Greinasafni: Skipulag
Reykjanesbær er fjölskylduvænn

- segir Halldór Ragnarsson framkvæmdastjóri byggingafélagsins Húsaness
Húsanes er byggingafélag í Reykjanesbæ sem var stofnað 1. maí 1979 og hefur byggt hartnær 1.000 íbúðir víðs vegar um landið bæði í eigin reikning og fyrir aðra. Flestar íbúðir félagsins hafa verið byggðar fyrir almennan markað, en einnig hefur Húsanes byggt íbúðir fyrir aldraða ásamt því að byggja  félagslegar íbúðir á Suðurnesjum og víðar á landinu. Þar má nefna Nesvelli, sem er íbúðahverfi, þjónustu- og félagsmiðstöð fyrir fólk á besta aldri í hjarta Reykjanesbæjar. Jafnframt hefur Húsanes sinnt ýmsum öðrum byggingarframkvæmdum bæði fyrir einkaaðila og opinbera aðila. Á launaskrá hjá félaginu eru um 70 starfsmenn og svipaður fjöldi starfar hjá undirverktökum. Á hverju ári framleiðir og afhendir Húsanes milli 60 og 70 íbúðir.
Halldór Ragnarsson framkvæmdastjóri Húsaness segir að áður fyrr hafi fyrirtækið verið mikið að vinna í tilboðsverkum og einnig að byggja á eigin lóðum en markaðurinn hafi þá ekki verið eins líflegur og hann er í dag og því hafi mikið verið sótt í verk úti á landi en einnig í Reykjavík og Kópavogi. Á seinni árum hefur nær eingöngu verið byggt á eigin lóðum í Reykjanesbæ, en einnig t.d. í Kópavogi, og þær íbúðir ýmist seldar beint eða leigðar.
“Við höfum einnig verið að byggja verslunar- og iðnaðarhúsnæði og einnig má nefna sundlaugar og laxeldisstöðvar svo mannvirkin sem við höfum byggt eru mjög fjölbreytt að gerð. Byggingu sundlaugarinnar fjármögnuðu við sjálfir og afhentum síðan Reykjanesbæ. Í dag erum við í nokkrum alútboðum eins og t.d. fyrir Nesvelli og í Kópavogi fengum við spildu í Lindahverfinu og þar var allt frá gatnagerð til fulllnaðarfrágangs íbúða á okkar hendi. Það voru um 100 íbúðir. Á seinni árum höfum við verið að byggja á eigin lóðum, það hefur gefist mun betur en að vinna með ýmsum arkitektum, verkfræðingum og eftirlitsmönnum sem eru ekki á okkar vegum. Útboðsverk eru þá oft ekki gerð eins hagkvæm eins og við vildum gera þau sjálfir,” segir Halldór Ragnarsson.


Vel er búið að námsmönnum í Reykjanesbæ. Húsanes byggði þessar námsmannaíbúðir við Krossmóa.

Fjölskylduvænn bær
Halldór segir Reykjanesbæ vera orðinn mjög fjölskylduvænan bæ þar sem þjónustan við íbúa á öllum aldri með því besta sem gerist á landinu, allir komast í leikskóla og tónlistarskóla sem þess æskja og frítt hefur verið í strætó og sund í nokkur ár. Þjónustustigið er því mjög hátt sem gerir Reykjanesbæ mjög búsetuvænan. Það geri fasteignir, bæði nýbyggingar og eldri íbúðir, mun söluvænni, enda flytji fólk í einhverjum mæli frá höfuðborgarsvæðinu til Reykjanesbæjar, bæði fólk sem er að sækja vinnu á Suðurnesjum og einnig fólk sem stundar vinnu á höfuðborgarsvæðinu.
Jóhannes Ellertsson fjármálastjóri segir að markaðurinn hafi verið mjög líflegur sl. fjögur ár og allar þær íbúðir sem Húsanes hafi byggt hafi selst fljótt og vel.
“Við vorum mikið á höfuðborgarsvæðinu en í seinni tíð höfum við getað einbeitt okkur að Suðurnesjunum þar sem markaðurinn hér er orðinn mun öflugri en hann var. Hér hefur fólksfjölgun verið um 4% á ári svo þörfin hefur verið fyrir allt að 350 íbúðir á ári. Áður fyrr voru um 25% kaupsamninga sem við vorum að gera við aðflutt fólk en í dag er um helmingur þessara samninga við fólk af höfuðborgarsvæðinu eða lengra að komið en einnig frá nágrannabyggðarlögum Reykjanesbæjar. Tvöföldun Reykjanesbrautar hefur haft gríðarleg jákvæð áhrif á þessa þróun auk þess sem hér eru góð atvinnutækifæri og ekki má gleyma því að fyrir íbúð hér er verið að greiða um 70% af verði sambærilegrar íbúðar á höfuðborgarsvæðinu,” segir Jóhannes Ellertsson.

109 íbúðir í byggingu
Húsanes er að byggja 32 íbúðir í keðju- og fjórbýlishúsum við Svölutjörn, en það eru 3., 4. og 5 herbergja íbúðir. Búið er að teikna 16 einbýlishús við Leirdal, 4 stór parhús í byggðu hverfi við Holtsgötu og 30 íbúðir í fjölbýli við Dalsbraut sem eru 2., 3. og 4 herbergja og eru þær ódýrustu sem henta mjög vel ungu fólki sem er að kaupa sér þak yfir höfuðið í fyrsta sinni. Lokið er við að byggja 27 námsmannaíbúðir við Krossmóa sem eru 2. og 3. herbergja. Alls eru þetta 109 íbúðir sem eru boðnar á hagstæðu verði. Með fjölbreyttni í gerð íbúða höfðar Húsanes til óska sem flestra sem hyggjast kaupa sér nýja íbúð, flestir eiga að geta fundið sér íbúð við hæfi. Íbúðirnar eru afhentar fullbúnar með þvottavél og þurrkara og öllum stærri rafmagnstækjum. Innréttingarnar eru þýskar af háum gæðastaðli, settar saman í Litháen og fluttar inn þaðan. Teikningar af þeim húsum sem Húsanes byggir eru í sífelldri þróun, og segir Halldór að með því sé stöðugt stefnt að því að skila betri vöru og nálgast óskir kaupandans. Í fjölbýlishúsunum er t.d. sérinngangur í hverja íbúð af svölum og íbúðir eru í dag með opnara rými, t.d. tengist eldhús og stofa meira sem snýr gegn sólu.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga