Greinasafni: Söfn einnig undir: List
Opnun á yfirlitssýningu Louisu Matthíasdóttur 30.6.2006
Opnun á yfirlitssýningu Louisu Matthíasdóttur
30.6.2006
Í tilefni yfirlitssýningar á verkum Louisu Matthíasdóttur (1917–2000) mun Jón Proppé, gagnrýnandi, halda fyrirlestur í Deiglunni laugardaginn 1. júlí kl.13.00, um ævi hennar og störf. Sama dag kl.15.00 verður opnuð yfirlitssýning á verkum hennar í Listasafninu á Akureyri, en Louisa nýtur mikillar hylli jafnt heima á Íslandi sem í Bandaríkjunum þar sem hún settist að og bjó meginhluta ævi sinnar.

Þessi yfirlitssýning á verkum Louisu er sú umfangsmesta sem haldin hefur verið og rekur allan hennar listamannsferil í sex áratugi. Á henni er bæði að finna olíumálverk og verk unnin á pappír, alls um hundrað talsins. Sýningin er ekki síður áhugaverð fyrir þær sakir að fæst þessara verka hafa sést hér á landi áður. Verkefnið er skipulagt af American-Scandinavian Foundation í New York í samvinnu við ættingja listamannsins og hefur á ferð sinni haft viðdvöl í Þýskalandi og Danmörku áður en hún er nú að endingu sett upp í Listasafninu á Akureyri.

Sýningin spannar vítt svið í list Louisu Matthíasdóttur og eru elstu verkin frá fimmta áratug tuttugustu aldarinnar, en jafnframt gefur að líta myndskreytingar, mynsturteikningar og stórar pastelmyndir og krítarteikningar sem hafa aldrei fyrr verið til sýnis. Louisa er af mörgum talin meðal fremstu frásagnarmálara Bandaríkjanna og er hvað þekktust fyrir ríkar andstæður í litanotkun og áhrifamikla uppbyggingu hinna ofurraunsæislegu málverka sinna. Fullyrða má að þessi umfangsmikla sýning á verkum hennar geri ferli hennar ágæt skil og sýni glöggt hvernig hún þróaðist sem listmálari.

Þessi yfirlitssýning á verkum Louisu Matthíasdóttur hefur vakið mikla athygli almennings og listunnenda erlendis og um hana hefur verið ítarlega fjallað í fjölmiðlum, svo sem í New York Times og New York Observer og ennfremur í forsíðugrein í New York Sun. Sem dæmi um það lofsorð sem lokið hefur verið á sýninguna má nefna skrif hins þekkta gagnrýndanda Hiltons Kramer í New York Observer þar sem hann lýsir sýningunni sem „stórkostlegri yfirlitssýningu" og segir jafnframt: „Það er vart hægt að biðja um betri sýningu á verkum Louisu Matthíasdóttur. Öll meginviðfangsefni hennar í myndlistinni eru kynnt til sögunnar: Stórbrotið landslag og hlýleg húsakynni, portrettmyndir, sjálfsportrett og hópmyndir, mörg stór málverk og skemmtileg röð gvasslitamynda og teikninga sem eru tileinkaðar börnum."

Samhliða sýningunni hefur verið gefin út vegleg sýningarskrá sem í eru 40 myndir og ritgerðir um list og feril Louisu Matthíasdóttur.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Efnisyfirlit
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga