Greinasafni: Söfn einnig undir: Arkitektar
Sunnudag 7. ágúst kl. 15 - Pétur H. Ármannsson með sýningastjóraspjall um sýninguna Hugvit
Sunnudag 7. ágúst kl. 15 - Pétur H. Ármannsson
með sýningastjóraspjall um sýninguna Hugvit
 
Næstkomandi sunnudag 7. ágúst, kl. 15 leiðir Pétur H. Ármannsson arkitekt gesti  um sýninguna Hugvit sem nú stendur í Hafnarborg. Sýningin gerir skil verkum og hugmyndum hugsuðarins og hönnuðarins Einars Þorstein Ásgeirssonar sem einkum er þekktur hér á landi fyrir hönnun sína á kúluhúsum og hátíðatjöldum en einnig fyrir samstarf sitt við myndlistarmanninn Ólaf Elíasson. 
 
Sýningunni fylgir vegleg sýningarskrá í bókaformi sem inniheldur fróðlegt viðtal Guðmunds Odds Magnússonar við Einar Þorstein ásamt fjölda mynda. Auk þess er þar að finna texta eftir Pétur H. Ármannsson þar sem hann fer yfir feril og hugmyndaheim Einars sem er einn framsæknasti formhönnuður þjóðarinnar. 
 
Opið er í Hafnarborg er opin frá kl. 12–17 en á fimmtudögum er opið frá kl. 12-21 á kvöldin.
Lokað þriðjudaga. www.hafnarborg.is s. 585 5790

Um sýninguna
Hugmyndir hönnuðarins Einars Þorsteins Ásgeirssonar byggja á þeirri sannfæringu hans að hugvit geti byggt betri heim sé því rétt beitt. Verk hans endurspegla mikla þekkingu og einstaka sýn á lögmál náttúrunnar og hvernig beita megi þessum lögmálum í arkitektúr, hönnun og myndlist. Á sýningunni í Hafnarborg verða sýndar teikningar, líkön, hönnunarmunir og heimildir um byggingar sem Einar hefur unnið á síðustu áratugum. Athygli verður jafnframt beint að stórmerkum uppgötvunum Einars á sviði rúmfræði, meðal annars gullinfangi, sem er flötungur byggður á fimmfaldri samhverfu.

Verk Einars Þorsteins (f. 1942) eru að flestu leyti einstæð í samhengi íslenskrar hönnunar og byggingarlistar. Hann lauk námi í arkitektúr við Tækniháskólann í Hannover í Þýskalandi árið 1969 og stundaði framhaldsnám og störf hjá arkitektinum Frei Otto í Stuttgart 1969 til 1972. Hjá honum vann Einar meðal annars að hönnun léttþaka og fleiri bygginga ólympíuþorpsins í München. Einar fluttist til Íslands árið 1972 og hóf rekstur Tilraunastofu burðarforma, sem sérhæði sig í þróun tjaldbygginga og hvolfbygginga við íslenskar aðstæður. Í samvinnu við Seglagerðina Ægi hannaði hann hátíðartjöld fyrir merka viðburði í íslensku þjóðlífi, svo sem 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar 1974, afmæli Reykjavíkur 1986 og 50 ára lýðveldishátíð á Þingvöllum 1994. Á áttunda og níunda áratugnum vann hann ötullega að því að opna augu samlanda sinna fyrir nýrri hugsun í húsagerð og skipulagi. Hann ritaði fjölda greina í blöð og tímarit um hugmyndir sínar og fékk einn merkasta hugsuð í byggingarlist 20. aldar, R. Buckminster Fuller, til að halda fyrirlestra hér á landi 1975 og 1979. Þá var Einar einna fyrstur til að vekja máls á vistvænni hugsun í byggingarmálum og skipulagi. Hugmyndir Einars þóttu nýstárlegar, voru umdeildar og fengu almennt lítinn hljómgrunn hér á landi á þeim tíma. Kunnastur er Einar án vafa fyrir hönnun kúluhúsa til íbúðar og fleiri nota, sem meðal annars risu á Ísafirði, við Hellu, Kópasker og í Hafnarfirði.

Frá því um miðjan sjöunda áratuginn hefur Einar stundað rannsóknir á rúmfræðilegum eiginleikum fimmfaldrar samhverfu. Í leit sinni að nýrri þekkingu hefur hann víða leitað fanga og átt samstarf við merka hugsuði, svo sem bandaríska vísindamanninn og Nóbelsverðlaunahafann Linus Pauling og R. Buckminster Fuller. Sá síðarnefndi veitti Einari mikilvæga hvatningu og ritaði formála að bók hans, Barnaleikur, sem út kom árið 1977. Frá árinu 2000 hefur Einar verið búsettur í Berlín þar sem hann hefur einbeitt sér að skrifum og rannsóknum á þrívídd. Hann hefur unnið að mörgum verkefnum með myndlistarmanninum Ólafi Elíassyni og eiga þeir að baki langt og farsælt samstarf sem hófst á Íslandi í tengslum við sýningu Ólafs á Kjarvalsstöðum árið 1998. Ólafur notar gullinfang Einars sem grunneiningu í glerhjúpsverki sínu á tónlistarhúsinu Hörpu. Auk samstarfs við Ólaf hefur Einar á síðari árum unnið fyrir Peter Lassen eiganda Montana húsgagnafyrirtækisins í Danmörku. Frá árinu 2003 hefur Einar sýnt eigin myndlist byggða á stærðfræði víða í Evrópu, einkum þó Danmörku.

Sýningarstjórar eru þeir Pétur H. Ármannsson arkitekt og Guðmundur Oddur Magnússon grafískur hönnuður og prófessor við Listaháskóla Íslands. Sýningunni er fylgt úr hlaði með áhugaverðri útgáfu þar sem finna má texta eftir sýningarstjórana, yfirlit yfir ferli Einars og myndir af verkum.   

Öllum er gefið visst hugvit eða sköpunarmáttur og með því ásamt náinni skoðun á samhengi hlutanna, getur unnist betri hagur fyrir alla. Öll hefð er manneskjunni þó viðsjárverð, ef ekki er spurt um ástæðuna á bak við hefðina. Og því verður stundum að fara alveg nýjar leiðir. Kosturinn við slíkt er að þá lærir manneskjan mest um sjálfa sig og aðra. Og sú viska getur einnig skilað betri heimi.  - Einar Þorsteinn

Sýningin Hugvit nýtur stuðnings Rio Tinto Alcan

Tengt efni

Eldri tölublöð
Efnisyfirlit
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga