Greinasafni: Skipulag
Sveitafélagið Garður

 Áhersla lögð á þéttingu byggðar.

 Garðurinn er á nyrsta odda Reykjanesskagans. Mörk sveitarfélagsins liggja frá Fjörukambi í Draughól, um Skálareykjar að Kölku, sem er á milli brautarenda við Keflavíkurflugvöll. Þaðan liggja sveitarfélagamörkin að Keflavíkurborg, síðan ofan Mánagrundar og í Hólmbergsvita.  Mikil uppbygging hefur verið í Garðinum á síðustu árum og eftirspurn eftir lóðum fer vaxandi. Verið er að hefja vinnu á heildarendurskoðun á aðalskipulagi Garðs og gera má ráð fyrir að sú vinna klárist á árinu 2008. Oddný Guðbjörg Harðardóttir er bæjarstjóri í Garðinum:

„Vöxtur hefur verið mikill hjá okkur á mörgum sviðum og er það í takt við það sem er að gerast á Reykjanessvæðinu. Hvað varðar fólksfjölda þá fjölgaði okkur um 4% árið 2005 og 8% í fyrra. 4% til 5% fjölgun er tala sem við viljum sjá og er mjög ásættanlega og við reiknum með slíkri fjölgun á næstu árum. Að mínu mati er betra fyrir bæjarfélag eins og Garðinn að fólksfjölgun verði hæg og stöðug heldur en að mikill fjöldi komi inn á svæðið í einu.”


Skólasvæðið. Þegar skólinn hefur verið stækkaður mun hann tengjast 
Íþróttamiðstöðinni.

Um 200 íbúða hverfi
Oddný segir að í dag er engin lóð laus og margir á biðlista yfir lóðir.
Á síðustu þremur til fjórum árum hafi lóðum fyrir um 120 íbúðir verið úthlutað og flest húsin eru þegar byggð eða í byggingu: „Búið er að skipuleggja nýtt hverfi sem kemur til úthlutunar fljótlega. Ekki hefur komið neitt sérstakt nafn á hverfið enn sem komið er, en við köllum það hverfið fyrir ofan Garðvang.  Þar verða lóðir fyrir tæplega 200 einbýlishús og parhús. Mikið hefur verið spurt um lóðirnar og veit ég að margir bíða eftir auglýsingunni til að geta sótt um og verður úthlutað bæði til verktaka og einstaklinga.“
Um er að ræða mjög góða staðsetningu og í samræmi við áhersluna um að þétta byggðina í Garðinum og er nýja hverfið stutt frá þjónustukjarnanum og skóla.
Hvað varðar nýjar byggingar á vegum bæjarfélasgsins þá er það stækkun grunnskólans sem er brýnasta verkið: „Við verðum að stækka skólann, hann er búinn sprengja allt utan af sér og þegar flutt verður í nýja hverfið þá verður skólinn að vera tilbúinn til að taka við fleiri börnum. Þetta er stóra verkefnið sem kemur til framkvæmda á vegum sveitafélagsins og það er verið að hanna bygginguna. Byggð verður viðbygging sem teygir sig í áttina að Íþróttamiðstöðinni og er ætlunin að tengja þessar tvær byggingar saman. Í leiðinni verður skólalóðin tekin öll í gegn. Stækkun leikskólans er einnig nauðsynleg og er þegar byrjað á því verki.”

Skipulag í kringum Útskálakirkju
Hvað varðar önnur verkefni í skipulagi í Garðinum þá er nýbúið að gera skipulag í kringum Útskálakirkju: „Þar er verið að endurbyggja gamla Útskálahúsið og stendur til að þar verði menningarsetur. Á þessu svæði er einnig gert ráð fyrir safnaðarheimili og ráðstefnuhóteli. Einnig er nú verið að vinna að deiluskipulag fyrir Garðskagann. Þar er byggðasafnið okkar og vitavarðarhúsið og hugmyndin er að hanna nýtt tjaldstæði og göngustíga. Ætlunin er með skipulaginu á þessu svæði að mannvirkin falli vel að umhverfinu og laski sem minnst náttúruna og að þarna verði útivistasrsvæði sem tengist Útskálasvæðinu meðfram sjónum, þannig að þessi svæði verði ein heild.”
 
Oddný Guðbjörg Harðardóttir, bæjarstjóri í Garðinum.

Góð staða bæjarins
„Hér í þessum langa bæ búa um 1500 manns.  Við teljum best að þétta byggðina sem mest og því er skipulagt hverfi sem næst þjónustunni.  Hverfið er miðsvæðis og kemur til með að styrkja bæjarmyndina og auka á hlýleika bæjarins. Ekki er ráðgert að skipuleggja mikla byggð í Út-Garðinum, heldur halda því svæði sem mest eins og það er en styrkja svæðið með tilliti til ferðamennsku.  Svo má geta þess að fyrrum varnarsvæði sem er innan okkar marka og þar er hafinn undirbúningur að skipulagi fyrir  athafnasvæði og deiliskipulag frá Helguvík að Berghólum er nú í auglýsingu. Skipulagsmál eru áberandi í starfsemi bæjarfélagsins þessa stundina og verða það á næstu misserum. Peningastaða sveitarfélagsins er góð eftir að við seldum okkar hlut í Hitaveitu Suðurnesja þannig að það er ekkert því til fyrstöðu að framkvæmdirnar gangi fljótt og vel fyrir sig.”
Aðspurð segir Oddný að fólksfjölgunin í Garðinum hafi ekki komið henni á óvart: „Það hefði frekar komið mér á óvart hefði ekki orðið nein fjölgun. Vöxtur er mikill á Reykjanessvæðinu og það hefur komið okkur til góða eins og öðrum bæjarfélögum og við tökum þátt í þeirri uppbyggingu sem er á svæðinu. Suðurnesin eru eitt atvinnusvæði en stærstu atvinnufyrirtækin í Garðinum eru sem fyrr fiskvinnslufyrirtæki en einnig starfa margir við Garðvang sem er heimli fyrir aldraða og mörg minni fyrirtækli eru starfrækt.”
Oddný, sem sjáf ólst upp í Garðinum er bjarsýn á framtíð bæjarins:  „Það má segja að okkur gangi allt í haginn og ég á von á því að svo verði áfram.”


Unnið er að deiliskipulagi fyrir Garðskagann og verður þar meðal annars 
tjaldstæði og göngustígar.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga