Listasafnið á Akureyri veglega yfirlitssýningu á verkum Tryggva Ólafssonar listmálara
 Þann 20. mars 2010 opnaði Listasafnið á Akureyri veglega yfirlitssýningu á verkum Tryggva Ólafssonar listmálara. Sýningin ber nafnið Varið land og spannar 40 ár af feril Tryggva, tímabilið frá 1969 til 2009.

Tryggvi hefur fyrir löngu skipað sér í framvarðasveit íslenskrar myndlistar með sérstæðum og auðþekkjanlegum stíl sínum og er í hópi þekktustu núlifandi myndlistarmanna Íslands. Hann hóf ungur að mála og nam myndlist bæði hér á landi og Kaupmannahöfn í Danmörku, þar sem hann hefur búið í yfir 40 ár. Tryggvi hefur haldið fjölda einkasýninga á löngum ferli sínum og tekið þátt í samsýningum í fjölmörgum löndum. Verk hans prýða bækur og blöð og hann hefur skreytt byggingar bæði hér á landi og erlendis.Eitt orð – örlæti – lýsir myndlist Tryggva Ólafssonar betur en flest önnur. Einhverjum kann að þykja auðveldara að heimfæra þetta orð á geðríkan lista- og lífsnautnamanninn sjálfan, sem áratugum saman skaut skjólshúsi yfir umflakkandi Íslendinga í margs konar ásigkomulagi meðan hann bjó í Kaupmannahöfn. En þetta á engu síður við um myndlist hans, enda er varla við öðru að búast af svo heilsteyptum manni.

Þetta „örlæti“ er að sumu leyti innbyggt í þá myndlistarstefnu sem Tryggvi hefur helgað sig frá því um miðjan sjöunda áratuginn, nefnilega popplistina. Sú list grundvallast ekki á viðteknum módernískum hugmyndum um nýsköpun frá grunni, heldur á meðhöndlun listamannsins á myndrænum ummerkjum nútíma neyslu- og fjölmiðlasamfélags, teiknimyndasögum, ljósmyndum, auglýsingaskiltum, vöruumbúðum, kvikmyndabútum og fleiru í þá veru.

Í myndum Tryggva endurspeglast lífsreynsla hans og skoðanir, veruleiki Íslendings sem hefur orðið fyrir þroskandi áhrifum af langri dvöl erlendis. Hann á sinn eigin myndheim; goðsagnir sem hann hefur ofið úr hugsun sinni, heimþrá, minningum og hugleiðingum um heiminn.

Á þessu ári eru fimmtíu ár liðin frá fyrstu sýningu Tryggva hér á landi en listamaðurinn fagnar einnig 70 ára afmæli sínu síðar á árinu. Það má því segja að Tryggvi standi á miklum tímamótum nú.

Thor Vilhjálmsson rithöfundur og Sören Haslund, sendiherra Danmerkur á Íslandi, opna sýninguna sem haldin er í samstarfi við Málverkasafn Tryggva Ólafssonar í Neskaupstað.Sýningin stendur til 9. maí 2010.

Í tilefni sýningarinnar er gefin út sýningarskrá með umfjöllun um líf og list Tryggva eftir Aðalstein Ingólfsson.


Ræða Hannesar Sigurðssonar við opnun sýningarinnar


Góðir gestir,

Tryggvi Ólafsson skipar sérstakan stað í íslenskri listasögu. Meðan flestir jafnaldrar hans hér heima urðu fráhverfir málverkinu á hippatímanum og leituðu á náðir nýrra miðla — í ljósmyndir, textaverk og innsetningar — hélt Tryggvi ótrauður áfram að blása lífi í þessa gömlu hefð og finna leiðir við að laga hana að samtímanum. Tryggvi ásamt Magnúsi Tómassyni, Gylfa Gíslasyni og Erró eru okkar fulltrúar fyrir þá stefnu sem kennd er við popplist og að vissu leyti einnig Þorgerður Höskuldsdóttir, Vilhjálmur Bergsson og Jón Gunnar. Það er kannski engin furða að bæði Tryggvi og Erró skyldu hafa alið mestan sinn aldur í París og Kaupmannahöfn, þar sem Tryggvi bjó í heil 46 ár. Popplistin er afsprengi fjöldaframleiðslunnar, valdaráni lágkúrunnar, síbylju stórborganna. Hún spratt upp í Bretlandi og Bandaríkjunum í byrjun sjöunda áratugarins og gerði sér mat úr auglýsingum og dægurflugum dagblaða og tímarita sem lituðu það markaðsþjóðfélag sem var byrjað að rífa í sig heiminn. Á þessum árum var Ísland ekki komið út í þá hörðu neysluhyggju sem síðar varð raunin og því varla jarðvegur fyrir slíka list hér heima, enda náði poppið aldrei neinni verulegri fótfestu.

Danmörk var að vísu komið lengra á þessari þróunarbraut, en ég held að popplistin sem kveikti svo í Tryggva hafi fyrst og fremst boðið honum upp á þá gjöfulu aðferðarfræði að geta leitað víða fanga án þess að missa sjónar á fígúrinni og veruleika hlutanna, sem hann tengir oft saman með óvæntum hætti í anda súrrealistanna. Langt fram á áttunda áratuginn átti pólitíkin hug hans allan og hann andmælti kröftulega stríðinu í Víetnam, veru varnarliðsins, öllu herðnaðarbröltinu úti í heimi, yfirgangi möppudýranna og þeim almenna glundroða, firringu og aftengingu við land og sögu sem þegar lág í loftinu. Hápunkturinn á þessum kafla í ferli hans er að margra mati „Varið land“ frá 1977, sem sýningin dregur nafn sitt af. En fljótlega í kjölfarið virðist Tryggvi hafa komist að þeirri niðurstöðu að við lifum því miður í óvörðu landi, varnarlausum heimi, og að lítið myndi breytast við það að mótmæla sig hásan á striganum. Landvættirnir voru flúnir löngu fyrir nýustu kreppu.

Með þetta viðhorf að leiðarljósi nær hann vopnum sínum og kemst aftur á flug. Í stað þess að einblína á argaþras líðandi stundar hefur hann sig jafnt og þétt yfir sögu menningar og lista og tekur að tengja ólíklegustu hluti og tímabil saman á forsendum skáldskaparins. Fegurð og jafnvægi verður aðeins náð innan frá, þar getur allt talað saman í sátt og samlyndi, pentskúfur og Concord-þota, Jónas Hallgrímsson, Duke Ellington og grísk marmarastytta, krossfiskur, kæna, fjallgarður, einþörungur, sauðakjammi og Forn-Egypsk steinrista. Og alls staðar glittir í Ísland, heimslóðirnar fyrir austan, hvar sem borið er niður.

Verk Tryggva hafa hneigst í átt til æ meiri einföldunar og fáséðrar litagleði. Þar er ekki svartsýninni fyrir að fara. Birtan í verkum síðustu ára slær út allar sólbaðsstofur og hjúpar menn andlegri brúnku. Eins og hjá hans stóru fyrirmynd, Henri Matisse, virka þær líkt og sálrænn hægindastóll fyrir lúin bein, sjónræn vítamínssprauta, um leið og þær undirstrika að allt hangir saman, ekkert stendur út af borðinu. Tryggvi er myndskáld í ætt við hollvin sinn, ljóðskáldið Þorstein frá Hamri, sem vill segja sem mest og best með sem fæstum orðum og án nokkurs stærilætis. Það gerir manngæskan að verkum. Myndrúnir Tryggva tala tungum kynslóðanna. Huglægni og hluthyggja í málverki eru ekki andstæðar fyllkingar og útlokandi pólar, heldur gamlir vinir sem fara með eldheitar ástarjátningar þegar þeim er leyft að tala saman í ró og spekt. Engu er hafnað og allt er meðtekið eins og það kemur listamanninum fyrir sjónir úr ölduróti lífsins.

Í ár heldur Tryggvi upp á 70 ára afmæli sitt og 50 ár eru liðin frá því að hann hélt sína fyrstu sýningu. Hér er jafnframt um að ræða yfirgripsmestu sýningu sem haldin hefur verið á ferli hans og spannar hún 54 ár, frá fyrsta fikti hans við málverkið aðeins 14 ára að aldri til ársins 2008. Því miður gat Tryggvi ekki verið með okkur í dag eins og að var stefnt sökum bakslags sem hann varð fyrir eftir nýlega aðgerð á handlegg. En til stendur að hann heimsæki bæinn áður en sýningunni lýkur og haldi þá fyrirlestur í Verkmenntaskólanum.

Sýningin er unnin í samstarfi við Málverkasafn Tryggva Ólafssonar í Neskaupsstað sem var stofnað árið 2001 fyrir tilstilli Magna Kristjánssonar, el capitano, fornvinar og velunnara þessa listskrúðuga listamanns. Þetta er í fyrsta sinn sem Listasafnið á Akureyri efnir til samstarfs við annað listasafn á landsbyggðinni og er það vel. Sumir halda því fram að menn eigi aðeins að rýna í verkin og allt annað sé aukaatriði. Ég er ekki sammála. Sá vinur sem Tryggvi á í Magna og sú alúð sem þessi margreyndi kapteinn hefur lagt í að gera sýninguna sem glæsilegasta úr garði dýpkar aðeins það manngildi sem fram kemur í verkunum. Góð list verður, að mínu mati, að bera með sér alvöru væntumþykju og henni hefur Magni svo sannarlega staðið undir. Ég vil færa honum mínar bestu þakkir fyrir einstaklega gott og traustvekjandi samstarf.

Nú mun Magni taka til máls, en að því loknu mun annar góðvinur Tryggva, skáldmögurinn Thor Vilhjálmsson votta honum virðingu sína. Eftir öll þessi ár í Danmörku er við hæfi að sendiherra kóngsins Kaupmannahafnar, Sören Haslund, opni sýninguna með diplómatískum hætti. Ólíkt Bertel Thorvaldsen, sem Danir hafa eignað sér með húð og hári, og Ólafi Elíassyni, sem gert hefur sér far um að leika tveimur skjöldum, hefur Tryggvi aldrei verið í vafa með hvaða þjóð hann tilheyrir. En án Danaveldis og þess stuðnings sem það veitti honum gegnum árin færi örugglega minna fyrir þessari sýningu. Listin er jú landamæralaus og löngu tímabært að sérhver þjóð losi sig við sinn frumstæða metnað og fari að tala saman eins og hún væri stödd í heiðríku málverki eftir Tryggva.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Efnisyfirlit
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga