Greinasafni: Söfn einnig undir: List
Gerðarsafn
Gerðarsafn er framsækið listasafn með megináherslu á nútíma- og samtímalist í glæsilegri byggingu á besta stað í Kópavogi. Safnið er reist í minningu Gerðar Helgadóttur myndhöggvara. Í Gerðarsafni eru á hverju ári haldnar um 20 sýningar af fjölbreyttu tagi, innlendar sem erlendar. Þrír sýningarsalir eru í safninu, tveir á efri hæð með ofanlýsingu en á neðri hæð er fjölnotasýningarsalur ásamt bjartri og notalegri kaffistofu. Gerðarsafn er opið alla daga nema mánudaga frá kl. 11.00 - 17.00.

Skipuleg söfnun listaverka í Kópavogi hófst á tíu ára afmæli bæjarins árið 1965 þegar samþykkt var að stofna Lista- og menningarsjóð og verja til hans fastri árlegri fjárhæð. Listasafn Kópavogs-Gerðarsafn var opnað í aprílmánuði 1994 í húsi sem Benjamín Magnússon teiknaði.

Nafnið Gerðarsafn er til heiðurs Gerði Helgadóttur myndhöggvara sem lést árið 1974 aðeins 47 ára að aldri.

Safnið geymir þau verk sem bærinn hefur eignast frá 1965 auk veglegra gjafa sem því hafa borist, til dæmis frá erfingjum Gerðar Helgadóttur og minningarsjóði Barböru og Magnúsar Á. Árnasonar.

Meginstofn Gerðarsafns eru um 1.400 verk sem erfingjar Gerðar Helgadóttur myndhöggvara færðu Kópavogsbæ að gjöf árið 1977. Safnið á einnig um 300 listaverk eftir hjónin Barböru og Magnús Á. Árnason. Enn fremur er einkasafn Þorvaldar Guðmundssonar, sem kenndur var við Síld og fisk, og Ingibjargar Guðmundsdóttur, konu hans, í vörslu Gerðarsafns.

Gerður. Meistari glers og málma
Bókin Gerður. Meistari glers og málma er gefin út af Listasafni Kópavogs. Ritstjóri hennar er Guðbjörg Kristjánsdóttir forstöðumaður Gerðarsafns. Guðrún Pálsdóttir bæjarstjóri í Kópavogi ritar inngangsorð. Í bókinni fjalla sjö höfundar um list og æviferil Gerðar Helgadóttur myndhöggvara og glerlistamanns. Ásdís Ólafsdóttir, listfræðingur, skrifar um höggmyndalist Gerðar. Francoise Perrot, fyrrverandi rannsóknarstjóri hjá Rannsóknarstofnun franska ríkisins, og Caroline Swash, deildarstjóri hjá glerdeild Central Saint Martins College of Art and Design í London, fjalla um glerlist Gerðar á erlendum glerverkstæðum. Listfræðingarnir Elísa Björg Þorsteinsdóttir og Guðbjörg Kristjánsdóttir skrifa skýringar á Skálholtsgluggum og JBK RANSU, listamaður og gagnrýnandi, fjallar um tengsl Gerðar Helgadóttur við heimsmyndafræði armenska dulspekingsins Gurdjieffs. Þá minnist Elín Pálmadóttir, rithöfundur og blaðamaður, Gerðar vinkonu sinnar. Bók Elínar, Gerður. Ævisaga myndhöggvara, sem varð metsölubók árið 1985, átti stóran þátt í því að opna augu manna fyrir mikilvægi Gerðar í íslenskri myndlist. Loks hefur Guðbjörg Kristjánsdóttir tekið saman æviatriði Gerðar.
Textar bókarinnar eru á íslensku, ensku og frönsku. Hún er ríkulega prýdd ljósmyndum af verkum Gerðar frá öllum tímaskeiðum. Jafnframt fylgja æviatriðum fjölmargar myndir úr lífi listakonunnar. Ámundi Sigurðsson hannaði bókina og hún var prentuið hjá Svansprent.

Listasafn Kópavogs-Gerðarsafn
Hamraborg 4, Pósthólf 153, 202 Kópavogur.
Sími 570 0440 og 570 0442 / Fax 570 0441
gerdarsafn@kopavogur.is

Tengt efni

Eldri tölublöð
Efnisyfirlit
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga