Aalborg Portland Íslandi ehf.

Leiðandi á sementsmarkaði

Kalknáma Kalkið á námusvæði Aalborg Portland er mjög tært og nýtist því vel til framleiðslu á hágæða hvítu og gráu sementi.

Aalborg Portland Íslandi ehf. (APÍ) er í eigu Aalborg Portland AS í Danmörku en félagið flytur út sement til um 70 landa. Aalborg Portland Íslandi hefur starfað hér á landi frá árinu 2000 við markaðssetningu og dreifingu á hágæða sementi. Flutningabílar félagsins dreifa lausu sementi um allt land til afhendingar í sementssíló viðskiptavina en pakkað sement frá Aalborg Portland er selt í helstu byggingavöruverslunum og múrbúðum víða um land.
Aalborg Portland Íslandi ehf. (APÍ) rekur tvö sex þúsund tonna síló fyrir laust sement í Helguvík og dreifingarmiðstöð fyrir pakkað sement á sama svæði. Í byrjun október 2005 hóf félagið jafnframt dreifingu á sementi frá tveimur 1.300 tonna sílóum á Reyðarfirði en sú starfsemi er í samvinnu við Arnarfell ehf og Malarvinnsluna hf.

Bjarni Ó. Halldórsson
framkvæmdastjóri

Hágæða sement
Bjarni Ó. Halldórsson er framkvæmdastjóri Aalborg Portland Íslandi og hann segir félagið hafa fengið afar góðar viðtökur allt frá því það hóf starfsemi fyrir sjö árum. „Móðurfélagið, Aalborg Portland í Danmörku, er á meðal stærstu framleiðenda á sementi í Evrópu og rekur sementsverksmiðjur í Danmörku, Malasíu, Kína, Egyptalandi og í Bandaríkjunum. Hjá fyrirtækinu starfa afar hæfir sérfræðingar á öllum sviðum og á grunni áratuga rannsókna- og þróunarvinnu höfum við getað boðið Íslendingum upp á hágæða sement sem stenst allar þær kröfur sem gerðar eru á íslenkum byggingarmarkaði,“ segir Bjarni.
Mikilvægustu hráefnin við sementsframleiðslu eru kalk og sandur sem eru brennd saman við háan hita. Við höfuðstöðvar Aalborg Portlands A/S í Álaborg eru miklar kalknámur og er kalkið talið vera um 70 milljón ára gamalt. Kalkið er því mjög tært og hentar einstaklega vel til framleiðslu á úrvalssementi.
Kalkið er grafið úr jörðu með þremur sérútbúnum gröfum, sem hver um sig getur grafið upp allt að 1.000 tonn á klukkustund, og flutt á færiböndum í verksmiðju. Sandur til framleiðslunnar er tekinn við sjávarsíðuna í grennd við verksmiðjuna.
Allt framleiðsluferlið, frá kalknámum til geymslu í sílóum, er tölvustýrt og fullnægir ströngustu kröfum nútímans. Náið er fylgst með framleiðslunni með tölvustýrðum vélmennum sem tryggja gæði sementsins.

Helguvík Aalborg Portland er með síló í Helguvík.

Hraður vöxtur á Íslandi
Fyrstu mánuðina eftir að Aalborg Portland Íslandi hóf starfsemi var sementið flutt til landsins í stórum sekkjum og afhent Malbikunarstöðinni í Helguvík og öðrum smærri viðskiptavinum. Þann 22. september 2.000 var sex þúsund tonna síló tekið í notkun í Helguvík og í upphafi árs 2001 var opnuð skrifstofa að Bæjarlind 4 í Kópavogi. Sílóin á Reyðarfirði voru tekin í notkun þann 27. september 2005.
„Fyrsta heila starfsár Aalborg Portland Íslandi gekk mjög vel. Félagið náði strax helstu markmiðum sínum en árið 2001 seldi APÍ um 30 þúsund tonn af sementi. Íslendingar tóku sementinu frá Álaborg afar vel, eins og þeir höfðu reyndar gert í upphafi 20. aldar þegar Zimsen verkfræðingur hóf innflutning á sementi,“ segir Bjarni.
Í kjölfar góðs árangurs var tekin akvörðun um að byggja annað?síló í Helguvík og var það tekið í notkun 17. september?2002. Með nýja sílóinu náðist fram aukin hagkvæmni í innflutningi og öryggi í afhendingu sements. Skömmu síðar var tekin í notkun vöruskemma við Hólamið 6 í Reykjanesbæ, skammt frá Helguvík, en þar er afgreiðsla á pökkuðu sementi til viðskiptavina og dreifingaraðila.
Á árinu 2003 var uppbyggingu fyrirtækisins haldið áfram og meðal annars fjárfest í blöndunarbúnaði fyrir kísilryk í sement, betri aðstöðu fyrir starfsmenn í Helguvík, færanlegum sílóum sem nýtast starfsemi t.d. á landsbyggðinni, auk þess sem fjölgað hefur í bílaflota.

Hluti bílaflotans Þrír af átta bílum sem Aalborg Portland notar til að dreifa sementi í lausu til viðskiptavina sinna.

Leiðandi á íslenskum markaði
Í júní 2003 var gerður stór viðskiptasamningur við Steypustöðina, Steinsteypuna og Loftorku en tvö fyrst töldu félögin sameinuðust síðar undir merki Mest. „Þeir samningar voru stórt skref fyrir okkur og lögðu grunnin að því að Aalborg Portland Íslandi er í dag leiðandi fyrirtæki á íslenskum sementsmarkaði. Á árinu 2005 voru svo gerðir stórir viðskiptasamningar við Arnarfell ehf. og Malarvinnsluna hf. sem opnuðu félaginu stóra markaði á Austfjörðum í tengslum við uppbygginguna þar,“ segir Bjarni Ó. Halldórsson, framkvæmdastjóri Aalborg Portland Íslandi.

Úrvalsvörur og góð þjónusta
Aalborg Portland framleiðir mismunandi tegundir af sementi sem gætt er margvíslegum eiginleikum til fjölbreyttra nota. Helstu framleiðsluvörurnar eru BASIS® sement, RAPID® sement, MESTER® sement og hvítt AALBORG WHITE® sement. Hver tegund fyrir sig er þróuð sérstaklega og þaulreynd til ákveðinna nota.

Lang stærsti hluti af framleiðslu Aalborg Portland Íslandi er selt í lausu frá birgðarstöðinni í Helguvík. Stærstu viðskiptavinirnir eru steypustöðvar, einingaverksmiðjur og röraverksmiðjur en Aalborg Portland dreifir framleiðslunni með eigin tankbílum beint til viðskiptavinanna.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga