Finnur Jónsson

Finnur Jónsson (1892-1993) varð fyrstur íslenskra myndlistarmanna til að hasla sér völl sem abstraktmálari og á að baki fjölbreytilegan sýningarferil.

Í þessu riti er viðtal við listamanninn, ítarlegt yfirlit um ævi hans og sýningarferil og ritaskrá. Fjallað er sérstaklega um átta meginverk Finns.

Útgáfustjóri: Karla Kristjánsdóttir.
Útgefandi Listasafn Íslands.1992


Morgunn á miðinu. Ár: 1927.Stærð: 101x138

Í Listasafni Íslands hefur undanfarnar vikur( apríl 1992) staðið yfir umfangsmikil sýning á úrvali af verkum Finns Jónssonar listmálara, sem listamaðurinn og eiginkona hans, Guðný Elísdóttir, hafa fært Listasafninu að gjöf. Sýningin er haldin í tilefni af aldarafmæli listamannsins síðar á þessu ári, og gefur almenningi kost á að kynnast þessari einstöku listaverkagjöf þeirra hjóna, sem er ein sú veglegasta, sem Listasafni Íslands hefur borist.

Gjöfin, sem telur alls um 800 verk, er um marga hluti einstök, en hún var afhent safninu 1985 í tilefni af aldarafmæli þess. Það er ekki aðeins að þau hjónin gefi safninu listaverkin, heldur hafa þau einnig látið fylgja með næga fjármuni til að lagfæra verkin, hreinsa þau og búa um þau á þann hátt sem best þykir. Hér er því horft til framtíðar og sýnd sú umhyggja fyrir listinni, sem þarf til að komandi kynslóðir fái notið hennar á sama hátt og þær núlifandi.

Skissubækur, bréfasöfn, ljósmyndir og hlutir sem tengjast gull- og silfursmíði Finns gera þessa gjöf að enn merkari heimild fyrir fræðimenn til rannsókna á ferli hans, listhugsun og vinnubrögðum.

Frá listsögulegu sjónarmiði er þó mikilvægast við þessa miklu gjöf að í henni er að finna öll þau óhlutlægu listaverk, sem Finnur Jónsson vann á fyrri hluta þriðja áratugarins, og sýndi hér á landi haustið 1925. Á þeirri sýningu mun afstraktmyndlist fyrst hafa borið fyrir augu landsmanna, en ekkert af þeim myndum seldist, og voru eftir það alla tíð í eigu listamannsins. Þessi brautryðjendaverk eru öll á sýningunni nú. ­ Nokkrar myndir Finns sem voru á sýningu hjá Der Sturm í Berlín sama ár munu hins vegar hafa selst, og m.a. borist til Bandaríkjanna, þar sem þær eru nú í listasafni Yale-háskóla; þær áttu talsverðan þátt í að skapa honum nafn meðal samtímalistamanna, þó að það kæmi ekki í ljós fyrr en mörgum áratugum síðar.

Finnur Jónsson fæddist 15. nóvember 1892 á Strýtu í Hamarsfirði; hann ólst þar upp hjá foreldrum sínum, og rétt um fermingu fór hann að vinna fyrir sér sem sjómaður. Hann kom til Reykjavíkur 1915 til að læra gullsmíði; um leið aflaði hann sér tilsagnar í teikningu, og þegar sveinsprófinu var náð 1919 hélt hann til Danmerkur til frekara listnáms. Þangað höfðu flestir íslenskir listamenn farið til þessa, en Finnur braust út úr hefðinni er hann hélt áfram til Þýskalands 1921, til Berlínar og Dresden, þar sem hann átti eftir að vera til 1925. Þarna fann Finnur valinn félagsskap, og margir þeirra sem hann kynntist voru annaðhvort þegar eða urðu síðar meðal þekktustu listamanna framúrstefnunnar á fyrri hluta aldarinnar; nægir að nefna nöfn manna eins og Kokoschka, Schwitters, MoholyNagy og Kandinsky. Þarna var Finnur Jónsson við fremstu víglínur samtímalistarinnar.

Sýningin sem hann hélt eftir heimkomuna 1925 var því tímamótaatburður í íslenskri myndlistarsögu, þó að viðbrögðin bæru þess ekki vott. Listamenn voru nokkuð jákvæðir á þau óhlutbundnu verk, sem Finnur sýndi, en flestir aðrir létu sér fátt um finnast. Þessar viðtökur ollu því að Finnur pakkaði þessum myndum niður og sneri sér að öðrum sviðum í myndlistinni. Hann hefur í gegnum tíðina m.a. verið þekktur listamaður á sviði landslags og persónumynda, en hann hefur ekki síst notið sín við gerð mynda af sjónum, þar sem barátta manns og náttúruafla er hvað augljósust; þar hefur erfiðisvinna æskuáranna skilað sér á myndrænan og eftirminnilegan hátt.

Þrátt fyrir þetta mun listamaðurinn alltaf öðru hvoru hafa snúið aftur til óhlutbundinnar myndsýnar; skissubækur, teikningar og minni verk frá síðari árum bera þess glöggt vitni, þó hann hafi ekki haldið þessum verkum fram. Það var svo um 1970, að vitneskjan um brautryðjendahlutverk Finns á þessu sviði komst í sviðsljósið, og fengu landsmenn loks tækifæri til að berja þau augum á sýningu 1971, og síðan á yfirlitssýningu, sem Listasafn Íslands hélt á verkum listamannsins 1976, þegar listamaðurinn varð 85 ára. Á sama tíma hefur listamaðurinn hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir framlag sitt á listasviðinu, bæði á innlendum og erlendum vettvangi.

Viðurkenningin lét því sannarlega bíða eftir sér, en um leið er saga þessara verka gott dæmi um þörfina fyrir góða fræðimennsku á sviði myndlistarinnar. Mikilvæg list mun fyrr eða síðar komast á framfæri og öðlast þann frama sem hún á skilinn, ef fræðimenn halda vöku sinni og láta skeytingaleysi samtímans ekki villa sér sýn.

Á sýningunni í Listasafninu eru um níutíu verk Finns Jónssonar sett upp í 4 sölum safnsins, og hefur þeim verið skipt niður eftir efnisflokkum. Afstraktverkin frá þriðja áratugnum er að finna í efsta salnum, ásamt nokkrum yngri óhlutbundnum myndum. Þessi verk eru óhemju tær og björt, og hefur tekist vel til við hreinsun þeirra og uppsetningu. Olíumálverkin "Örlagateningurinn (LÍ 4784) og "Óður til mánans (LÍ 4785) skipa ótvírætt öndvegi, en hinar fjölmörgu kompósisjónir unnar með svörtu túski eru ekki síður áhugaverðar, og tengja verk Finns vel við meginstrauma í evrópskri myndlist þriðja áratugarins. En um leið er auðvelt að skilja tómlegar móttökur þessara verka fyrir nærri sextíu og sjö árum; slíkt hafði aldrei sést hér áður. En hversu mikið hafa viðtökur almennings á nýjungum í myndlist breyst í raun til þessa dags?

Óður til mánans.Ár: 1925.Stærð: 78 x 68

Í sal 2 hefur verið komið fyrir landslagsmyndum, sem Finnur hefur unnið flestar með vatnslitum á ferðum sínum um landið; þetta eru fjörlegar myndir, oft lausbeislaðar, þar sem stemmning litanna ræður ferðinni, en tilraun til staðarlýsinga er síður mikilvæg. Ætla má að margar af þessum myndum hafi verið undanfari landslagsmálverka, sem listamaðurinn vann síðan á vinnustofu sinni. Svipað má segja um litlar blýants- og blekteikningar frá sjónum, sem komið hefur verið fyrir í neðsta sal safnsins; þarna er að finna kveikjur að mörgum þekktum sjávarmyndum, en teikningarnar sýna mikla tilfinningu Finns fyrir öldurótinu, ágjöf og veðrabrigðum; þarna er listamaðurinn vissulega á heimavelli.

Í stærsta sal safnsins er komið fyrir expressjónískum landslagsog mannamyndum, en nokkrar af þeim síðarnefndu vann hann á Þýskalandsárum sínum; er fróðlegt að sjá hversu eðlilega þær tengjast persónumyndum, sem hann gerði áratugum síðar. Það er viss dulúð í þessum myndum, einkum þeim sem snúa að himinhvolfinu og geimnum, og enn og aftur eru bein tengsl milli fyrri verka og hinna síðari; þannig er ekki meginmunur á inntaki myndanna "Tunglskin (LÍ 4417) frá 1928 og "Tvístirni (LÍ 4473), sem er gerð tæpri hálfri öld síðar. Margar landslagsmyndanna eru í raun á jaðri þess að kallast afstraktverk, og því er ljóst af sýningunni að það er greinilegri heildarþráður til staðar í verkum Finns en oft hefur verið talið.

Listasafnið hefur gert þessa sýningu vel úr garði, og sýningarskráin er glæsileg og til sóma. Myndprentanir eru góðar, og myndgreiningar eru afar fróðlegar og vel unnar; það er helst að maður sakni meiri fræðslu um á hvern hátt verk Finns féllu að þeirri þróun, sem átti sér stað í evrópskri myndlist á þeim tíma sem hann starfaði þar ­ samhengið skiptir miklu.

Eins og fyrr segir hefur þessi sýning nú staðið yfir í mánuð, og verið vel sótt. Hún mun standa viku fram yfir páska, til sunnudagsins 26. apríl, og er rétt að hvetja allt áhugafólk um íslenska myndlist til að láta hana ekki fram hjá sér fara. Það er ekki á hverju ári sem tækifæri gefst til að sjá íslenska myndlist tengjast heimslistinni á jafn skemmtilegan hátt.

Finnur Jónsson: Kompósisjón, 1924.

Eiríkur Þorláksson 15. april. 1992

Bátur á þurru - Olía - 63x88

Tengt efni

Eldri tölublöð
Efnisyfirlit
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga