Sænsk gæðavara á góðu verði


Glæsilegt Tomoku húsin eru bæði falleg og sterkbyggð en þau hafa sérstaklega
verið löguð að íslensku veðurfari.

Modulhús ehf. á Hvammstanga flytja inn og selja vandaðar timburhúseiningar frá Svíþjóð. Sérstaða Modulhúsa á íslenskum markaði felst einkum í því að félagið býður viðskiptavinum sínum ekki fullbúin uppsett hús heldur aðeins einingarnar, afhentar í gámi. Viðskiptavinurinn hefur svo frjálsar hendur með hvort hann raðar draumahúsinu saman sjálfur eða fær einhvern annan til þess. Fyrir vikið getur viðskiptavinurinn valið ódýrustu leiðirnar í hverjum og einum lið byggingarinnar og lækkað þar með heildar byggingarkostnaðinn verulega.

Einingarnar sem Modulhús flytja inn eru framleiddar  í Tomoku verksmiðjunni í Insjön í Svíþjóð. Guðmundur Helgason, framkvæmdastjóri Modulhúsa, segir Tomoku húsin hingað til einkum hafa verið seld til Japans. „Jarðskjálftar eru algengir í Japan og Tomoku húsin eru hönnuð með það í huga. Þau eru því sterkbyggð en að auki hafa verkfræðingar verksmiðjunnar lagað hönnunina að íslensku veðurfari. Tomoku húsin eru því hvort tveggja í senn ódýr og góður kostur fyrir Íslendinga,“ segir Guðmundur.
Máli sínu til stuðnings segir Guðmundur sögu af smiði sem fengin var til að reisa Tomoku hús á Íslandi. „Hann var svo ánægður með húsið eftir að það var komið upp að hann keypti eitt slíkt handa sjálfum sér,“ segir Guðmundur.


Einfalt Vanir smiðir eru ekki nema 2 til 3 daga að reisa útveggi  180 fermetra
Tomoku húss.

Fljótleg uppsetning
Hægt er að fá Tomoku húsin í mörgum útfærslum og stærðum og nýta þau hvort heldur sem sumarhús eða íbúðarhús. Einingarnar eru hugvitsamlega hannaðar og því er uppsetning þeirra bæði einföld og fljótleg. „Einingarnar eru þannig úr garði gerðar að vanir smiðir ættu ekki að þurfa að vera lengur en 2 til 3 daga að reisa útveggi 180 fermetra húss. Þakið getur verið enn fljótlegra að reisa, allt eftir hönnun þess, en einföldustu þakgerðir er mögulegt að reisa á 3 til 4 klukkustundum,“ segir Guðmundur.
Mikill fjárhagslegur ávinningur er fólginn í því hversu fljótlegt er að reisa húsin en að auki sparast fjármunir þar sem ekki er þörf á að notast við krana til að hífa einingarnar á sinn stað. „Tveir til þrír menn ráða auðveldlega við að koma þeim upp,“ segir Guðmundur.

Gott verð
Mjög gott verð er að á Tomoku húsunum og ræðst það einkum af tvennu: Annars vegar af mikilli framleiðslugetu verksmiðjunnar, sem er afar vel tækjum búin, og hins vegar af því að varan er stöðluð og því hagkvæm í framleiðslu. Eftirfarandi verð má hafa til hliðsjónar en rétt að hafa í huga að endanlegt verð er að nokkru leyti háð breytingum á gengi.
80 fermetra hús: 2,9 milljónir (36.000 kr/fermeterinn)
125 fermetra hús: 3,5 milljónir (kr. 28.000 kr/fermeterinn)
160 fermetra hús: 3,8 milljónir (kr. 24.000 kr/fermeterinn)
200 fermetra hús: 4,6 milljónir (kr. 23.000 kr/fermeterinn)

   
Framkvæmdastjórinn Guðmundur Helgason
segir Modulhús vera að breikka vörulínu
félagsins og nú geti Modulhús afgreitt í einingum
flest það sem við kemur húsbyggingum.

Stuttur afgreiðslutími

Um það bil tíu vikum eftir að pöntun er staðfest eru einingarnar tilbúnar í gámi hjá framleiðanda í Insjön. „Þaðan er gámurinn fluttur með lest til Gautaborgar og um borð í skip frá Eimskipum. Rúmri viku síðar er gámurinn tilbúinn til afhendingar. Á þessum 9 til 10 vikum væri hægt að steypa sökkul og plötu og því fátt því til fyrirstöðu að hefjast handa við að reisa húsið þegar það kemur til landsins,“ segir Guðmundur Helgason, framkvæmdastjóri Modulhúsa.
Nánari upplýsingar um Tomoku húsin er að finna á vefsíðu Modulhúsa – www.modulhus.is.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga