Íslenskir aðalverktakarListaverk komandi kynslóða

Í byggingunni verður meðal annars tónleikasalur sem tekur 1.800 manns í sæti, tvískiptanlegur ráðstefnusalur með 750 sætum, æfingasalur með 450 sætum og minni salur fyrir 180-200 áheyrendur. Sjálf byggingin verður risavaxið glerlistaverk sem að líkindum mun vekja athygli víða um heim. Verklok eru áætluð í desember 2009.

Austurhafnarverkefnið
Í apríl 2002 gerðu ríki og borg samkomulag um sameiginlega aðkomu að verkefninu og ári síðar var fyrirtækið Austurhöfn-TR ehf. stofnað. Félagið er að 54 prósentum í eigu ríkisins en Reykjavíkurborg á 46 prósent. Tilgangur félagsins var að vinna að undirbúningi að byggingu tónlistar- og ráðstefnumiðstöðvarinnar á austurbakka Reykjavíkurhafnar, þar sem Faxaskáli stóð í eina tíð. Eftir samkeppni samdi Austurhöfn við Portus um að annast byggingu hússins og rekstur þess til 35 ára en Portus fékk Íslenska aðalverktaka  til að sjá um hönnun hússins og allar byggingarframkvæmdir. Eigendur Portus í dag eru Landsbankinn og Nýsir.


Tónlistarhöll
Við hönnun tónlistar- og ráðstefnumiðstöðvarinnar var lögð mikil áhersla á að hljómburður verði eins og best verður á kosið og aðstaða öll til hljómleika- og ráðstefnuhalds til fyrirmyndar.
Á byggingareitnum sem tengist tónlistar- og ráðstefnumiðstöðinni mun  einnig rísa 400 herbergja hótel, verslunar- og skrifstofuhúsnæði sem og nýjar höfuðstöðvar Landsbankans. Því verður vandlega hugað að samþættingu ólíkrar starfsemi og jafnframt að heildin falli vel að núverandi borgarmynd og skipulagsmálum miðborgar Reykjavíkur. Til viðbótar verður byggð bílageymsla neðanjarðar á tveimur hæðum fyrir 1.600 bíla sem þjóna mun mannvirkjunum og Kvosinni.

Byrjað að steypa
Tímamót urðu í undirbúningi byggingar tónlistar- og ráðstefnumiðstöðvarinnar þann 12. janúar síðastliðinn þegar fyrstu steypunni var rennt í mót í grunni hússins við hátíðlega athöfn að viðstöddu fjölmenni. Ísleifur Sveinsson, byggingastjóri ÍAV, stýrði verkinu en honum til halds og trausts voru Björgólfur Guðmundsson, stjórnarformaður Portus, Stefán Þórarinsson, formaður verkefnastjórnar, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og Sturla Böðvarsson, þáverandi samgönguráðherra. 

Glerlistaverk
Arkitektar hússins eru Henning Larsens Architects A/S (HLA) en Batteríið vinnur með þeim að hönnun. Verkfræðihönnun er í höndum verkfræðistofunnar Rambøll Danmark A/S sem aftur er með íslensku verkfræðistofuna VGK-Hönnun sér til aðstoðar. Teiknistofan HLA hefur vakið athygli víða um heim en arkitektar á vegum stofunnar, í samvinnu við Rambøll hönnuðu meðal annars óperuna í Kaupmannahöfn sem formlega var tekin í gagnið í ársbyrjun 2005.
Ytra byrði tónlistar- og ráðstefnumiðstöðvarinnar við Reykjavíkurhöfn er að miklu leyti verk hins þekkta listamanns og hönnuðar Ólafs Elíassonar í samvinnu við HLA. Verður það gert úr gleri og stáli með skírskotun til íslenska stuðlabergsins. Þetta glerverk verður gríðarmikið mannvirki og mikil áskorun með tilliti til hönnunar og framkvæmda

Góður gangur í verkinu
Framkvæmdum við Tónlistar- og ráðstefnuhúsið miðar vel og koma fjölmargir að byggingarframkvæmdum. Í júní voru til að mynda um 40 járnabindingamenn að störfum við verkið, aðallega frá Eystrasalti, ásamt ámóta mörgum Pólverjum sem unnu við smíðar. Starfsmenn ÍAV; skrifstofufólk, verkstjórar, flokkstjórar, tæknifræðingar og verkfræðingar, ásamt mötuneytisstarfsfólki, komu sér svo fyrir í nýjum vinnubúðum á svæðinu þegar líða tók á sumarið. Eyjólfur Gunnarsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs ÍAV, segir að í sumarlok hafi verið unnið að því að ljúka uppsteypu á veggjum í kjallara og plötu yfir kjallara hússins. „Steypuvinnan heldur áfram ásamt uppbyggingu stálburðarvirkis og vinnu við raf-, frárennslis- og vatnslagnir og loftræsingu. Að því loknu munum við byrja að klæða húsið að utan með glerskúlptúr Ólafs Elíassonar og HLA, en nú eru um 130 manns á verkstað“ segir Eyjólfur.Stærsta verkefni ÍAV
Sem stendur eru Íslenskir aðalverktakar með mörg stórverkefni í gangi víða um land en Austurhafnarverkefnið er það viðamesta. „Framkvæmdir okkar við Reykjavíkurhöfn ná til 60.000 fermetra svæðis sem teygir sig frá Ingólfsgarði að Lækjartorgi. Tónlistarhúsið verður um  26.000 fermetrar  að stærð en á Austurhafnarsvæðinu í heild verður byggt á um 200 þúsund fermetrum. Auk hótels og skrifstofubyggingar verður þar bílastæðakjallari fyrir 1.600 bíla, verslanir, spa, bíóhús og þjónusturými við verslunargötu neðanjarðar sem tengir allt verkefnið saman. Þá munu nýjar höfuðstöðvar Landsbankans líka verða hluti af þessu verkefni og eiga að rísa við Lækjartorgið en í heildina er um að ræða eitt allra stærsta byggingarverkefni sem ráðist hefur verið í á Íslandi,“ segir Eyjólfur.


Tugmilljarða kostnaður
Tónlistar- og ráðstefnumiðstöðin verður eitt helsta kennileiti Reykjavíkurborgar en jafnframt að líkindum dýrasta einstaka mannvirkið sem reist hefur verið á Íslandi. Kostnaður við húsið fullbúið verður um 14 milljarðar en heildarkostnaður við Austurhafnarverkefnið verður  40 milljarðar króna, að ótöldum kostnaði við höfuðstöðvar Landsbankans.
„Þegar framkvæmdirnar ná hámarki gerum við ráð fyrir að um 200 manns muni starfa við byggingu Tónlistar- og ráðstefnumiðstöðvarinnar. Þeim fjölda til viðbótar munu á milli 400 og 500 manns koma að framkvæmdum við Austurhafnarverkefnið í heild en mannskapurinn sem nú starfar á okkar vegum kemur frá 11 þjóðlöndum. Bygging hússins er því fjölþjóðlegt verkefni sem eflaust á eftir að vekja alþjóðlega eftirtekt,“ segir Eyjólfur Gunnarsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Íslenskra aðalverktaka.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga