann var gerður að bæjarlistamanni árið 2006.

Joris skynjaði sig mjög sterkt sem aðkomumann á Akureyri þegar hann bar hingað fyrst að garði og langir og kaldir vetrar með snjó og hálku gat tekið á fíngerðar hollenskar taugar í þessu litla samhenta en dálítið lokaða samfélagi. Jorist minnist þess að fólk átt jafnvel til að glápa á þennan erlenda aðkomumann, sem gefur smá hugmynd um hve heimsmynd og viðhorf fólks hefur almennt tekið miklum stakkaskiptum á þessum stutta tíma sem liðinn er. Akureyri var ekkert sérstaklega sér á parti þegar kom að útlendingum og til marks um einsleitnina sem einkenndi lengst af okkar þjóðfélag má geta að árið 1976 var því slegið upp á forsíðu helgarblaðs DV að “blökkumaður væri á Íslandi”.

Árið 1998 flutti Joris ásamt fjölskyldu sinni til Svíþjóðar, búinn að fá nóg af Íslandi í bili, en sneri aftur hingað ári síðar og þótti honum þá sem miklar og jákvæðar breytingar hefðu átt sér stað í millitíðinni, meðal annars vegna tilkomu Háskólans á Akureyri sem þá var orðinn mjög öflugur áhrifavaldur í bæjarlífinu.

List Jorisar einkennist af leik á möguleikum forma og skynjunar sem hann vinnur í myndraðir og pússlar saman í margvísleg efni, fundna hluti í bland við hefðbundnari málverk og skúlptúra. Eitt leiðir af öðru og allt hangir saman með víxlverkandi og innbyrðis tengslum milli ólíkra verka og myndraða. Norðlenskt landslag og drungalegir vetrarmánuðir hafði mun meiri áhrif á hann en sú myndlist sem hér var að finna, enda kom hann með nóg af fyrirmyndum frá Hollandi í farteskinu. Þessi róttæku umskipti á umhverfi urðu til þess að liturinn hvarf næstum alveg úr verkum Jorisar og nýjar áherslur og aðferðir tóku að setja mark sitt á listsköpunina. Þannig fór hann til dæmis að blása til blekdropum á pappír til að líkja eftir éljum og hvössum vindhviðum norðursins.

Tannstönglaverkin sýna aðra og kannski beittari hlið á Jorisi. Tannstönglarnir eru í huga hans táknrænir fyrir lífið sjálft, mjög brothættir en samt færir um að bíta frá sér, ef svo má segja, fari menn ekki að þeim með nærfærni. Og með því að stinga þeim í mismunandi hluti gjörbreyttust þeir og fengu einhvern nýjan og dularfullan tilgang. Stundum þurfti aðeins nokkra tannstöngla til, en Joris hefur heldur ekki látið sig muna um að stinga 13 þúsund stönglum í hlutina eins og sjá má á tréinu hans í klefa vestursalar.

Við hin notum jú flest tannstöngla til að stanga matarleifar úr tönnunum og sú staðreynd vísaði Jorisi áfram veginn að ennþá lífrænni efnivið, nefnilega spaghetti, sem hann fór að vinna með upp úr 2000 og nú síðast kartöflur, sem hann sker í bita, leggur á striga og málar í kringum þær. Matur er tengdur hreyfingu, grunnorku lífsins, og þá er stutt í dansinn sem alltaf hefur heillað Joris og birtist með ýmsu móti í list hans. Iðandi útlínur spaghetti verkanna geta minnt á allt í senn hlutabréfasveiflur kaupallanna, ormagrifju, framandi leturtákn, jarðfæðilegt skýringakort af setlögum eða bugðótta læki og ár séð úr háloftunum.

Þótt Joris sé vel að þessari yfirlitssýningu kominn stendur hann meira fyllilega undir sér sjálfur sem áhugaverður og fullskapaður myndlistamaður. Í tilefni af sýningunni hefur Listasafnið gefið út vandaða bók um Joris með ítarlegri umfjöllun og viðtali við listamanninn eftir Úlfhildi Dagsdóttur bókmenntafræðing. Kann ég henni bestu þakkir að færa fyrir framlag sitt, um leið og ég óska Jorisi innilega til hamingju með þennan áfanga á listferli sínum. Í leiðinni vil ég nota tækifærið til að þakka einnig Saga Captial, Norðurorku og Ásprenti fyrir stuðning þeirra við gerð sýningarinnar.

Ég vil nú biðja Joris að koma hingað til mín og taka við smá þakklætisvotti frá safninu, en að því loknu mun Úlfhildur segja nokkur orð um viðkynni sín af Jorisi og þeim áhrifum sem hann hefur haft á skilning og viðhorft hennar til myndlistar.

Njótið heil!

Tengt efni

Eldri tölublöð
Efnisyfirlit
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga