Dýrin í Saigon. Eftir Sigurður Guðmundsson

Í Dýrunum í Saigon er Sigurður Guðmundsson myndlistarmaður fimmfaldur, því auk mannsins búa í honum hestur sem er skáld, samkynhneigður svanur, máfur sem tjáir sig eingöngu á ensku og fjórtán ára stelpa sem er heimspekingur. Þessi kvintett nýtur lífsins af áfergju, yrkir og myndar úr sér hin mikilfenglegustu listaverk.

Dýrin í Saigon (2010) er þriðja skáldsaga Sigurðar Guðmundssonar, skrifuð á tíu mánaða dvöl höfundar í Víetnam árið 2008. Þar gerir hann tilraun til að komast af án tungumáls, segja skilið við eigin menningu en lifa einsog viturt dýr. Þetta er í senn skáldlegt og heimspekilegt verk og óvenjuleg ástarsaga.

Fyrri sögur Sigurðar eru Tabúlarasa (1993) og Ósýnilega konan (2000) sem tilnefnd var til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Einsog þær er þetta einskonar flétta hefðbundins æviþáttar og skáldskapar.


(fjórar stjörnur)
„… í senn skáldskapur og heimspekileg tilraun um manninn… Bókin virkar því á mig sem ljóðrænt hugmyndaverk fullt með erótík þótt sú erótík verði aldrei beinlínis holdleg. Það merkilega við þetta flókna hugmyndaverk er hversu læsileg bókin er og aðgengileg þrátt fyrir allar hugmyndaflækjurnar.“
Skafti Þ. Halldórsson / Morgunblaðið

Sigurður Guðmundsson er fæddur 1942 og er einn frumlegasti, vinsælasti og virtasti myndlistarmaður sinnar kynslóðar. Hann hefur haldið ótal einkasýningar víða um heiminn og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum á þeim ferli alveg síðan á námsárunum fyrir 1970.  Hann býr í Hollandi og Kína.

Árið 1993 skeiðaði Sigurður fram á ritvöllinn með skáldsögunni Tabúlarasa sem vakti mikla athygli ekki síst meðal ungs fólks.  Um hana sagði Ingi Bogi Bogason m.a. í gagnrýni í Mbl:

„Höfundurinn hefur í áratuga fjarveru varðveitt vel móðurmálið og aukið það nýjungum. Úr þessum frumlega orðabrunni eys hann lesendum sínum til skemmtunar. (Þetta minnir í framhjáhlaupi á þá hugmynd sem kastað hefur verið fram að vænlegast sé að varðveita íslenska tungu í útlöndum).
Þannig líður sagan áfram í þráðlausri og stundum glórulausri samræðu. Inn í hana fléttast þekktar persónur eins og Tómas Jónsson, Salka Valka og Steinar undir Steinahlíðum. Það skal áréttað að þótt sagan fljóti þannig áfram eins og mælandinn sé undir sýruáhrifum, með öllu ruglinu sem því fylgir, verður hún aldrei leiðinleg. Þvert á móti á köflum drepfyndin.“

Næsta bók Sigurðar var Ósýnilega konan (2000) sem vakti enn meiri athygli en sú fyrri og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Þar „takast á þrjár raddir; konunnar, kallsins (í brúnni að íslenskum sið) og hulstursins, en allar búa þær innra með Sigurði Guðmundssyni,“ segir Fríða Björk Ingvarsdóttir í ritdómi í Morgunblaðinu: „Þar sem raddirnar þrjár eru ákaflega ólíkar og oftast nær ósammála, má segja að bókin segi sögu ákveðinnar innri togstreitu sem flestir sem komnir eru yfir miðjan aldur ættu að kannast við.“

Fríða lýkur umsögn sinni á þessa leið: „Ósýnilega konan er ákaflega athyglisverð bók sem rekur það hvernig óljós hugmynd verður að veruleika, – það hvernig tilraun til að kyngreina menningu okkar mótast í lausbyggða lesningu sem flæðir í líkingu við hið sammannlega minni, hugsunina sjálfa og verður um leið að myndlíkingu fyrir þá formlausu og brotakenndu menningu sem hún gerir tilraun til að greina.“

Þriðja skáldsaga Sigurðar kom út á vormánuðum 2010 og ber heitið Dýrin í Saigon. Hún var skrifuð á tíu mánaða dvöl höfundar í Víetnam árið 2008 og segir bæði frá listrænum þönkum hans og kynnum hans af nokkrum manneskjum í þeirri borg. Þessar manneskjur eru flestar ómæltar á aðrar tungur en sína eigin þannig að Sigurður verður að nota önnur tæki en málið í samskiptum sínum við þær. Þetta er afar athyglisverð og skemmtileg tilraun höfundar til að komast af án tungumáls, segja skilið við eigin menningu en lifa einsog viturt dýr, eins og hann segir sjálfur. Um leið er þetta óvenjuleg ástarsaga.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Efnisyfirlit
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga