Doris deyr. Eftir Kristín Eiríksdóttir

Með Doris deyr kveður Kristín Eiríksdóttir sér hljóðs á eftirminnilegan hátt og smeygir sér af lipurð milli heims og orða. Hér getur að líta manneskjur í allri sinni fegurð og grimmd sem elska, reiðast, harma og vita að mennskan er ekki einungis brothætt heldur líka ósigrandi!
Kristín Eiríksdóttir er í hópi okkar athyglisverðustu ungu höfunda. Sögurnar í þessu fyrsta smásagnasafni hennar eru skrifaðar af næmi og ímyndunarafli og eru í senn vægðarlausar og ríkar af samúð. Kristín hefur áður gefið út ljóðabækurnar Kjötbæinn 2004, Húðlitu auðnina 2006 og Annarskonar sælu 2008. Einnig hafa ljóð og sögur eftir hana birst í ýmsum tímaritum hér heima og erlendis.

Kristín Eiríksdóttir fæddist árið 1981 í Reykjavík. Hún hefur áður gefið út ljóðabækurnar Kjötbæinn 2004, Húðlitu auðnina 2006 og Annarskonar sælu 2008. Einnig hafa ljóð og sögur eftir hana birst í ýmsum tímaritum hér heima og erlendis.

Umsagnir:
Árið 2004 kvaddi kornung skáldkona sér eftirminnilega hljóðs með áleitinni og ofskynjunarkenndri frásögn af stúlku sem var „föl sökum inniveru, einræn sökum einveru inniveru,“ bjó í blokkaríbúð með dreng að nafni Kalvin og átti nágranna sem var „ógeðslegur skratti sem sendir illsku yfir til okkar með rafeindabúnaði.“
Gagnrýnendur voru hrifnir þessu myrka en undarlega kímna verki: „Kraftmikil fyrsta bók,“ sagði Morgunblaðið, og Fréttablaðið tók í svipaðan streng: „Það er kraftur í þessari yfirlætislausu bók.“

Bókin, sem sveif einhvernveginn mitt á milli ljóðsins og smásögunnar, hét Kjötbærinn, og skáldkonan unga var Kristín Eiríksdóttir. Hún hefur síðan þá sent frá sér tvær ljóðabækur, Húðlita auðnina (2006) og Annarskonar sælu (2008), sem festu hana í sessi sem einn af eftirtektarverðustu höfundum landsins, og í október 2010 er væntanlegt frá JPV smásagnasafn sem bera mun titilinn Doris deyr.„Það er persóna í einni sögunni sem heitir Doris,“ útskýrði hún fyrir Sagenhaftes Island, daginn eftir að hafa skilað handritinu í prent. „Hún deyr.“ Hún vill þó sem minnst segja um safnið áður en það kemur út, en þó fæst hún til að viðurkenna að það sé hefðbundnara í sniðum en verk hennar hafi verið til þessa.

„Þetta er svolítið nýr kafli hjá mér. Ég skrifaði sögurnar í Kanada, í Suður-Ameríku og á Íslandi, þannig að það er örugglega ólík stemning í þeim. Þetta eru tíu smásögur sem gerast víðsvegar í heiminum. Þær eru um mismunandi persónur en tengjast kannski að einhverju leyti, og það eru kannski þræðir sem liggja í gegnum allar sögurnar.“

Aldrei nein vissa
Kristín, sem stundar nú framhaldsnám í myndlist í Montreal, viðurkennir að hún öfundi stundum kvikmyndaformið: „Ég er algjört kvikmyndanörd, og margir leikstjórar hafa haft áhrif á mig. Stundum hugsa ég með mér: Af hverju er ég að skrifa, fyrst myndir eru það sem mín kynslóð skilur best? En svo átta ég mig á því að textinn er miklu sterkari. Þegar maður les verður maður sjálfur að fylla upp í eyður, á meðan kvikmyndin er alltaf að dæla í mann. Textinn verður alltaf persónulegri í hausnum á manni. Hann gefur manni það að maður verður að gefa sjálfur.“

Það stendur heima að stíll Kristínar einkennist einmitt af dularfullum gloppum og eyðum í textanum, sterkum gruni um að miklu meira hangi á spýtunni en beinlínis sé sagt. „Ég hef verið að leika mér með mjög óljósa narratífu – að það sé tilfinning fyrir einhverjum atburði en aldrei nein algjör vissa.“

Þrátt fyrir þessa óræðni er stíll Kristínar afar myndrænn, og mikið um sláandi líkamlegar, og jafnvel grimmdarlegar lýsingar í textum hennar. „Ég veit ekki hvernig ég ætti að vera listamaður og ekki brútal,“ segir hún. „Hvaðan fengi ég innblástur í það?“
Teki af vef: www.sagenhaftes-island.is


Tengt efni

Eldri tölublöð
Efnisyfirlit
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga