Greinasafni: Skipulag
Urriðaholt


Urriðaholt Í hverfinu munu búa og starfa átta til tíu þúsund manns en hugsunin 
að baki hönnun Urriðaholts miðar að því að þar rísi mannvæn og umhverfisvæn byggð.

Verðlaunahverfi rís í Garðabæ

Urriðaholt ehf. og bæjaryfirvöld í Garðabæ hafa tekið höndum saman um afar metnaðarfulla uppbyggingu íbúðar-, verslunar- og þjónustubyggðar í Urriðaholti. Svæðið er liðlega 100 hektarar að stærð og þar munu búa og starfa átta til tíu þúsund manns að uppbyggingu lokinni. Skipulagið hefur nú þegar vakið athygli innlendra og erlendra fagaðila og hlotið verðlaun virtra arkitektasamtaka í Bandaríkjunum.

Hönnun og skipulag Urriðaholts er að hluta til byggt á nýjum straumum í borgarskipulagi, en að skipulaginu hafa unnið breskir, bandarískir og íslenskir skipulagsfræðingar og arkitektar. Byggðir í hæðum eru spennandi fyrirbæri og óþrjótandi uppspretta fjölbreytileika. Þekktar eru borgir í mið Evrópu þar sem byggðin liggur í hlíðum, með götum og stígum sem leiða upp að fallegum torgum á hæðartoppunum umkringdum virðulegum byggingum. Þaðan hefur verið sóttur innblástur, en í Urriðaholti mun byggðin dreifast út frá þróttmiklum og þéttbyggðum verslunar-, menningar og þjónustukjarna á háholtinu. Íbúðabyggðinni hefur verið valinn staður á besta stað, í sólríkum suður-, vestur- og norðvesturhlíðum Urriðaholts þaðan sem útsýni er einstakt yfir allt Reykjavíkursvæðið.

Iðandi mannlíf
Uppbyggingarsvæðið á Urriðaholti er alls um 101 hektari að stærð og þar verða allt að 1.625 íbúðir með um 4.400 íbúum. Að auki er gert ráð fyrir 140 þúsund fermetrum atvinnu- og þjónustuhúsnæðis þar sem starfa munu fjögur til fimm þúsund manns. Fyrir liggur samþykkt deiliskipulag vegna fyrsta áfanga Urriðaholts en þar er gert ráð fyrir 377 íbúðum.
Uppbygging Urriðaholts er sameiginlegt verkefni Urriðaholts ehf. og Garðabæjar. Garðabær annast gatnagerð og innheimtir gatnagerðargjöld en Urriðaholt selur byggingarrétt.

Umhverfisvernd
Við gerð skipulags fyrir Urriðaholt var lögð sérstök áhersla á umhverfis- og samfélagsmál. Horft var til sérkenna Urriðaholts í þeim efnum s.s. verndun Urriðavatns m.a. með svokölluðum sjálfbærum ofanvatnslausnum, notkun byggingarefna sem ekki menga vatnið og áherslu á góðar tengingar við náttúru sem gefur frábær tækifæri til útivistar. Garðabær og Urriðaholt ehf. munu vinna sameiginlega að framangreindum áherslum með það að markmiði að byggð og umhverfi í Urriðaholti verði í fararbroddi á sviði umhverfismála.


Mosagata í Urriðaholti

Heilbrigt samfélag

Þór Steinarsson, sölu- og markaðsstjóri Urriðaholts ehf., segir hugsunina að baki hönnun Urriðaholts miða að því að þar rísi mannvæn og umhverfisvæn byggð. „Þetta hverfi verður í nánum tengslum við íslenska náttúru en um leið hluti af borgarbyggð, þar sema íbúar geta bæði búið og starfað og geta sótt helstu þjónustu innan byggðarinnar. Skipulagssvæðið er á stærð við Þingholtin og miðbæinn og bæði við og bæjaryfirvöld í Garðabæ leggja mikla áherslu á að byggingarframkvæmdum ljúki á sem skemmstum tíma,“ segir Þór.


Þór Steinarsson
Sölu- og markaðsstjóri Urriðaholts ehf., segir félagið 
og bæjaryfirvöld í Garðabæ leggja mikla áherslu á að 
byggingaframkvæmdum ljúki á sem skemmstum tíma

Greiðar samgöngur
Urriðaholt er afar vel staðsett á höfuðborgarsvæðinu með greiðum umferðartengingum til allra átta en Reykjanesbrautin og Elliðavatnsvegur tengja Urriðaholt við aðra hluta höfuðborgarsvæðisins. Þór segir samgöngur innan hverfisins skipulagðar með fólk í fyrirrúmi. „Allt skipulag gatna miðar að því að draga úr ökuhraða og auka öryggi vegfarenda og íbúa hverfisins. Sérstök áhersla er lögð á gott göngu- og hjólreiðastígakerfi innan hverfisins en stígakerfið mun jafnframt tengjast nærliggjandi svæðum svo sem Heiðmörkinni, ásamt stofnstígakerfi höfuðborgarsvæðisins. Við hönnun hverfisins er jafnframt tekið tillit til almenningssamgangna og því gert ráð fyrir strætisvagnabiðstöð í innan við fimm mínútna göngufæri frá hverju íbúðarhúsi.“

Háholtið hjarta hverfisins
Á háholtinu verður stórt almenningstorg þar sem verður m.a. starfsemi á sviði umhverfis- og menningarmála en í við torgið verður viðskipta- og þjónustumiðstöð hverfisins. „Háholtið mun tengjast Urriðaholtsstræti, viðskiptastræti, sem verður mótað sem breiðstræti milli aðkomutorgs inn á svæðið og almenningstorgsins á háholtinu. Þarna verða jafnframt skólar og íþróttaaðstaða og við sjáum fyrir okkur að torgið verði iðandi og síkvikur vettvangur ýmissa atburða árið um kring. Háholtið verður því einskonar hjarta hverfisins og það mun eiga sinn þátt í að skapa hverfisanda og tengsl á milli íbúanna sem erfitt hefur verið að kalla fram í mörgum byggðahverfum höfuðborgarsvæðisins,“ segir Þór


Mikil vinna hefur verið lögð í að skipuleggja Urriðaholt með það fyrir augum 
að íbúar fái sem best notið útivistar og nálægðar við náttúruperlurnar Urriðavatn og Heiðmörk.Fjölbreytt íbúðabyggð
Skipulag Urriðaholts gerir ráð fyrir miklum fjölbreytileika í húsagerðum í því markmiði að draga úr þeirri einsleitni sem oft vill einkenna ný hverfi. Lóðir verða seldar undir einbýlishús, parhús, raðhús og lítil fjölbýli, með fjölbreyttar stærðir íbúða. „Íbúðabyggðinni verður skipt í þrjá hluta sem hver um sig mun hafa sín einkenni hvað varðar þéttleika, húsagerðir og stærð íbúða. Þannig mun byggðin næst Urriðavatni einkennast af einbýlis-, par- og raðhúsum á meðan fjölbýlishús verða ríkjandi þegar nær dregur háholtinu,“ segir Þór.
Íbúðasvæðin verða í suður-, vestur- og norðvesturhlíðum Urriðaholts en þannig skapast möguleikar á að haga íbúðum og görðum þannig að sem mestrar sólar njóti við. Lögð er áhersla á að lögun og staðsetning húsa myndi sem best skjól fyrir ríkjandi vindáttum en jafnframt að götur og opin svæði verði sólrík. Þá verður gætt sérstaklega að skuggavarpi stærri húsa og skjóli á gönguleiðum.

Fjölskylduvænt hverfi
Áhersla er lögð á að skapa fjölskylduvænt umhverfi, með gnægð af göngu- og hjólreiðastígum, svo og umferðargötum sem eru hannaðar sérstaklega til að tryggja hóflegan umferðarhraða. Þór segir að götumyndirnar verði fjölbreyttar að ásýnd sökum ólíkra húsagerða, lita- og efnisvals og mismunandi þakforma. „Þannig verða göturnar og húsin síbreytileg, með mismunandi einkenni, og því auðvelt að rata um hverfið,“ segir Þór.
Börnin verða í öndvegi í Urriðaholti en við hönnun hverfisins er mikil áhersla lögð á að börnum og unglingum líði þar vel. Nálægðin við náttúruna, og opin græn svæði, spilar þar stórt hlutverk. Til að tryggja skjóta og vandaða uppbyggingu skóla, íþróttamannvirkja og sundlaugar hefur Urriðaholt ehf. skuldbundið sig til að leggja rúmlega 1,3 milljarða króna til þessara verkefna. „Þessi fjárhagslega þátttaka félagsins í uppbyggingu á skóla- og íþróttamannvirkjum eykur möguleika bæjarins til að standa enn betur en ella að þjónustu við íbúa hverfisins,“ segir Þór.
Bygging glæsilegrar skólabyggingar hefst strax á næsta ári en kennsla hefst þar árið 2010.

Stórkostleg náttúra

Útivist og náttúra
Mikil vinna hefur verið lögð í að skipuleggja Urriðaholt með það fyrir augum að íbúar fái sem best notið útivistar og nálægðar við náttúruperlurnar Urriðavatn og Heiðmörk. Grænir geirar ganga í gegnum hverfið og þjóna sem útivistar- og leiksvæði, gönguleiðir og skjólbelti trjáa.
Markvisst verður unnið með trjágróður í því augnamiði að mynda opin rými og skjól og landslag verður stallað og fjölbreytt. „Í hverfinu verður stór skeifulaga hvammur sem snúa mun að sól og Urriðavatni. Þessi hvammur mun veita gott skjól gegn vindi og nýtast vel til hátíðarhalda að sumarlagi. Á vetrum munu börn og unglingar hverfisins nota brekkurnar til að renna sér á sleðum og snjóbrettum,“ segir Þór.
Jaðar Búrfellshrauns liggur að brekkurótum Urriðaholts og á milli hrauns og hlíðar er skjólgott og fallegt svæði. Hraunjaðarinn er fjölbreytilegur og aðliggjandi hraunbreiður vaxnar birkikjarri og lynggróðri. Neðst í holtinu hefur verið stunduð skógrækt í tæpa tvo áratugi með góðum árangri.
Þór segir að við skipulag byggðar í Urriðaholti hafi niðurröðun og afstaða bygginga verið hagað með þeim hætti að þær myndi umgjörð um skjólsæl og sólrík svæði sem nýta má til útivistar. „Almenningsrými er varin fyrir vindi með byggingum og til að draga úr vindstrengjum, og auka fjölbreytni í umhverfinu, eru götur látnar hlykkjast eftir hlíðinni og hús látin standa mislangt frá götum,“ segir Þór.
Í skipulagsvinnunni var unnið með forsendur sjálfbærrar þróunar að leiðarljósi og áhersla lögð á að Urriðaholt skari fram úr í umhverfismálum. Í því sambandi má nefna að til að tryggja náttúrulegan vatnsbúskap í Urriðavatni er úrkoma ekki látin renna í hefðbundin niðurföll heldur beint út í jarðveginn sem svokölluðum sjálfbærum ofanvatnslausnum.

Góðar viðtökur
Tilboð í lóðir í fyrsta áfanga uppbyggingar Urriðaholts í Garðabæ voru opnuð í lok maí síðastliðins. Alls var um að ræða 47 lóðaeiningar, fyrir 100 íbúðir, og bárust tilboð í þær allar. „Tilboðin voru  í samræmi við væntingar okkar og það er staðfesting á verðmæti landsins og þeim skipulagsgæðum sem við höfum lagt upp með,” segir Þór.
Gatnagerðarframkvæmdir eru nú í fullum gangi í Urriðaholti en gert er ráð fyrir að allri gatnagerð verði lokið í ágúst á næsta ári. „Þessar umfangsmiklu framkvæmdir eru unnar mjög hratt en um leið af vandvirkni. Áður en haust gengur í garð á næsta ári verða allar götur tilbúnar, öll bílastæði, lýsing og allar hleðslur meðfram götum.  Bæjaryfirvöld í Garðabæ hafa sama metnað og við sem stöndum að Urriðaholti til að gera þetta hverfi einstakt á Íslandi og mér skilst að gatnagerðarframkvæmdin í hverfinu sé sú viðamesta, metnaðarfyllsta og kostnaðarsamasta sem íslenskt sveitarfélag hefur ráðist í,“ segir Þór.

Fjármögnun og skilmálar
Urriðaholt ehf. hefur samið við Landsbankann um að bjóða kaupendum hagstæð lán til kaupa og byggingu fasteigna í Urriðaholti. Í boði er allt að 100% lóðalán, framkvæmdalán sem getur numið allt að 80% af byggingarkostnaði og langtímalán, til allt að 40 ára, þar sem miðað er við allt að 80% af markaðsvirði.
Til að tryggja markvissa uppbyggingu Urriðaholts eru sett fram ýmis skilyrði af hálfu seljenda byggingaréttar og bæjaryfirvalda í Garðabæ. „Þar er meðal annars að finna ákvæði er lúta að afmörkuðum byggingartíma og fleiru er snýr að byggingarframkvæmdum. Tilgangurinn með þessum skilmálum er að koma í veg fyrir brask með lóðir og flýta framkvæmdum eins og kostur er. Þetta á að verða fjölskylduvænt hverfi og við viljum að íbúum Urriðaholts líði vel frá fyrsta degi,“ segir Þór Steinarsson, sölu- og markaðsstjóri Urriðaholts.


 

Hrauntanginn skagar út í Urriðavatn. Þar fyrir handan er Urriðaholt og enn lengra í burtu blasir Heiðmörkin og fjallahringurinn við.
 

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga