Nýr farvegur - ráðstefna um hönnunarstefnu Íslands Hörpunni, 26. ágúst 2011

Nýr farvegur

- ráðstefna um hönnunarstefnu Íslands

Hörpunni, 26. ágúst 2011

 

Nýir tímar kalla á nýja hugsun og nýjar leiðir.


Í þessum mánuði fór Apple hönnunarfyrirtækið upp fyrir Exxon olíurisann yfir verðmætustu fyrirtæki heims. Þó það hafi staldrað stutt á toppnum er það táknrænt fyrir þau straumhvörf sem nú eru að eiga sér stað og ber vitni um mikilvægi heildrænnar hönnunar. 

Margar þjóðir telja skapandi greinar vera einn mikilvægasta vaxtarbroddinn í atvinnusköpun og samkeppnishæfni þjóða þar sem gæði og heildstæð framsetning skipta sífellt meira máli. Rannsóknir hafa sýnt að að fyrirtæki sem nýta hönnun í vöruþróun og nýsköpun vaxa hraðar og eru líklegri til að ná árangri á alþjóðlegum markaði. 

Hönnun skiptir gríðarlegu máli í þróun í átt að sjálfbæru samfélagi og grænu hagkerfi þar sem unnið er á heildrænan hátt út frá umhverfis-, samfélags- og efnahagslegum þáttum. 

Íslenski hönnunargeirinn hefur vaxið undanfarin ár en möguleikar hönnunar eru þó síður en svo fullnýttir. Víða leynast vannýtt tækifæri til vöruþróunar, nýsköpunar og þjónustuhönnunar og enn gætir þeirra skoðana að hönnun takmarkist við útlitslega þætti. 

Fjölmargar þjóðir heims hafa mótað sér hönnunarstefnu og hafa Norðurlöndin verið þar í fremstu víglínu og náð góðum árangri - nú er komið að okkur! 

Á ráðstefnunni „Nýr farvegur“, 26. ágúst 2011 í Hörpunni verður kafað dýpra í þessi málefni. Bæði innlendir og erlendir fyrirlesarar munu fjalla um gildi hönnunar frá ýmsum sjónarhornum. Ráðstefnan er opin öllum og fer fram á ensku. Skráning fer fram á midi.is.

 

Á ráðstefnunni Nýr farvegur verður fjallað um hönnun frá sjónarhóli samfélags, umhverfis, efnahags og framtíðar.

 

- Hvernig hefur hönnun áhrif á velgengni fyrirtækja? 

- Hvaða gildi hefur hönnun fyrir samfélagið?

- Hvað er hönnunardrifin nýsköpun?

- Hvernig getur hönnun tekið þátt í hinni óhjákvæmilegu umbreytingu yfir í umhverfisvæna lifnaðarhætti?

 

Hönnun snýst fólk, samfélag og umhverfi. Hún eykur gæði og virði. Að móta stefnu og framtíðarsýn um hönnun snýst um að auka virði og gæði þeirrar vöru og þjónustu sem framleidd er í landinu.

Bæði innlendir og erlendir fyrirlesarar munu fjalla um gildi hönnunar frá ýmsum sjónarhornum.
Ráðstefnan er opin öllum og fer fram á ensku. Skráning fer fram á midi.is.

 

Dagskrá

Nýr farvegur - ráðstefnu um hönnunarstefnu Íslands

Hörpunni, 26. ágúst 2011

 

9:30-10:00            Harpa opnar - skráning, kaffi

10:00                     Sigurður Þorsteinsson Design Group Italia - formaður stýrihóps opnar ráðstefnuna.                                              

 

10:20                     Jan R. Stavik - hagfræðingur og framkvæmdastjóri norska hönnunarráðsins.

11:10                     Grímur Sæmundssen - Bláa lónið

11:25                     Sigríður Sigþórsdóttir arkitekt - Bláa lónið og Sundlaugin á Hofsósi

11:35                     Gunnar Hilmarsson - Andersen&Lauth

Magni Þorsteinsson - KronKron

11:50                     Halla Helgadóttir - Hönnunarmiðstöðin

 

12:00                     Matarhlé

               

13:00                     Dori Tunstall - hönnunarmannfræðingur, skipulagði og kom mótun hönnunarstefnu Bandaríkjanna af stað.

13:15                     Jóhannes Þórðarson - Listaháskóli Íslands

 

13:30                     Marina Candi - Forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar HR í nýsköpun              og frumkvöðlafræðum

13:55                     Hilmar Janusson -  Össur

14:10                     Kaffihlé

               

14:20                     John Thackara -  rithöfundur, fyrirlesari og ritstjóri. John hefur verið áhrifamikill í umræðunni um tengsl hönnunar við samfélag, umhverfi og efnahag síðan á áttunda áratugnum.
                                              

15:10                     Sigríður Sigurjónsdóttir - Stefnumót hönnuða og bænda

15:20                     Auður Ösp Guðmundsdóttir og Embla Vigfúsdóttir - vöruhönnuðir

15:30                     Andri Snær Magnason - rithöfundur

 

15:45                     Lokun - samantekt

16:00                      Panelumræður: John Thackara, Jan Stavik, Dori Tunstall, Marina Candi, Þorsteinn Ingi Sigfússon, Orri Hauksson, Hermann Ottósson, Hilmar Janusson, Jóhannes Þórðarson.

16:40                     Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra

 

17:00                     Kokteill
Fyrirlesarar á ráðstefnunni Nýr farvegur

 

John Thackara er rithöfundur, fyrirlesari og ritstjóri vefsins Doors of Perception. John hefur verið áhrifamikill í umræðunni um hönnun, samfélag og umhverfi. Hann skrifaði bókina In the Bubble: Designing in a Complex World þar sem hann varpar ljósi á þá sóun sem á sér stað í framleiðsluferlum og lifnaðarháttum nútímans en bendir jafnframt á fjölmörg verkefni þar sem breytingar eru þegar að eiga sér stað. Hann tekur jákvæðan pól í hæðina og telur hönnun geta verið lykilatriði í átt að þeim breytingum sem þurfa að eiga sér stað ásamt því að styrkja efnahagslegan árangur þjóða og fyrirtækja.

www.thackara.com
 

Dr. Elizabeth (Dori) Tunstall prófessor í hönnunarmannfræði við Swinburne háskólann í Melbourne. Dori fjallar um hönnun og samfélag. Hvernig hönnun umbreytir mannlegum gildum í áþreifanlegan veruleika og skiptir þannig miklu máli í mótun samfélaga. Dori skipulagði og ýtti af stað mótun hönnunarstefnu Bandaríkjanna.

www.dori3.typepad.com/

 

 

Jan Stavik er hagfræðingur og framkvæmdastjóri norska hönnunarráðsins (Norsk Design). Norðmenn hafa unnið ötullega að eflingu hönnunar undanfarin áratug og vinna nú að sinni þriðju hönnunarstefnu. Hönnunarráðið hefur það hlutverk að auka tiltrú á mikilvægi hönnunar í fyrirtækjum landsins og efla notkun hönnunar í nýsköpunarþróun. Og þannig stuðla að auknum gæðum og samkeppnishæfni. Jan hefur verið forstjóri BEDA (The Bureau of European Design Associations) síðastliðin 4 ár og hefur unnið að samþættingu hönnunar í nýsköpunarstefnu Evrópusambandsins.

www.norskdesign.no/

Marina Candi verkfræðingur og forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar HR í nýsköpun og frumkvöðlafræðum. Marina varði nýverið doktorsritgerð sína frá Copenhage Business School, þar sem hún rannskaði útbreiðslu og notkun fagurfræðilegrar hönnunar við þjónustunýsköpun í nýjum tæknifyrirtækjum.

www.onlinelibrary.wiley.com/doi/10.1111/j.1540-5885.2010.00770.x/abstract 

Aðrir fyrirlesarar

Andri Snær Magnason - rithöfundur. Í bók og samnefndri mynd Andra Snæs komu fram áhugaverðar hugleiðingar um framtíðina. Vandamál okkar hvað varðar umhverfismál (og reyndar fleiri mál) má rekja til þess að við höfum ekki verið nægilega forsjál og við höfum ekki haft nægilega sterka stefnu sem tekur til allrar heildarinnar til langs tíma.

Grímur Sæmundssen, læknir og forstjóri Bláa Lónsins og varaformaður Samtaka atvinnulífsins. Blá lónið var frumkvöðull hér á landi í að skapa heildstæða ímynd og upplifun sem tekur til allra þátta fyrirtækisins, frá því að baða sig í lóninu til þess að nota vörur úr húðlínunni - allt frá arkitektúr yfir í grafíska hönnun og upplifunarhönnun. Auðvelt er að ímynda sér fjárhæðirnar sem varið hefur verið í þetta - en það hefur skilað sér margfalt til baka.

Gunnar Hilmarsson - Andersen&Lauth - Fyrir skömmu fékk Andersen&Lauth, sem rekur sögu sína allt aftur til 1908, andlitslyftingu og sköpuð var heildstæð ímynd fyrirtækins. Nú eru vörur fyrirtækisins seldar víða um heim.

Halla Helgadóttir - Hönnunarmiðstöðin. Hönnunarmiðstöð Íslands er kynningar- og upplýsingamiðstöð fyrir íslenska hönnun á Íslandi og erlendis. Meginhlutverk Hönnunarmiðstöðvar er að efla skilning þjóðarinnar á mikilvægi hönnunar fyrir samfélagið og íslenskt efnahagslíf og benda á þá miklu verðmætasköpun sem getur falist í íslenskri hönnun fyrir þjóðfélagið allt. Hönnunarmiðstöð stuðlar að framgangi íslenskra hönnuða erlendis, enda eru þar stór tækifæri fyrir íslenska hönnun og framleiðsluvörur.

Hilmar Janusson -  Össur. Hilmar hefur starfað hjá Össuri síðan 1993 sem yfirmaður rannsókna og þróunar. Hann stundaði rannsóknir hjá Iðntæknistofnun frá 1987 til 1988. Hilmar á sæti í stjórn Stjörnuodda hf. og í stjórn Vísindasjóðs hjá Rannsóknarráði Íslands. Hilmar er með B.Sc. gráðu í efnafræði frá Háskóla Íslands og doktorsgráðu í efnavísindum og verkfræði frá Leeds University í Englandi.

Jóhannes Þórðarson - deildarforseti hönnunar og arkitektúrdeildar Listaháskóla Íslands. Jóhannes segir frá þróun deildarinnar og meistaranámi í hönnun sem beðið er með eftirvæntingu. Auk þess segir Jóhannes frá Hugmyndahúsi háskólanna og þeim áhrifum sem það hafði.

Magni Þorsteinsson - KronKron. KronKron er án efa spútnik íslenska fataiðnaðarins hér heima. Á stuttum tíma hefur línan skotist upp á stjörnuhimininn, og fyrirtækið hefur stækkað og dafnað. Þau hafa þó áhugaverða sögu að segja með í tengslum við skattamál sem ekki virðast hliðholl nýlegum atvinnugreinum landsins á álþjóðamarkaði.

“Pantið áhrifin” - Auður Ösp Guðmundsdóttir og Embla Vigfúsdóttir - vöruhönnuðir fjalla um verkefnið sitt “Pantið áhrifin” sem þær fengu nýverið Forsetaverðlaun Nýsköpunarsjóðs námsmanna fyrir. Pantið áhrifin er færanlegur veitingastaður þar sem réttirnir eru pantaðir út frá áhrifum þeirra á líkamann en ekki út frá innihaldi. Hugmyndafræðin snýst um tilraunagleði, rekjanleika og nýsköpun. “Pantið áhrifin” er nýtt innlegg í skyndibitamenningu landsins og til þess fallinn að valda samfélagslegri hugarfarsbreytingu um heilnæmi og grænmeti sem auðlind. Hönnuðirnir eru í víðu þverfaglegu samstarfi við ýmsar atvinnugreinar.

 

Sigríður Sigurjónsdóttir - „Stefnumót bænda og hönnuða“ er frumkvöðlaverkefni í þágu atvinnulífsins þar sem tvær starfstéttir eru leiddar saman  til að skapa einstaka afurð. Mikil sóknartækifæri felast í  matvælaframleiðslu og með markvissri nýsköpun á hráefninu og vöruþróun er hægt að margfalda virðisaukann. Í sérstöðu og upplifun felast mikil verðmæti, því er markmið verkefnisins að þróa héraðsbundnar matvörur byggðar á hæstu gæðum, rekjanleika og menningarlegri skírskotun.  Í verkefninu er einni af elstu starfstéttum landsins, bændum, att saman við eina af yngstu starfsstéttunum, hönnuðum. Markmið verkefnisins er að þær afurðir sem hafa verið þróaðar skapi efnahagslegan ávinning og verði hvatning fyrir  bændur til að auka vægi nýsköpunar og þverfaglegrar samvinnu í framleiðslunni. Dæmi um vörur sem hafa komið út úr verkefnu: Skyrkonfektið, rabbabarakaramella, sláturkaka, blóðbergsdrykkur o.fl.

Sigríður Sigþórsdóttir arkitekt, Basalt arkitektum - einn af hönnuðum lækningalindar Bláa lónsins og sundlaugarinnar á Hofsósi. Arkitektúr Sigríðar býr yfir mikill náttúru, sem á vel við ímynd Bláa lónsins. Hönnunarteymið barðist fyrir fyrir ákveðnum kosntaðarsömum þáttum við hönnunina, s.s. hinni löngu aðkomu að Bláa lóninu, en þeir þættir hafa vakið mikla eftirtekt og eru mikilvægur hluti af því að upplifa staðinn. Sundlaugin á Hofsósi er einnig gott dæmi um að unnið hafi verið að hönnuninni af mikilli natni og útkoman er glæsileg, fellur vel að náttúru og... dregur að sér ferðamenn!

Sigurður Þorsteinsson - Design Group Italia - formaður stýrihóps um Mótun hönnunarstefnu Íslands. Sigurður hefur innleitt hönnunarhugsun hjá 66°N, Kaffitár og Bláa lóninu, auk erlendra fyrirtækja svo sem: ABB, 3M, Unilever og Samsung.

 
 Í tengslum við fyrirlestur Jan Stavik, framkvæmdastjóra norska hönnunarráðsins, viljum við vekja athygli að norsku ferðamannaleiðunum, sem hafa vakið mikla athygli. Það verkefni er gott dæmi um samspil og samvinnu hönnunar, vegagerðar og verkfræði/tæknifræði. Manngerð hönnun ýtir þar undir upplifunina á stórkostlegri náttúru, og dregur athygli að Noregi sem ákjósanlegum ferðamannastað. Sjá nánar á slóðinni www.turisveg.no.

  HUGMYNDAFUNDUR 15. JÚNÍ 2011

Í sól og sumaryl mættust aðilar stjórnsýslu, atvinnulífs, menntastofnana o.fl. til að ræða stöðu hönnunar í samfélaginu, framtíð hennar og möguleika. Fundurinn var að morgni dags 15. júní í Iðnó.

Hönnun er enn ung grein hér á Íslandi en hefur ört vaxið fiskur um hrygg, sér í lagi síðastlin ár þar sem hönnuðir hafa tekið höndum saman, t.d. með hátíðinni HönnunarMars. Víða hafa þjóðir áttað sig á mikilvægi hönnunar í stærra samhengi og markað sér hönnunarstefnu. Hönnun er talin vera mikilvægur hvati í að auka samkeppnishæfni þjóða. Hönnun er annað og meira en fallegar vörur, hönnun er hugsunarháttur eða vinnuaðferð sem tengist öllum greinum atvinnulífsins.

Á fundinum var farið í gegnum tækifæri og áskoranir íslenskrar hönnunar, hvaða verkefni væru mest aðkallandi, og hver framtíðarsýn hönnuða er.

·       Rætt var um að fagfélögin væru dreifð og vegna smæðar hönnunargeirans hérlendis myndi sameining þeirra í eitt félag skila markvissara starfi.

·       Einnig voru menntamálin rædd: hönnunarmenntun á öllum stigum menntunar, frá grunnskóla og upp á meistarastig og frá endurmenntun yfir í fræðslu- og kynningarstarf.

·       Framleiðsla er enn fátækleg hérlendis. Innlend hönnun myndi hagnast af því ef ýtt væri undir innlenda framleiðslu og nýtingu íslensks efniviðar - það væri einnig atvinnu- og verðmætaskapandi.

·       Rætt var um mikilvægi þverfaglegrar vinnu í öllu starfi, samstarfi milli ólíkra atvinnugreina, hvort sem er í hönnunarvinnu eða í annarri verkefnavinnu.

Umræðan nýtist í undirbúningi Hönnunarstefnunnar sem áætlað er að verði kynnt á haustmánuðum 2011 og einnig í undirbúningi ráðstefnunnar Nýr farvegur | ráðstefna um hönnunarstefnu Íslands sem verður haldin á föstudaginn 26. ágúst í Hörpu. Hægt er að kaupa miða á mida.is: http://midi.is/atburdir/15/98/.

Nánari upplýsingar má nálgast á www.honnunarstefna.is

.


Eldri tölublöð
Efnisyfirlit
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga