Tvær nýjar sýningar í Hafnarborg Laugardaginn 7. janúar 2012


Ásgrímur Jónsson Karen Agnete Þórarinsdóttir, Í eldhúsinu Harpa Björnsdóttir, Pleaser, 2007                  

Tvær nýjar sýningar í Hafnarborg
Kyrralíf – Málverk og teikningar  
Pleaser – Verk Hörpu Björnsdóttur í Sverrissal

Laugardaginn 7. janúar kl. 15 verða opnaðar tvær nýjar sýningar í Hafnarborg. Í meginsal safnsins er sýningin Kyrralíf  þar sem sýnd eru málverk og teikningar af uppstillingum, meðal annars margar af perlum íslenskrar myndlistar. Í Sverrissal er sýningin Pleaser þar sem sýnd eru ný og nýleg verk eftir Hörpu Björnsdóttur. 

Á sýningunni Kyrralíf er athyglinni beint að kyrralífsmyndum eftir íslenska listamenn og þeirri glímu við form og liti sem þetta listform felur í sér. Fjöldi verka er á sýningunni eftir ólíkar kynslóðir listamanna sem sumir eru þekktir fyrir verk annarrar gerðar. Sýnd eru verk úr safneign Hafnarborgar en einnig verk sem fengin eru að láni hjá söfnurum og öðrum söfnum.
Kyrralíf á sér langa sögu sem viðfangsefni myndlistarmanna, ýmist hlaðið táknum eða sem hrein glíma við form og liti. Einfaldasti samnefnari verka af þessu tagi eru hversdagslegir hlutir sem komið er fyrir á borði og listamaðurinn endurskapar síðan í málverki eða teikningu. Í tímans rás hefur inntak verkanna tekið breytingum þar sem þau endurspegla tíðaranda og hugmyndir um listræna túlkun. Þau eru þó ætíð glíma listamanns við grunnþætti myndbyggingar en innri bygging myndflatarins, samspil lita og forma, áferð, ljós og skuggar mynda einingu sem uppfyllir myndrænar kröfur um samræmi. Þó gefinn sé sérstakur gaumur að formrænum vangaveltum listamanna má jafnframt lesa tíma og tíðaranda í gegnum hugmyndaleg og formræn einkenni verkanna. Á sýningunni eru rúmlega fjörtíu verk eftir íslenska listamenn einkum frá því um miðja 20. öld, þar á meðal eftir Kristínu Jónsdóttur, Jón Stefánsson, Júlíönu Sveinsdóttur, Kjarval, Finn Jónsson, Gunnlaug Scheving og Þorvald Skúlason. Einnig eru verk eftir Louisu Matthíasdóttur og nokkra núlifandi listamenn eins og Helga Þorgils Friðjónsson, Magnús Tómasson, Húbert Nóa, Pétur Gaut og Áslaugu Thorlacius. Sýningarstjórar eru Ólöf K. Sigurðardóttir og Þorbjörg Br. Gunnarsdóttir.
 
Pleaser er yfirskrift sýningar á nýjum og nýlegum verkum eftir myndlistarkonuna Hörpu Björnsdóttur, sem verður opnuð í Sverrissal Hafnarborgar. Verk Hörpu fjalla á einn eða annan hátt um hlutverk og stöðu listamannsins, þau skilaboð sem hann ber umhverfi sínu og þann menningarlega hugmynda- og táknheim sem listamenn sækja í. Sköpunin, hið sanna í listinni og leiðin að kjarna listrænnar upplifunar eru viðfangsefni sem standa henni nærri og hefur hún unnið margræð verk þar sem klassískur táknheimur og sögulegar vísanir leiða áhorfandann áfram í listrænni upplifun. Hún finnur hugmyndum sínum farveg í margvíslegan efnivið og hefur meðal annars sýnt málverk, skúlptúra, lágmyndir, vatnslitamyndir, grafík, ljósmyndir og myndbandsverk auk þess sem ljóð eftir hana hafa komið út á bók. Harpa hefur allt frá því hún kláraði Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1982 tekið þátt í fjölmörgum sýningum og haldið á þriðja tug einkasýninga. Hún hefur verið mikilvirkur sýningastjóri, kennari og skipuleggjandi fjölbreyttra viðburða er tengjast myndlist m.a. í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi og í Safnasafninu á Svalbarðsströnd.
 
 
Dagskrá:
 
Sunnudag 15 janúar kl. 15
Sýningarstjóraspjall Kyrralíf–Þorbjörg Br. Gunnarsdóttir
 
Sunnudag 29. janúar kl. 15
Listamannsspjall Pleaser–Harpa Björnsdóttir
 
Sunnudag 12. janúar kl. 15
Sýningarstjóraspjall Kyrralíf–Ólöf K. Sigurðardóttir
 
Námsskeið
Kyrralíf – málað og teiknað 
Leiðbeinandi Pétur Gautur
26. janúar – 4. febrúar (4 skipti)
Fimmtudaga kl. 18 – 21
Laugardaga kl. 11 - 14
 
Námsskeið fyrir börn  7 – 12 ára
Kyrralíf og annað líf
Leiðbeinandi Klara Þórhallsdóttir
22. janúar – 12 febrúar (4 skipti)
Sunnudaga kl. 12 - 14
 
Námskeið í málun og önnur dagskrá kynnt nánar á heimasíðu safnsins www.hafnarborg.is
 

Tengt efni

Eldri tölublöð
Efnisyfirlit
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga