Greinasafni: Skipulag
Framtíðin kemur í Kópavog
Kópavogsbær hefur auglýst til úthlutunar byggingarrétt fyrir íbúðarhús í Vatnsendahlíð í Kópavogi. Húsin munu rísa í fögru umhverfi, með víðfemu útsýni, en það sem gerir skipulagssvæðið einstakt á Íslandi er að það er hugsað frá grunni með þarfir stafrænnar tilveru í huga. Það sem var fjarlægur vísindaskáldskapur fyrir nokkrum áratugum er að verða staðreynd í Kópavogi.
 
Skipulagssvæðið

Alls er um að ræða lóðir undir 650 íbúðir í blandaðri byggð einbýlis-, par-, rað- og fjölbýlishúsa. Hverfið mun rísa í hærra landi en nærliggjandi íbúðarhverfi með ægifögru útsýni yfir Elliðavatn, Heiðmörk og allt að Hengilssvæðinu og Vífilsfelli. Til austurs verður greiðsýnt að Bláfjöllum og hluta Kópavogs og Reykjavíkur til norðurs en í vesturátt gefur að líta Esjuna, Akrafjall og sæinn. Um 100 metra breiður gróðursæll reitur mun skilja nýja hverfið frá núverandi byggð.

Stafræn tilvera
Kópavogsbær og Síminn hafa gert samkomulag um lagningu ljósleiðaranets í fyrirhugaðri íbúðabyggð í Vatnsendahlíð. Slík ljósleiðaranet hafa áður verið lögð í nýbyggingahverfi á Íslandi en að þessu sinni er stigið skrefum framar. Af hálfu bæjaryfirvalda í Kópavogi verða gefnir út leiðbeinandi staðlar svo að strax við hönnun húsa og íbúða verði hugað að þeim möguleikum sem í boði eru, og sýnt að í boði verða, hvað varðar fullkomnar stafrænar lausnir til fjarskipta, afþreyingar, þæginda og aukins öryggis íbúanna. Háhraða nettenging, Sjónvarp Símans, með bestu mögulegum myndgæðum, gagnvirkt sjónvarp eða bíó heim í stofu - það er bara byrjunin! 
 

Framtíðarhverfi
 
Hin stafræna tilvera samtímans og komandi framtíðar verður höfð til hliðsjónar við hönnun húsa og íbúða.

Kópavogur í fararbroddi
Allar íbúðirnar í Vatnsendahlíð í Kópavogi verða með fullkomin boðlagnakerfi en mis-fullkomin þó; allt eftir óskum og þörfum hvers og eins. Lagnir liggja helst að einum þjónustuskáp í hverri íbúð og lausar snúrur, og tilheyrandi flækjur, munu því hvorki verða íbúum hverfisins þyrnir í augum né fjötur um fót.

Sæmundur E. Þorsteinsson, forstöðumaður rannsóknardeildar Símans, segir að samningur Kópavogsbæjar og Símans tryggi að Kópavogur verði fremstur á meðal íslenskra sveitarfélaga í fjarskiptalegu tilliti. „Íbúarnir í Vatnsendahlíð verða betur í stakk búnir en íbúar annarra sveitarfélaga til að takast á við stafræna tilveru og nýta þá tækni sem til staðar er og fyrirsjáanlegt er að verði í boði í framtíðinni,“ segir Sæmundur.

Tæknin notuð til hins ýtrasta
Væntanlegum íbúum í Vatnsendahlíð standa til boða fjölmargir nýir möguleikar hvað varðar fjarskipti, afþreyingu, þægindi og öryggi. Hér að neðan gefur aðeins að líta sýnishorn af því sem koma skal í Kópavogi.

• Hægt verður að njóta mynd- og hljóðefnis í nánast öllum herbergjum.

• Sjónvarpssímtöl geta átt sér stað hvar sem er í húsinu.

• Sjálfvirk vatnsstýring og lekavöktun í baðherbergjum – beintengt öryggismiðstöð eða stjórnkerfi íbúðarinnar. Þetta býður t.d. upp á að vinnulúnir geta hringt úr farsíma sínum í stjórnkerfi íbúðarinnar og baðið mun bíða heitt og notalegt þegar þeir koma heim.

• Þvottavélin getur verið beintengd framleiðenda og jafnvel hægt að fjargreina bilanir sem upp koma.

• Hægt verður að stýra gardínum með fjarstýringu en einnig verður hægt að stilla þær þannig að þær haldi ávalt sömu birtu inni eða loki og opni fyrir birtu á tilteknum tíma.

• Ljós verða sömuleiðis fjarstýrð eða fyrirfram stillt, t.d. þannig að þau kvikni þegar gengið er inn í tiltekið rými.

• Ofnastýringar verða nákvæmari en nú þekkist og hægt að halda fyrirfram gefnum hita í hverju rými – hvernig sem viðrar.

• Vöktunarmyndavélar verða víða í íbúðunum og á lóðum.

• Fullkomnir gas-, vatns- og reykskynjarar verða þar sem þörf er á og hægt að tengja þá beint við öryggismiðstöð.

• Flatskjáir verða ekki eingöngu í sjónvarpsherbergjum heldur í mörgum rýmum og hægt að nýta þá bæði til afþreyingar og myndrænna samskipta.

• Boðlagnakerfin ná út fyrir veggi heimilisins, t.d. að heitum pottum sem hægt verður að forstilla eða stýra með fjarstýringu eða snertiskjá innandyra.

• Sími og sjónvarp í sturtunni.

• Eldri borgurum og sjúkum opnast fjölmargir nýir möguleikar svo sem: Fjarheilbrigðisþjónusta þar sem íbúarnir verða í beinu hljóð- og myndsambandi við heimilislækni sinn. Hægt verður að greina innihald blóðs án þess að taka blóð með þar til gerðum búnaði sem festur er á húð. Gert verður ráð fyrir tengingum fyrir ýmis lækningatæki svo sem  blóðþrýstingsmæli, neyðarhnapp og lífsskynjara sem skynjar t.d. hvort farið er fram úr rúmi.

Frá Vatnsendahlið er frábært útsýni en alls er gert ráð fyrir 650 íbúðum í hverfinu.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga