Meistarar og lærisveinar. Eftir Þórbergur Þórðarson

Sumarið 2010 kom í fyrsta sinn út á bók í heilu lagi „stóra handritið“ hans Þórbergs Þórðarsonar sem höfundar ævisagna hans og fleiri hafa lengi vitnað til.  Þetta er að líkindum uppkast að þriðja bindi skáldævisögu hans, skrifað seint á fjórða áratugnum í kjölfar Íslensks aðals og Ofvitans. Í handritinu tekur Þórbergur upp þráðinn þar sem Ofvitanum sleppir og segir frá sjálfum sér allt fram til ársins 1925, auk nokkurra kafla sem gerast seinna, en handritinu var aldrei lokið. Það er varðveitt í Þjóðarbókhlöðunni.

Frásagnirnar í bókinni gefa góða mynd af lífi og hugðarefnum Þórbergs á þessum tíma. Hann skrifar um nám sitt við háskólann, lýsir ritstörfum, kveðskap og tilurð Bréfs til Láru, segir frá kvennamálum, guðspekiáhuga og esperantónámi af eldmóði og einstakri stílgáfu. Mesta skemmtun munu lesendur þó líklega hafa af óborganlegum lýsingum Þórbergs á Unuhúsi og gestum þess.

Arngrímur Vídalín bjó handritið til prentunar en Soffía Auður Birgisdóttir ritar formála.


„… prýðileg lesning og góð viðbót við við verk Þórbergs.“
Kolbrún Bergþórsdóttir / Morgunblaðið

Þórbergur Þórðarson er einn frumlegasti, hugmyndaríkasti og vinsælasti rithöfundur og hugsuður 20. aldar á Íslandi. Hann fæddist á Hala í Suðursveit en áhöld eru um hvort það var 12. mars árið 1888 eða 1889; segja kirkjubækur hið fyrra en foreldrar Þórbergs héldu því síðara fram og hélt hann sig sjálfur við það ártal. Á bernskuslóðum Þórbergs hefur nú risið glæsilegt Þórbergssetur með gistiaðstöðu, veitingasölu og myndarlegri og skemmtilegri sýningu þar sem gesturinn gengur í gegnum ævi Þórbergs.

Þórbergur hóf skáldferil sinn með ljóðabókunum Hálfir skósólar (1915) og Spaks manns spjarir (1917) undir dulnefninu „Styr Stofuglamm“ en landsþekktur varð hann fyrir Bréf til Láru árið 1924. Bókin er afar persónuleg og markar upphaf þeirrar skáldlegu umritunar Þórbergs á eigin ævi sem hann er fyrst og fremst dáður fyrir af löndum sínum. Meðal þekktustu bóka hans eru  Íslenskur aðall, Ofvitinn, Sálmurinn um blómið og Suðursveitarbækurnar (Steinarnir tala, Um lönd og lýði, Rökkuróperan og Fjórða bók). Hann skrifaði líka frægar ævisögur tveggja þjóðþekktra manna í mörgum bindum hvora, um Árna prófast Þórarinsson og Einar ríka.

Þórbergur lést árið 1974. Síðan hafa komið út nokkrar bækur með efni eftir hann, til dæmis unnið upp úr dagbókum hans og bréfum,  og um hann. Síðasta stórvirkið af síðastnefnda taginu er ævisaga hans eftir Pétur Gunnarsson sem komin er út í tveim bindum, ÞÞ í fátæktarlandi og ÞÞ í forheimskunarlandi (2007 og 2009).


Tengt efni

Eldri tölublöð
Efnisyfirlit
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga