Vel gengur að byggja háskólatorg


Vel gengur að byggja Háskólatorg

Íslenskir aðalverktakar, ásamt arkitektastofunum Hornsteinum og Teiknistofu Ingimundar Sveinssonar, urðu sumarið 2005 hlutskarpastir í lokaðri samkeppni fimm verktaka og hönnuða um byggingu Háskólatorgs en torgið er samheiti tveggja nýrra bygginga á háskólasvæðinu. Byggingarnar verða alls um 10.000 fermetrar að flatarmáli og hófu Íslenskir aðalverktakar framkvæmdir í apríl 2006. Meginhluti bygginganna verður tekinn í notkun í árslok 2007 en lokaáfanginn í febrúar 2008.

Eyjólfur Gunnarsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs ÍAV, segir framkvæmdir ganga vel . „ Uppsteypu lauk snemma sumars og í kjölfarið var hafist handa við að reisa stálvirkin sem marka útlínur bygginganna. Lokafrágangur lóðar hófst síðla sumars og líkt og við önnur verk munum við tryggja að framkvæmdum ljúki á tilsettum tíma,“ segir Eyjólfur.
Hornsteinn var lagður að Háskólatorgi þann 17. júní síðastliðinn. Í máli Kristínar Ingólfsdóttur rektors við það tækifæri kom fram að Háskólatorgið muni gjörbreyta möguleikum Háskóla Íslands til að veita stúdentum sínum góða þjónustu og stuðning í námi og starfi.

Háskólatorg mun hýsa á þriðja hundrað starfsmenn og um 1.500 stúdenta á hverjum tíma, auk gesta, en þar verður að finna fjölbreytta starfsemi er lýtur að þjónustu við stúdenta og starfsfólk. Markmiðið er að Háskólatorg verði síkvikur og aðlaðandi vettvangur þar sem fólk komi saman til að stunda nám, sinna erindum, nærast og eiga samskipti.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga