Volcano Island. Eftir Sigurgeir Sigurjónsson

Út er komin ljósmyndabókin Volcano Island eftir Sigurgeir Sigurjónsson. Stórbrotin bók sem fangar sögulegan tíma.
Í bókinni má finna einstakar myndir af gosunum í Eyjafjallajökli og á Fimmvörðuhálsi ásamt fróðleik um tildrög gosanna og framvindu í samhengi við jarðsögu Íslands. Sigurgeir fór í ótal ferðir upp að gossvæðunum í vor en í bókinni má aukinheldur finna myndir eftir fleiri ljósmyndara.

Texta bókarinnar ritar Sigurður Steinþórsson prófessor í jarðfræði.

Sigurgeir Sigurjónsson  þekkir landslagið þarna syðra afar vel enda hefur hann um áratugaskeið myndað náttúruperlur landsins. Hann er án efa vinsælasti náttúruljósmyndari okkar Íslendinga en bækur hans, á borð við Lost in Iceland, The Little Big Book og Íslendingar, hafa selst í tugþúsundum eintaka.

Bókin er 144 síður í mjúku broti, texti hennar er á ensku.

Sigurgeir Sigurjónsson fæddist í Reykjavík árið 1948. Hann lærði ljósmyndun árin 1965-1969 og var síðan við framhaldsnám í ljósmyndaskóla Christer Strömholm í Stokkhólmi 1970-1971 og í San Diego, Kaliforníu, 1980-1981.

Sigurgeir býr og starfar í Reykjavík.

Verk hans hafa birst í fjölda bóka. Sú fyrsta, Svip-myndir, kom út árið 1982, og 1992 kom út fyrsta bók hans með landslagsmyndum, Íslandslag. Í kjölfar hennar komu út nokkrar vinsælustu ljósmyndabækur um Ísland og Íslendinga sem gefnar hafa verið út: Ísland – landið hlýja í norðri, árið 1994, Amazing Iceland 1998 og Where nature shines 1999, auk bókanna Reykjavík – A city for all seasons 1999 og The world of moving water 1999. Árið 2002 kom svo út bókin Íslandssýn eða Lost in Iceland, árið 2006 landið okkar eða Found in Iceland og síðan Made in Iceland árið 2007. Með Unni Jökulsdóttur vann Sigurgeir bókina Íslendingar sem kom út árið 2004.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Efnisyfirlit
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga