Hreinsun. Eftir Sofi Oksanen


Aliide á ekki von á góðu þegar hún finnur ókunnuga stúlku, Zöru, hrakta og hrjáða í garðinum sínum einn morguninn. Er stúlkan þar af algerri tilviljun eða ætlaði hún sér einmitt á þennan stað? Aliide veitir henni húsaskjól og smám saman kemst hún að því að saga þeirra Zöru er samfléttuð, og fyrir lesanda opnast víð sýn yfir harmsögu Eista á liðinni öld.

Hreinsun er bókmenntaviðburður, margradda skáldsaga um reynslu fólks í Eistlandi undir hæl Sovétríkjanna. Jafnframt er frásögnin nærgöngul lýsing á tveim konum sem eru ítrekað beygðar og niðurlægðar en rísa alltaf upp á ný.

Sagan hefur fært Sofi Oksanen fjölmörg virt verðlaun og viðurkenningar, nú síðast Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs.

Sigurður Karlsson þýddi.


„… gríðarlega merkileg bók og góð skáldsaga … Sálfræðitryllir.“
Þorgerður E. Sigurðardóttir / Kiljan

„… óskaplega spennandi … þetta er bara algjört meistaraverk … frábær bók í alla staði. Þó að sagan sem hún segi sé býsna nöturleg – bæði sagan af stelpunni í nútímanum og bóndakonunni – þá er þetta ekki deprímerandi bók.  Henni tekst að sneiða hjá því að maður fyllist þunglyndi eða vonleysi eða bölmóði við að lesa hana. Og hún er afskaplega vel þýdd hjá Sigurði Karlssyni.“
Illugi Jökulsson  / Kiljan

„Hún hefur slíkar víddir þessi skáldsaga að það er ekki hægt annað en vera gríðarlega hrifinn af henni. Þetta er alger snilldarbók … ofboðslega góð skáldsaga.“
Egill Helgason / Kiljan

„Hreinsun nötrar af spennu: vel falin leyndarmál og skammarlegir verknaðir sem persónur ýmist fremja eða verða fyrir breiða sig um söguna eins og kóngulóarvefir og toga lesandann áfram.“
Hufudstadsbladet

„Hreinsun gerist á tvennum tímum í Eistlandi en þemu bókarinnar, ást, svik, vald og valdaleysi, eru tímalaus. Á óvenju nákvæmu og beinskeyttu tungumáli lýsir höfundur hvernig sagan fer með einstaklinginn og hvernig fortíðin býr um sig í nútímanum.“
Úr áliti verðlaunanefndar Norðurlandaráðs

Höfundur: Sofi Oksanen

Sofi Oksanen fæddist 1977, faðir hennar er finnskur en móðirin eistnesk. Hún ólst upp í Finnlandi en var á sumrin hjá ömmu sinni í Eistlandi og hlustaði á endalausar sögur af dramatískum átökum Eista, bæði innbyrðis og við herraþjóðina Rússa.  Enda gerði Sofi pólitískan klofning Evrópu að umfjöllunarefni strax í sinni fyrstu bók, Kúm Stalíns (2003). Hún er að líkindum talsvert sjálfsævisöguleg því söguhetjurnar eru mæðgur og sú yngri er fædd sama ár og Sofi og á einmitt einstneska móður og finnskan föður. Þessi blandaði uppruni veldur stúlkunni bæði sálrænum  og félagslegum erfiðleikum  sem Sofi dregur skýrt upp í bókinni. Fyrir Kýr Stalíns hlaut hún Finlandia verðlaunin, yngst allra höfunda, og skipaði sér um leið í röð fremstu rithöfunda Finnlands af yngri kynslóðinni. Í næstu sögu, Baby Jane (2005), fjallar hún um tilvistarvanda ungra kvenna á nýstárlegan hátt og vakti sömuleiðis mikla athygli. En það var með Hreinsun (2008) sem hún sló endanlega í gegn á heimsmælikvarða.

Styrkur bókarinnar er ekki síst að sína stóru sögu segir Sofi með hjálp tveggja ólíklegra söguhetja. Önnur er gömul og tortryggin kona sem hefur aldrei farið úr sinni eistnesku sveit, hin er lítt skólagengin stelpa, illa farin á sál og líkama eftir að hafa verið flutt sem kynlífsleikfang milli landa. Þær verða lesanda ótrúlega nákomnar í sögunni og skilja ekki við hann þaðan í frá.

Sofi lærði leikhúsfræði og Hreinsun var upphaflega leikrit sem sýnt var við gríðarlegar vinsældir í finnska þjóðleikhúsinu. Þjóðleikhúsið hér hefur tryggt sér sýningarrétt á því og ætlunin er að setja það upp haustið 2011.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Efnisyfirlit
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga