Árstíðirnar. Þórarinn og Sigrún Eldjárn

Myndskreyttar vísna- og kvæðabækur systkinanna Sigrúnar og Þórarins Eldjárns hafa notið gríðarlegra vinsælda í gegnum árin. Nú bætist ein bráðskemmtileg í safnið. Hér er ort um sumarsól, slyddu og jól, haustverkin og fuglana og allt þar á milli.

Árstíðirnar eru bara fjórar,
ólíkar og misjafnlega stórar.
Hvort ein er annarri betri
fer eftir skapi og smekk:
VORIÐ kemur úr vetri
og vermir fremsta bekk.
SUMAR svo úr vori
með sólskin þindarlaust.
Þá sprettur allt úr spori
og spírar fram á HAUST.
Haustið kólnar svo heldur betur,
harðnar og breytist í VETUR.

Sigrún Eldjárn er fædd 3. maí 1954. Hún lauk stúdentsprófi frá MR 1974 og prófi frá Myndlistar- og handíðaskóla Íslands árið 1977. Hún hefur ritað og myndskreytt á fimmta tug barnbóka.
Fyrsta bók Sigrúnar var Allt í plati (1980) þar sem blandað var saman frásagnaraðferð hefðbundinnar myndabókar fyrir börn og myndasagna með talblöðrum, sem þá nutu mikilla vinsælda. Síðan þá hefur Sigrún fléttað texta og myndir saman í bókum sínum á allan mögulegan máta og oft mjög frumlega.
Sigrún Eldjárn hlaut Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar og skólamálaráðs árin 1987 og 1992, og Barnabókaverðlaun fræðsluráðs Reykjavíkur árið 1998 ásamt Þórarni Eldjárn. Árið 1998 var hún tilnefnd til H.C. Andersen-verðlaunanna fyrir ritstörf og myndskreytingar og ári síðar hlaut hún menningarverðlaun VISA fyrir myndlist og barnamenningu. Sigrún hlaut viðurkenningu Barnabókaráðs IBBY 1988 og árið 1999 var bókin Málfríður og tölvuskrímslið valin á alþjóðlegan heiðurslista IBBY. Árin 1998 og 1999 var Sigrún tilnefnd til Norrænu barnabókaverðlaunanna fyrir myndskreytingar og árið 2003 var hún enn á ný tilnefnd til þeirra verðlauna, þá fyrir höfundarverkið allt með sérstakri áherslu á Frosnu tærnar. Þá bók völdu bóksalar bestu íslensku barnabókina árið sem hún kom út og bókin var jafnframt tilnefnd til Vestnorrænu barnabókaverðlaunanna. Árið 2006 fékk Sigrún Vorvindaviðurkenningu IBBY á Íslandi fyrir framlag sitt til barnabókmennta og ári síðar fékk hún Sögustein, barnabókaverðlaun IBBY á Íslandi og Glitnis, fyrir ritferil sinn. 2007 hreppti Sigrún Dimmalimm – íslensku myndskreytiverðlaunin fyrir Gælur, fælur og þvælur, og 2008 var Sigrún sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag sitt til íslenskrar barnamenningar.
Sem myndlistarmaður hefur Sigrún  einkasýningar og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum innan lands og utan.

Þórarinn Eldjárn (f. 1949) á að baki langan höfundarferil en fyrsta ljóðabók hans kom út árið 1974. Hann hefur haft skýra sérstöðu meðal íslenskra skálda. Þekktastur er hann fyrir glímu sína við hið hefðbundna ljóðform en einnig hvernig hann hefur unnið úr íslenskum menningararfi með ísmeygilegri gamansemi sinni sem tíðum reynist egghvöss þegar betur er að gáð. Þórarinn er eitt ástsælasta skáld þjóðarinnar; bækur hans hafa jafnan notið mikilla vinsælda og iðulega verið á metsölulistum. Hann er gríðarlega fjölhæfur og hefur sent frá sér verk í flestum greinum bókmennta: ljóðabækur í hefðbundnu formi og frjálsu, smásögur, skáldsögur, leikrit og barnaljóð, auk þess sem hann hefur verið afkastamikill þýðandi og höfundur söngtexta.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Efnisyfirlit
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga