Byggingarfélagið Kambur

Byggð sem vakið hefur athygli.

Byggingarfélagið Kambur sér um byggingarhlutann í Arnarneshæðinni fyrir Hanza Hópinn og er Pétur Helgason yfirverkstjóri. ”Ég er búinn að stjórna verkframkvæmdum á Arnarneshæðinni síðan framkvæmdir hófust 1. apríl 2005 og hef haft umsjón með öllum þáttum verksins sem kemur að byggingarhliðinni, hef séð um áætlanagerð, umsjón með öllu sem þarf að panta og sjá um að pöntunin komi á staðinn og séð um að vinnan gangi sinn gang en hér eru á bilinu 120 til 150 manns við vinnu þannig að það er í mörg horn að líta, en starfið er skemmtilegt og gefandi og gaman að vera í miðri hringiðu slíkra stórframkvæmda. Hér er unnið á öllum stigum framkvæmda, erum að taka sökkla undir hús og skila tilbúnum íbúðum og allt þar á milli.”
 
Að mati Pétur hefur gangur verksins verið góður og flestar áætlanir staðist: ”Það er nú samt svo að þegar um svo margar byggingar er að ræða að þá er alltaf eitthvað sem fer úrskeiðis og tefur framkvæmd en ekkert alvarlegt hefur komið fyrir sem hefur haft afdrifaríkar afleiðingar:”

Byggingarfélagið Kambur
Pétur segir að verkinu hafi verið skipt niður í þrjá áfanga eftir tímaröð. ”Við hófum vinnu við fyrsta áfangann sem er búinn og er þegar flutt inn í stóra hluta íbúða þess áfanga. Nú erum við að leggja síðustu hönd á annan áfangann og byrjum síðan fljótlega á þriðja áfanganum sem á að vera lokið 2009.”
Þegar Pétur er spurður hvort eitthvað sérstakt einkenni húsin á Árnarneshæðinni sem Hanza Hópurinn byggir segir hann það vera: ”Þetta eru blokkir og raðhús sem við erum að byggja og það sem er einna sérstakast við byggingarnar er að öll húsin eru einingahús og gerir það hverfið í heild öðruvísi en menn eiga að venjast. Allar einingarnar koma til okkar frá Loftorku og eru keyrðar frá Borgarnesi í Garðabæinn.”

Byggð með góðu útsýni
Pétur minnist á hversu vel hefur tekist til að halda útsýninu í hvaða byggingu sem er þrátt fyrir að flestar blokkirnar séu aðeins tvær hæðir. ”Þetta er mikill kostur þar sem íbúðahverfið er í slakka til suðurs og því fallegt útsýni.”
Pétur verður talsvert var við að fólk er að koma og skoða blokkirnar og raðhúsin og er forvitið og margir spenntir. ”Það er alltaf einhver traffík af fólki að skoða og sjálfsagt mun meira um helgar en á virkum dögum og er greinilegt að þessi byggð hefur vakið mikla athygli.”


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga