Nýjar sýningar í Hafnarborg
Laugardaginn 8. janúar kl. 15 verða opnaðar tvær nýjar sýningar í Hafnarborg menningar- og listamiðstöð Hafnarfjarðar. Sýningin Brot úr náttúrunni – Eiríkur Smith abstraktverk 1957-1963 er önnur sýning í sýningaröð Hafnarborgar sem kynnir margbreyttan feril listmálarans Eiríks Smith og í Sverrisal Kjarvalar eftir Stefán Jónsson.       

Brot úr náttúrunni – Eiríkur Smith abstraktverk 1957 – 1963

Ferill Eiríks Smith (f. 1925) greinist í tímabil sem eru innbyrðis ólík um leið og þau eru hvert um sig mikilvægt innlegg í íslenska listasögu. Árið 1957 urðu þáttaskil í list Eiríks þegar hann sagði skilið við strangflatarlistina. Meðvitund um náttúruna og umhverfið fór að sækja á Eirík og hann hvarf frá hinni ströngu myndgerð. Hann var þó áfram trúr abstraktmálverkinu en brotakenndar myndir náttúrunnar tóku að birtast á myndfletinum þar sem drifkraftur verkanna varð tilfinningaleg glíma við form og liti landsins.  Flest verkanna á sýningunni eru úr safneign Hafnarborg en safnið varðveitir fjölda verka eftir Eirík Smith frá ýmsum tímum, hann er afkastamikill listamaður sem teljast má þjóðareign þar sem listaverk hans hafa farið víða. Hægt er að lesa nánar um sýninguna hér.

Kjarvalar − Stefán Jónsson

Kjarvalar Stefáns Jónssonar (f. 1964) eru þrívíðar endurgerðir málverka Jóhannesar Sveinssonar Kjarvals (1885-1972). Stefán sækir hér í smiðju þess listamanns sem lengi hefur verið tákngerfingur menningararfs þjóðarinnar á sviði myndlistar og horfist þannig í augu við arfleið sögunnar á glettinn hátt. Stefán hefur áður horfst í augu við byrðar listasögunnar með því að færa sögufræg málverk meistara eins og Giotto og Goya í þrívið form og notað til þess meðal annars Legokarla. Stefán útskrifaðist frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1992 en stundaði einnig myndlistarnám við School of Visual Arts í New York þar sem hann lauk MFA gráðu árið 1994. Stefán hélt sínar fyrstu sýningar snemma á níunda áratugnum og vakti þá strax athygli. Hann hefur haldið sýningar með jöfnu millibili meðal annars í Safni, Listasafninu á Akureyri, Listasafni ASÍ og í sýningarsölum í New York og Singapore þar sem hann bjó um tíma. Flest helstu söfn landsins eiga verk eftir Stefán auk Singapore Art Museum. Hægt er að lesa nánar um sýninguna hér.

Dagskrá:

Listamannsspjall. sunnudag 9. janúar kl. 15. Stefán Jónsson tekur þátt í leiðsögn um sýninguna Kjarvalar.

Klippiverksmiðja fyrir börn sunnudag 23. janúar kl. 14.

Leiðsögn sunnudag 30. janúar kl. 15 með Ólöfu K. Sigurðardóttur um sýninguna Brot úr náttúru − Eiríkur Smith abstraktverk 1957 – 1963.

Nánar um dagskrá á heimasíðu safnsins.

Sýningarnar standa frá 8. janúar til 6. febrúar 2011. Hafnarborg er opin alla daga 12 – 17 nema þriðjudaga og á fimmtudögum 12 -21. www.hafnarborg.is s. 585 5790.

Myndbönd

Tengt efni

Eldri tölublöð
Efnisyfirlit
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga