Greinasafni: Söfn einnig undir: List
Úr vinnustofu Louisu Matthíasdóttur 12. mars 2003
Laugardaginn 15. mars n.k. verður opnuð almenningi sýning á áður ósýndum verkum listakonunnar Louisu Matthíasdóttur. Eins og yfirskrift sýningarinnar Úr vinnustofu Louisu Matthíasdóttur ber með sér koma þau málverk og vatnslitamyndir sem eru á sýningunni úr vinnustofu listakonunnar á 16. stræti í New York þar sem fjölskyldan bjó lengst af og einnig vinnustofu hennar hér heima í Reykjavík.

Louisa fæddist 1917. Hún var við nám í Kaupmannahöfn og París og lét ung að sér kveða í hópi framúrstefnumanna íslenskrar myndlistar. Hún flutti til New York árið 1942, þar sem hún starfaði og bjó þar til hún lést árið 2000. Oft dvaldi hún þó hér heima um tíma og bæði hér og fjarri fósturlandinu, málaði hún einstök málverk sem endurspegla huga hennar til landsins og náttúrunnar hér heima á Íslandi. Verkin á sýningunni nú eru einmitt af þeim toga.

Þetta er í þriðja skiptið sem verk Louisu Matthíasdóttur eru sýnd í Hafnarborg en hún sýndi í þar fyrst pastelmyndir árið 1998. Önnur sýning á verkum hennar var áætluð árið 2000 og var í undirbúningi þegar hún lést. Í samvinnu við fjölskyldu hennar var þá ákveðið að söðla um og efna til sýningar þar sem inntakið yrði fjölskylda listakonunnar. Á sýningunni voru málverk Louisu, eiginmanns hennar, bandaríska listmálarans Leland Bell og dóttur þeirra Temmu. Sú sýning var einstök að því leyti að þar gafst tækifæri til að sjá hvernig tveir listamenn, þau Louisa og Leland fjalla um hvort annað, dóttur sína, ættingja og vini í málverkum sínum og síðan hvernig dóttirin Temma, sem einnig er myndlistarmaður tekur upp þráðinn og fjallar um sama myndefni í verkum sínum.

Sýningin er opin alla daga nema þriðjudaga frá kl. 11 til 17.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Efnisyfirlit
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga