Ljóð af ættarmóti. Eftir Anton Helgi Jónsson

Í ljóðabók Antons Helga Jónssonar heyrum við raddir fólks á ættarmóti, eins og nafnið bendir til. Það fagnar gömlum vinum, segir slúðursögur, rifjar upp minningar, harmar liðna tíð, þráir liðna tíð, játar syndir sínar, opinberar syndir annarra, skammast út í aðra, skammast sín, áfellist yfirvöld eða engist um af samviskubiti. Hér geta allir heyrt í sjálfum sér – þú líka.

Ekki hæla mér fyrir dugnað.
Ég lærði á klukku fimm ára.
Síðan hef ég alltaf mætt á réttum tíma.

Ég sinnti öllu sem ætlast var til af mér.
Stóð alltaf í skilum.
Var engum til ama.

Ekki hæla mér fyrir dugnað.
Ég sat af mér lífið í ágætu starfi.

Anton Helgi hefur hlotið lof og viðurkenningar fyrir ljóð sín, meðal annars Ljóðstaf Jóns úr Vör. Ljóð af ættarmóti er fimmta ljóðabók hans.


„Þetta er hollur skáldskapur.  … Hér má víða hlæja en hláturinn er sprottinn af tragikómískum harmi trúðsins en ekki grodda gleðimannsins. Fín bók fyrir ferlega tíma.”
Páll Baldvin Baldvinsson / Fréttatíminn

„Mér finnst þessi bók alveg óskaplega góð sending … [Anton Helgi] er fyndinn en líka djúpur … Ég mæli eindregið með þessari bók.“
Kolbrún Bergþórsdóttir / Kiljan


„Þetta er orginal og flott ljóðabók … margradda og víða mjög skemmtileg  … eiginlega getur hvert mannsbarn sest niður og lesið hana sér til skemmtunar og yndisauka.“
Páll Baldvin Baldvinsson / Kiljan

 
Höfundur:Anton Helgi Jónsson
Anton Helgi Jónsson fæddist í Hafnarfirði 15. janúar 1955 en flutti tólf ára til Reykjavíkur og hefur verið búsettur þar lengst af ævinnar. Hann gaf út sína fyrstu ljóðabók árið 1974, Undir regnboga, en verulega athygli vakti næsta bók hans sem líka var ljóðabók: Dropi úr síðustu skúr (1979). Skáldsagan Vinur vors og blóma kom út 1982 en ekki varð framhald á skáldsöguskrifum Antons Helga. Ljóðaþýðingar úr belgísku komu út 1991 – og þrátt fyrir titilinn voru það frumsamin ljóð en ekki þýdd. Árið 1994 sýndi Leikfélag Reykjavíkur leikritið Ófælnu stúlkuna eftir Anton Helga í Borgarleikhúsinu og einnig samdi hann leikþætti fyrir Útvarpsleikhúsið en það varð bið á ljóðum. 2006 kom þó út limrukverið Hálfgerðir englar og allur fjandinn sem var að vísu meira grín en alvara en þó forboði þess að Anton Helgi væri farinn að yrkja aftur. 2009 hlaut hann Ljóðstaf Jóns úr Vör fyrir ljóð sitt „Einsöngur án undirleiks“ sem vakti mikla athygli, og haustið 2010 kom svo ljóðabókin sem beðið hafði verið eftir í nærri tuttugu ár: Ljóð af ættarmóti.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Efnisyfirlit
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga