Heillandi ævisaga Guðrúnar Ögmundsdóttir

 - Halla Gunnarsdóttir skráir sögu Guðrúnar Ögmundsdóttur
 Út er komin hjá Veröld ævisaga Guðrúnar Ögmundsdóttur, rituð af Höllu Gunnarsdóttur. Guðrún Ögmundsdóttir á að baki litríka og dramatíska ævi; dóttir konu sem „fór heim án barns“ af fæðingardeildinni og ólst upp hjá kjörforeldrum, tók síðan sjálf barn í fóstur. Hún er holdgervingur

’68 kynslóðarinnar og fyrrverandi borgarfulltrúi og alþingismaður.

 Guðrún sogaðist inn í hringiðu nýrra hugmynda á áttunda áratugnum – m.a. í Kaupmannahöfn, þar sem hún dvaldist lengi – en fann sína fjöl í kvenréttindabaráttunni, fyrst með rauðsokkum og síðar Kvennalistanum og sat í borgarstjórn fyrir hann. Hún var meðal stofnenda Samfylkingarinnar og sat á þingi fyrir flokkinn.

Halla Gunnarsdóttir skrifar sögu Guðrúnar Ögmundsdóttur. Þetta er í senn saga stórhuga konu sem lætur sér ekkert fyrir brjósti brenna, saga kynslóðarinnar sem óx úr grasi eftir síðari heimsstyrjöld – og baráttusaga íslenskra kvenna á ofanverðri 20. öld. Útkoman er heillandi ævisaga, fyndin, sorgleg og bitastæð – en umfram allt sultufín!

Guðrún Ögmundsdóttir - hjartað ræður för     Prenta     Senda
Bókarhöfundar: Halla Gunnarsdóttir og Guðrún Ögmundsdóttir
Bókarheiti: Guðrún Ögmundsdóttir - hjartað ræður för
Gagnrýnandi: Ólöf Ýrr Atladóttir, stjórnsýslufræðingur
Útgáfa: Veröld, Reykjavík 2010, 257 bls.

Í umsögn gagnrýnanda kemur meðal annars eftirfarandi fram: „Frásögnina skortir því þá dýpt sem þarf til að verða nægilega áhugaverð og skilja lesandann eftir með innsýn í þær kringumstæður sem lýst er, hvort heldur þær lúta að aðstæðum Guðrúnar sjálfrar eða þeim samfélagshræringum sem hún hefur upplifað og tekið þátt í.“

SAMTALSBÓK FREMUR EN ÆVISAGA
Saga Guðrúnar Ögmundsdóttur, félagsráðgjafa, fyrrverandi borgarfulltrúa og alþingiskonu, er frásögn konu sem hefur lifað viðburðaríku lífi, tekið að sér margvísleg verkefni í almannaþágu og tekið sér stöðu sem málsvari þeirra sem minna mega sín. Æviminningar hennar bjóða þannig upp á að verða dýrmæt og gagnrýnin heimild um umbrotatíma í samfélagsmálum; tímabil ’68-kynslóðarinnar, náms og lífs meðal Kaupmannahafnarstúdenta, kvenréttindabaráttu og samfélagsbreytinga síðustu ára sem skilað hafa ýmsum umbótum til hópa sem áður nutu ekki þeirra réttinda sem aðrir bjuggu þá við. Af nógu er að taka.

Guðrún Ögmundsdóttir er hlý kona sem hefur helgað líf sitt og lífsviðhorfi því að taka stöðu með smælingjum. Frásagnarmáti hennar er skemmtilegur og greinilegt er að hún horfir sátt um öxl, hefur notið lífsins og haft þann þroska til að bera að festast ekki í liðnum atburðum, heldur horfa fram á veginn. Þannig er gaman að lesa sögu hennar, textinn er víðast hvar lipur og áreynslulaus, en á köflum hefði mátt ritstýra betur, þar sem hugarflæði Guðrúnar sjálfrar verður of áberandi.

Texti Höllu Gunnarsdóttur byggist fyrst og fremst á frásögn Guðrúnar sjálfrar, enda er hér um samtalsbók að ræða; æviminningar, frekar en eiginlega ævisögu, þar sem heimilda er leitað til að festa hönd á heildarmynd þeirra atburða sem lýst er. Þannig er uppvöxtur Guðrúnar rakinn, námsár í Kaupmannahöfn og starfsferill, allt á fremur átakalítinn hátt og því miður án þess að nægilega sé sett í samhengi, atburðarás greind og þáttur Guðrúnar, þar sem það á við. Frásögnina skortir því þá dýpt sem þarf til að verða nægilega áhugaverð og skilja lesandann eftir með innsýn í þær kringumstæður sem lýst er, hvort heldur þær lúta að aðstæðum Guðrúnar sjálfrar eða þeim samfélagshræringum sem hún hefur upplifað og tekið þátt í. Ef til vill skrifast þetta á augljósa aðdáun skrásetjara á viðfangsefni sínu, aðdáun sem verður til þess að gagnrýnna spurninga er ekki spurt, ritstýring texta verður minni en ella og textinn léttvægari fyrir vikið.

Það verður þannig að segjast að bók Höllu Gunnarsdóttur ristir ekki nægilega djúpt – og nær alls ekki þeirri dýpt sem mann grunar að hún hefði getað náð. Um er ræða samtalsbók öðru fremur, sem rýnir lítið í samfélagið á hverjum tíma að öðru leyti en út frá sjónarhorni Guðrúnar. Lesandinn er skilinn eftir með tilfinningu um skort; að það hefði getað verið svo mikið innihaldsríkara að lesa um lífshlaup konu, sem hefur með margvíslegum hætti tekið virkan þátt í að móta þau samfélagsgildi sem okkur þykja sjálfsögð í dag.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Efnisyfirlit
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga