Ásmundarsafn
Listasafn Reykjavíkur er til húsa á þremur stöðum í bænum. Í Hafnarhúsi við Tryggvagötu, á Kjarvalsstöðum við Flókagötu og í Ásmundarsafni við Sigtún.

Listasafn Reykjavíkur: Ásmundarsafn

Ásmundarsafn er helgað verkum Ásmundar Sveinssonar myndhöggvara (1893-1982) og var opnað formlega 1983. Það er til húsa í einstæðri byggingu sem listamaðurinn hannaði að mestu sjálfur og byggði á árunum 1942-50. Formhugmyndir hússins eru sóttar til Miðjarðarhafsins, í kúluhús araba og píramída Egyptalands. Í byggingunni voru heimili og vinnustofa listamannsins. Ásmundur byggði síðar bogalaga byggingu aftan við húsið, sem bæði var hugsuð sem vinnustofa og sýningarsalur. Síðar hannaði arkitektinn Mannfreð Vilhjálmsson viðbyggingu sem tengdi aðalhúsið og bogabygginguna saman. Umhverfis safnið er höggmyndagarður og prýða hann nær þrjátíu höggmyndir listamannsins. Ásmundur Sveinsson var einn af frumkvöðlum höggmyndalistar á Íslandi og sótti innblástur í íslenska náttúru og bókmenntir sem og til þjóðarinnar sjálfrar.

Verslun
Í Ásmundarsafni er safnverslun þar sem boðið er upp á úrval innlendra og erlendra listaverkabóka og sýningarskráa sem safnið hefur gefið út í gegnum árin, einnig eru afsteypur af verkum Ásmundar Sveinssonar til sölu í versluninni. Verslunin er opin á opnunartíma safnsins.

Leiðsögn

Í Ásmundarsafni er tekið á móti nemendum og öðrum hópum, sem óska eftir leiðsögn um sýningarnar.
Nánari upplýsingar í síma 590 1200 eða á netfangið: fraedsludeild@reykjavik.is

Um heimsókn í Ásmundarsafn
Gestir eru vinsamlegast beðnir um að snerta ekki listaverkin í safninu.
Barnavagnar, bakpokar, stórar töskur, regnhlífar og aðrir fyrirferða miklir hlutir eru ekki leyfðir í sýningarsölunum.

Um listamanninn
Ásmundur Sveinsson var einn af frumkvöðlum íslenskrar höggmyndalistar. Hann var á meðal þeirra sem kynntu fyrir Íslendingum nýja formskrift í myndlist 20. aldar. Verkum hans var ekki alltaf jafn vel tekið, en með tímanum hafa þau fest sig í sessi sem ein af birtingarmyndum íslenskrar sagnahefðar, samfélags og náttúru á 20. öld. Hann stundaði nám við Sænsku listakademíuna undir handleiðslu myndhöggvarans Carls Milles. Þar kynntist hann viðteknum hugmyndum um að höggmyndalistin ætti að vera hluti af landslagi borgarinnar.  Í lok 3.áratugarins dvaldist hann í París um nokkurra ára skeið. Borgin var þá helsta miðstöð samtímalistar og dvölin þar mótaði myndlist Ásmundar ekki síður en námsárin í Stokkhólmi.

Ásmundur hélt alla tíð tryggð við þá hugmynd að listin ætti erindi til fólksins og ætti heima á meðal þess. Hann var kallaður alþýðuskáldið í myndlist og án efa á þessi hugsjón rætur að rekja til lífsafstöðu hans, ekki síður en höggmyndahefðarinnar.
Flest verk hans voru hugsuð sem hluti af opinberu rými, órofa hluti af umhverfi sínu eða útfærð sem hönnun og nytjahlutir.

Ásmundarsafn
Ásmundur Sveinsson myndhöggvari ánafnaði Reykjavíkurborg verk sín ásamt heimili sínu eftir sinn dag. Ásmundarsafn í Sigtúni var opnað formlega vorið 1983. Í safninu eru haldnar sýningar á verkum listamannsins, sem og verkum annarra. Í garðinum við safnið er einnig að finna mörg verka Ásmundar sem hafa verið stækkuð eða unnin sérstaklega til að standa utandyra.

Alls eru nú skráð 2362 listaverk eftir Ásmund Sveinsson hjá Listasafni Reykjavíkur, þar af eru 384 höggmyndir. Önnur verk eru skissur og teikningar til undirbúnings, vatnslitamyndir og önnur myndverk.

Á Listasafni Reykjavíkur er unnið markvisst að því að steypa höggmyndir Ásmundar í varanleg efni og tryggja þannig að safnið geti gefið sem besta mynd af öllum ferli listamannsins.

Bækur um Ásmund Sveinsson

Á Listasafni Reykjavíkur, í Hafnarhúsi og á Kjarvalsstöðum eru til sölu bækur sem spanna feril listamannsins.

Myndbönd

Tengt efni

Eldri tölublöð
Efnisyfirlit
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga