Kvöldverðurinn - kilja. Eftir Herman Koch

Bræðurnir Paul og Serge sitja á glæsilegum veitingahúsi ásamt eiginkonum sínum. Á yfirborðinu virðist allt slétt og fellt. Þau spjalla um kvikmyndir, sumarleyfi … en allt annað hvílir á þeim eins og mara: Fimmtán ára synir þeirra hafa framið ódæðisverk sem vekur óhug hjá þjóðinni og aðeins foreldrarnir vita hverjir hinir seku eru – enn sem komið er.
Eiga þau að horfast í augu við voðaverkið og kalla drengina til ábyrgðar? Eða eiga þau að vernda synina og orðspor fjölskyldunnar hvað sem það kostar?
Einstaklega vel fléttuð og spennandi saga sem vakið hefur heimsathygli.

Höfundurinn Herman Koch er þekktur fyrir ágengan stíl;  verk hans enduróma  skilning á mannlegum breyskleika og flóknum samskiptum fólks. Verðlaunasaga þessi var valin bók ársins í Hollandi árið 2009.

Jóna Dóra Óskarsdóttir þýddi.


„Þetta er mjög kænlega samin bók.“
Páll Baldvin Baldvinsson / Kiljan

„… mjög vel samin bók og það er stöðugt verið að koma manni óvart.“
Kolbrún Bergþórsdóttir / Kiljan

„… grípandi og vel skrifuð … Koch á auðvelt með að byggja upp spennu … full af nýjum og óvæntum vendingum sem halda lesandanum við efnið þannig að erfitt er að leggja hana frá sér.“
Karl Blöndal / Morgunblaðið


„…bók sem skilur lesandann eftir með verulega óþægilegar  spurningar um fjölskyldu, ást og tryggð ekki síður en grimmd, ofbeldi og mannlegt eðli. Hreint ekki notaleg lesning – en grípandi, vel skrifuð og  meinfyndin.“
Maríanna Clara Lúthersdóttir  / Kritik.is

„…negldi mig fasta þar til yfir lauk … Ég játa mig sökker fyrir „Kvöldverðinum“. Höfundur kom aftan að mér hvað eftir annað og hélt mér á tánum frá byrjun til enda.“
Jenny Anna Baldursdóttir / eyjan.is

„Sannkallaður sagnameistari.“
Trouw

Kvöldverðurinn
Herman Koch. Jóna Dóra Óskarsdóttir þýddi. JPV, 2010
Gjald hamingjunnar

Tvö gerólík verk komu upp í huga mér við lesturinn á skáldsögu Herman Koch, Kvöldverðurinn. Annarsvegar smásaga Svövu Jakobsdóttur, “Veisla undir grjótvegg” (1967) og hinsvegar kvikmynd austurríska leikstjórans Michael Haneke, Benny’s Video (1992). Saga Svövu lýkur á veislu í nýbyggðu húsi hjóna sem virðast á barmi skilnaðar og gjaldþrots, eiginmaðurinn fylgist með gestum sínum og öfundar eitt parið af samlyndi þeirra; svo virðist sem þau hafi fullkomin samskipti sín á milli með augnaráðum. Kvikmynd Haneke segir frá stráklingnum Benny sem drepur skólasystur sína, að því er virðist aðallega til að geta tekið morðið upp á nýju vídeóvélina sína. Foreldrar hans hylma yfir morðinu en í lokin er það hann sjálfur sem fer til lögreglunnar, með vídeóupptöku af samtali foreldranna um ákvörðun þeirra að fela líkið og koma ekki upp um soninn.

Bæði verkin koma óþægilega við lesanda / áhorfanda og Kvöldverðurinn gerir það líka, en þar er einmitt fjallað um hamingjusama fjölskyldu - hjónin skiptast á augnaráðum og ofurlitlum höfuðhreyfingum og skilja hvort annað fullkomlega - og svo glæp sonarins, sem foreldrarnir hylma yfir. Þó er Kvöldverðurinn augljóslega allt öðruvísi en þessi verk.

Segja má að grunnstefið sé siðleysi, og þá fyrst og fremst siðleysi vel stæðra vesturlandabúa. Þetta kemur þó alls ekki í ljós fyrr en nokkuð er liðið á söguna - eða rétt þegar aðalrétturinn er borinn fram. Rammi verksins er einmitt kvöldverður, tveir bræður og konur þeirra hittast á fínu veitingahúsi að undirlagi eldri bróðurins, sem er þekktur stjórnmálamaður, mögulega næsti forsætisráðherra. Í fyrstu er tilefnið ekki ljóst en svo kemur á daginn að ástæðan er glæpur sem synir bræðranna hafa framið og er enn sem komið er óupplýstur; svo virðist sem aðeins foreldrarnir (og ekki einu sinni allir, eiginkona stjórnmálamannsins veit ekkert) viti af verknaði sona sinna og hafi hingað til haldið vitneskju sinni leyndri.

Það er eitthvað ótrúlega einfalt og snjallt við það hvernig kvöldverður á fínu veitingahúsi, með tilheyrandi nákvæmum lýsingum á hverjum einasta rétti (hverri einustu furuhnetu, laufblaði, sósudropa...), er settur upp sem andstæða siðleysisins sem býr að baki glæp strákanna, sem er dráp á heimilislausri konu. Ástæðan fyrir því að þeir drepa hana virðist fyrst og fremst sú að hún lyktar illa og truflar þá þegar þeir ætla að taka út pening í hraðbanka, til að geta fengið sér einn eða tvo bjóra að loknu skemmtikvöldi. Hræsnin og tvískinnungurinn er svo undirstrikaður enn með nærveru stjórnmálamannsins og frambjóðadans, en hann er augljós táknmynd yfirborðsmennsku og sjálfselsku - brosir stöðugt án þess að brostið nái til augnanna.

Sagan er sögð af hinum bróðurnum, þeim sem lifir hinu fullkomna fjölskyldulífi. Smátt og smátt kemur þó í ljós að hann er eitthvað dálítið úr jafnvægi og all-ofbeldisfullur, en svo virðist sem hann sé haldinn einhverju heilkenni, eða sjúkdómi, sem meðal annars hefur valdið því að hann getur ekki lengur sinnt starfi sínu, sem var sögukennsla. Og það er augljóst að hann þolir ekki bróður sinn og kærir sig ekki um að ræða glæp sonanna við hann.

Nú er dálítið snúið að segja meira og líklegast er ég búin að segja of mikið, en sagan er meistaralega smíðuð. Þetta kemur meðal annars fram í því hvernig spilað er með sögumanninn og tungumálið (sem skilar sér vel í frábærri þýðingu Jónu Dóru Óskarsdóttur), en í fyrstu hallast lesandi að sjónarhorni hans og hefur samúð með andúð hans á allri tilgerðinni í kringum kvöldverðinn og lífsstíl bróðurins. Jafnframt er komið inn á aðra samfélagslega þætti, eins og kynþáttafordóma og stöðu kvenna, auk stéttaskiptingar. Það er líka athyglisvert að siðferði sem slíkt er aldrei rætt, heldur er umræðan um það látin koma fram í þeim fjölmörgu minningum sögumannsins sem stinga sér inn á milli rétta máltíðarinnar.

Þannig er Kvöldverðurinn bók sem býður upp á og beinlínis kallar fram fjölmargar og ekkert endilega þægilegar hugleiðingar. Sú rödd sem er fulltrúi almennrar og næsta viðtekinnar gagnrýni á margt það sem er ámælisvert í vestrænum samfélögum reynist ekki vel og það í sjálfu sér hlýtur að krefja lesandann til umhugsunar um sína eigin stöðu og afstöðu.

Einnig er áhugavert að bera bókina saman við glæpasögur, og kannski ekki síst við umræðuna um glæpasögur, en þó hæpið sé að kalla Kvöldverðinn glæpasögu þá er hún samt sem áður saga um glæp, siðferði og réttlæti (eða skort á því). Sem er auðvitað það sem svo margar glæpasögur fjalla um. Í því samhengi má bera hana saman við aðra þekkta skáldsögu af glæpum og siðlausu samfélagi, Clockwork Orange eftir Anthony Burgess (1962), sem Kvöldverðurinn virðist reyndar vísa beinlínis til að einhverju leyti. Það sem greinir Kvöldverðinn hinsvegar að frá almennum glæpasögum og sögu Burgess er að það er enginn sannferðugur fulltrúi afstöðu gegn siðleysinu sem gerir skáldsögu Koch mun óhugnanlegri, þrátt fyrir að þar sé minna um nákvæmar lýsingar á glæpum. Og það er þar sem spurningin liggur; hvert er verð hamingjunnar? Hversu mikið erum við tilbúin að gjalda til að halda í okkar ‘hamingju’?

úlfhildur dagsdóttir
bokmenntir.is


Tengt efni

Eldri tölublöð
Efnisyfirlit
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga