Helgi Þorgils í Listasafninu 26.10.2005
Helgi Þorgils í Listasafninu á Akureyri  26.10.2005

Laugardaginn 29. október 2005. verður opnuð sýning á nýjum og nýlegum verkum eftir Helga Þorgils Friðjónsson í Listasafninu á Akureyri. Sýningin, sem ber heitið Tregablandin fegurð, er ætlað að veita heilsteypt yfirlit yfir feril Helga á undanförnum árum og hefur að geyma mörg af hans áhrifamestu málverkum, auk vatnslitamynda og skúlptúra.

Helgi Þorgils Friðjónsson (f. 1953) hefur skipað sér í hóp okkar merkustu listmálara með afar sérstöku myndmáli og tækni sem orðið hefur æ fágaðri og hnitmiðaðri eftir því sem árin hafa liðið. Helgi ruddi málverkinu nýja braut laust upp úr 1980 hér á landi, eftir að þetta gamalgróna listform hafði lent í djúpri lægð á áttunda áratugnum, sem stundum hefur verið kallaður áratugur hugmyndalistarinnar. Helgi hóf feril sinn með stórtækri framleiðslu á teikningum og teiknimyndabókum þar sem menn og dýr lifðu frjóu samlífi. Síðan fór hann að gera hráar skissur og teikningar beint á striga; hugmyndin var sú að einfalda sköpunarferlið og koma hugsuninni milliliðalaust í málverkið. Hið sjónræna skipti ekki öllu máli heldur hugmyndin á bak við allt saman.

Helgi Þorgils á því rætur í hugmyndalistinni og fullyrða má að myndmál hans eigi fremur uppruna sinn í fantasíum og furðum hugans en í áþreifanlegum veruleika. Finngálkn, kentárar, englar og grískar goðaverur eru að vísu ekkert nýtt í málverkinu, þaðan af síður girnilegir ávextir. Mikilvægasta framlag Helga felst í óskilgreinanlegri stemmningu myndanna sem aðeins er hægt að lýsa í þverstæðum. Þarna ríkir fullkomin ró vestan úr mjúkum Dölum og brjálæðiskennd hugsýn, einlægt draumaríki og hárnákvæm blekking, upphafinn heilagleiki og stráksleg stríðni, trúin á eitthvað upprunalegt, saklaust og fallegt, og írónísk vitund um fáránleika tilverunnar. Ýmsir gagnrýnendur tóku verkum Helga fremur illa til að byrja með; þeim fannst vanta í þau eðlilega náttúru og karlmannlegar pensilstrokur og sögðu þau flausturslega unnin. Þessar raddir eru löngu þagnaðar. Helgi hefur sagt að myndir sínar séu raunsæjar og fegurð þeirra felist í því að þær séu sannar og réttar.

Í grein sem Dr. Christian Schoen, forstöðumaður Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar (CIA), hefur skrifað af tilefni sýningar Helgi í Listasafninu á Akureyri segir meðal annars: "Heimar Helga eru ofurverulegir, bæði kyrrstæð samsetningin og samlífi og afskiptaleysi mannanna og veranna gefur í skyn tímaleysi. Í þeim má greina samhljóm sem vísar til upprunans, paradísar, og virðist hvorki rúma dauða né hnignun. Þessi skuggahlið lífsins er þó stöðugt nálæg, því hún leynist í mótífum verkanna. Dauðinn kemur fram í dulargervi eða býr, sem einskonar listsöguleg skírskotun, innra með þeim kyrrlífsmyndum sem bregður endurtekið fyrir. Að þessu leyti eru myndir Helga Þorgils ávallt díalektískar: Þær fjalla um sköpunina og fela í sér dauðann. Þær taka á sig gervi hins tímalausa og afhjúpa þannig forgengileikann. Þær stíga fram á sviði hins yfirnáttúrulega en kljást engu að síður við eðli veruleikans, eðli mannsins og náttúrunnar."

Tengt efni

Eldri tölublöð
Efnisyfirlit
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga