Þegar kóngur kom . Eftir Helgi Ingólfsson

Frumleg söguleg skáldsaga og spennusaga í senn.
Bjarney Hinriksdóttir hannaði kápu.Mynd á kápu er eftir Arthur W. Fowles.

Í þeirri andrá þegar Kristján IX drepur fyrstur konunga fæti hér á land, að viðstöddum fagnandi Reykvíkingum, hyggst lífsglöð stúlka nýta tækifærið og eiga launfund undir steinvegg við Hólavallakirkjugarð, en mætir þess í stað örlögum sínum og kornungt barn hennar hverfur.

Slóð stúlkunnar hefur legið víða, meðal skólapilta Lærða skólans jafnt sem útlendra sjóliða, enda faðerni barnsins á reiki. Tveir ólíklegir menn, Hjaltalín og Borgfjörð, taka að sér rannsókn málsins í kyrrþey, aðstoðaðir af skólapiltinum Móritz, sem segir söguna.

Í þessari litríku, sögulegu skáldsögu er endurskapað andrúm liðinna tíma, þegar menn voru upprifnir af ættjarðarást og þó trúir sínum arfaherra. Þetta er saga af því þegar Ísland komst fyrst í erlendar fréttir, þegar Frónbúar neyddust til að undirbúa sína fyrstu stórhátíð, frásögn af kóngi og kotbýlingum, skólapiltum og skáldum, embættismönnum og efristéttarkonum, þénustupíum og þurrabúðarkörlum.

Fjöldi þjóðþekktra manna kemur við sögu, svo sem Gestur Pálsson, Halldór Kr. Friðriksson, Matthías Jochumsson, Steingrímur Thorsteinsson, Sigurður málari, Grímur Thomsen og Sæfinnur á sextán skóm  auk ýmissa síður kunnra.

„Við lestur Þegar kóngur kom kom ítrekað í hugann að þessa bók yrðu MR-ingar að lesa, nemendur sem kennarar. Í rauninni líka þeir sem hafa áhuga á sögu Reykjavíkur - og þeir sem hafa áhuga á spennusögum.“
Einar Falur Ingólfsson, Sunnudagsmogganum 10. jan. 2010


Helgi Ingólfsson (f. 1957) lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Tjörnina 1977, prófi í uppeldis- og kennslufræði 1988 og B.A.-prófi í sagnfræði og bókmenntafræði frá Háskóla Íslands árið 1994. Hann hefur kennt sögu, Íslandssögu jafnt sem mannkynssögu og listasögu, við Menntaskólann í Reykjavík frá 1984 og aðstoðaði við gerð Íslensku alfræðiorðabókarinnar 1988-1990.

Fyrsta bók Helga, Letrað í vindinn : samsærið, kom út árið 1994. Sögusviðið er Róm á tímum keisaraveldisins. Fyrir söguna hlaut Helgi Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar sama ár. Ári síðar kom út sjálfstætt framhald fyrri bókarinnar; Letrað í vindinn :  þúsund kossar.

Eftir þetta sagði Helgi skilið við Rómaveldi sem sögusvið og færði sig yfir í gamansamar og farsakenndar frásagnir úr íslenskum samtíma. Hann hefur nú sent frá sér fjórar slíkar sagnir, Andsælis á auðnuhjólinu (1996), Blá nótt fram í rauða bítið (1997),  Þægir strákar (1998) og Lúin bein (2002).

Nýjasta bók Helga er Þegar kóngur kom (2009). Fyrir hana fékk hann Blóðdropann 2010, viðurkenningu Hins íslenska glæpafélags.

Kvikmyndin Jóhannes með Ladda í aðalhlutverki, sem var frumsýnd 15. október 2009, er gerð eftir sögunni Andsælis á auðnuhjólinu.

Eftir Helga liggja einnig smásögur, ljóð og greinar í fagtímaritum. Hann hefur einnig fengist við gerð námsefnis.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Efnisyfirlit
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga