Gleðileikurinn guðdómlegi. Eftir Dante Alighieri

Gleðileikurinn guðdómlegi eftir ítalska skáldið Dante Alighieri (1265–1321) var saminn á árunum 1307–1320 og hefur æ síðan verið eitt vinsælasta, virtasta og áhrifamesta bókmenntaverk í hinum vestræna heimi.

Í kvæðinu segir Dante frá ferð sinni um handanheima, víti, hreinsunareld og paradís, í fylgd rómverska skáldsins Virgils og sinnar ástkæru Beatrísar. Hann lýsir í auðugu máli og af djúpri samúð örlögum ótal manna sem hann hittir á leið sinni og fléttar listilega saman forna tíma og samtíma sinn.

Nú kemur Gleðileikurinn í fyrsta sinn út í heild á íslensku í meistaralegri lausamálsþýðingu Erlings E. Halldórssonar sem er löngu landskunnur fyrir þýðingar sínar, meðal annars á Gargantúa og Pantagrúl eftir Rabelais, Satýrikon eftir Gajus Petróníus, Tídægru Boccaccios og Kantaraborgarsögum eftir Chaucer. Erlingur ritar einnig formála að verkinu.

Bókin er rúmlega 500 síður og prýða hana myndir eftir Gustave Doré (1832–1883).

„Það er ástæða til að fara fögrum orðum um þá viðleitni Erlings að þýða þessi stórvirki. Og það má líka gefa útgáfunni eitt fallegt prik fyrir að standa vel að þessum verkum öllum. … Þarna eru ítarlegar skýringar og afskaplega vandaðar. Þetta er afskaplega vandað og afar læsilegt og skemmtilegt hjá Erlingi. “
Illugi Jökulsson / Kiljan

„Þetta er falleg útgáfa, vönduð og góðar skýringar. Gleðileikurinn er ferðalag með upphafi og endi, spennandi og flýtur vel. Afskaplega fallegur texti og vel þýddur. Ég hafði unun af því að lesa þessa bók.“
Þorgerður E. Sigurðardóttir / Kiljan

„Þetta er lykilverk í heiminum.“
Egill Helgason / Kiljan

,,Það er þó fjarska freistandi að halda því fram að merkustu tíðindin, allavega með þeim allra merkilegustu, sé heildarþýðing Erlings. E. Halldórssonar á Gleðileiknum guðdómlega eftir Dante.
Bókin er nýkomin út og það fylgir því sönn gleði að fá hana í hendur. Þetta er falleg bók, eins og maður vill hafa klassískar bækur …”
Kolbrún Bergþórsdóttir / Morgunblaðið

Sumar bækur eru þess eðlis að í hugum manna geyma þær heimsmynd heils tímabils. Svo er með ljóðaflokkinn La Divina Commedia eða Gleðileikinn guðdómlega en hann er talinn gefa einna besta mynd af heimsskilningi endurreisnarmanna á síðmiðöldum á Ítalíu. Því hefur höfundur ritsins, Dante Alighieri, verið talinn einn mikilvægasti höfundur heimsbókmenntanna. Það teljast því nokkur tíðindi þegar slík bók kemur út í íslenskri þýðingu Erlings E. Halldórssonar. Þýðing hans er vönduð prósaþýðing og full með orðkynngi. … Hann velur að nota málfar sem er dálítið fyrnt og sértækt og minnir á köflum á miðaldamál íslenskt. Þetta er kjarnmikið mál en þó auðvelt aflestrar. Það styrkir þýðinguna og tengir hana betur við ritunartímann. Þetta rit er því meistaraverk.“
Skafti Þ. Halldórsson / Morgunblaðið

****½
Gleðileikur Dantes er eitt þeirra verka sem vestrænar bókmenntir skilgreina sig út frá … það er allt í senn dramatískt, epískt og ljóðrænt, bundið sínum tilurðartíma og óháð honum. Í því náðu miðaldabókmenntirnar listrænum hátindi.”
Jón Viðar Jónsson / DV


Erlingur E. Halldórsson Tilnefndur fyrir Gleðileikinn guðdómlega eftir Dante Alighieri


Erlingur E. Halldórsson (f. 1930) fékkst fyrr á árum einkum við leikstjórn og leikritagerð en hefur í seinni tíð snúið sér æ meir að þýðingum sígildra meistaraverka frá fornöld og miðöldum og sent frá sér þýðingar á verkum eftir höfunda á borð við Rabelais, Petróníus, Apúleius, Boccaccio og Chaucer. Fyrir þýðingu sína á Rabelais hlaut hann heiðursverðlaun frönsku Akademíunnar árið 1993.
Nú hefur þýðing hans á Gleðileik Dantes bæst í hópinn, og er það mikill fengur og fagnaðarefni íslenskum lesendum að eignast loks þetta öndvegisverk vestrænna bókmennta á íslensku í heild sinni. Verkið leiðir lesandann inn í hugarheim miðalda og lýsir leiðsluferð skáldsins um handanheima þar sem birtast ýmis stig mannlegrar reynslu, allt neðan frá dýpsta víti illsku og kvala og til uppheima ljóss og sælu. Á frummálinu er Gleðileikurinn kveðinn undir svonefndum tersínahætti með þríteknu rími sem knýr frásögnina áfram, en lausamálsþýðing Erlings nær þó á sinn hátt með kjarnmiklu orðfæri að gera ferðalýsinguna ljóslifandi og koma til skila þeim lærdómi sem af henni má draga.

Hinn guðdómlegi gleðileikur (eða Gleðileikurinn guðdómlegi) (ítalska: la Divina Commedia) er ítalskt söguljóð sem Dante Alighieri skrifaði á árunum frá 1308 og lauk við rétt fyrir dauða sinn árið 1321. Dante segir í kvæðinu frá ímynduðu ferðalagi sínu um Víti, Hreinsunareldinn og Paradís, en um hina fyrstu tvo staði fer hann í fylgd rómverska skáldsins Virgils og um Paradís í fylgd sinnar ástkæru Beatrísar. Gleðileikurinn guðdómlegi telst til leiðslukvæða. Það er talið vera ein helsta perla ítalskra bókmennta.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Efnisyfirlit
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga