Vanir menn á Suðurlandi

 Viðar-smíðar ehf. á Selfossi er alhliða byggingafyrirtæki sem veitir viðskiptavinum sínum alla þá þjónustu sem nauðsynleg er við húsbyggingar.?Hjá fyrirtækinu starfa að jafnaði 4 til 5 starfsmenn og hafa flestir þeirra áratuga reynslu af byggingastarfsemi. Framleiðsla og sala timburhúsa er stærstur hluti starfseminnar, ásamt því að sinna almennri þjónustu við húsbyggingar.


Kátir. Runólfur Viðar ásamt tveimur starfsmanna sinna, þeim Þorbergi 
Þorbergssyni  og Jóhanni Arnari Jóhannssyni.


Runólfur Viðar Sturluson er framkvæmdastjóri og eigandi fyrirtækisins. Hann segir reksturinn hafa gengið mjög vel allt frá upphafi en hann hleypti fyrirtækinu af stokkunum fyrir um þremur árum. „Á þeim tíma höfum við byggt níu einbýlishús og stór heilsárshús í frístundabyggð. Verkefnastaðan hefur alla tíð verið mjög góð og útlit fyrir að ég þurfi aukinn mannskap í komandi framtíð,“ segir Runólfur Viðar.
Lykilinn að velgengi byggingarverktaka er að mati Runólfs Viðars heiðarleiki og vönduð vinnubrögð. „Ég hef alla tíð lagt mikla áherslu á að vanda vel til verka og að allar tímaáætlanir standist. Þetta vita þeir sem átt hafa í viðskiptum við mig og slíkt spyrst fljótt út. Ég geri mér jafnframt grein fyrir að þegar fólk er að kaupa hús sem ég hef byggt, eða fá mig til að byggja hús fyrir sig, þá eru miklir fjármunir í spilunum og oft er um að ræða aleigu fólks. Ég legg því metnað í að verkin séu vel unnin og ekki komi neitt óvænt upp á eftir að fólk er flutt inn. Þetta skiptir mig miklu máli,“ segir Runólfur Viðar.

Einbýlishús
Viðar-smíðar hefur á undanförnum misserum byggt og selt fjögur fullbúin  einbýlishús á Selfossi en fyrirtækið ýmist byggir húsin sjálf og selur eða byggir þau samkvæmt bindandi tilboðum. Þessa dagana er fyrirtækið að leggja lokahönd á smíði liðlega 220 fermetra einbýlishúss við Valsheiði í Hveragerði. „Þetta er timburhús sem við munum skila fullbúnu en það er mjög vandað að allri gerð. Gluggar og útihurðir eru úr mahogny en að utan er húsið klætt varanlegri Duropal klæðningu. Timburklæðning er undir þakskeggi og liggjandi vindskeiðar gagnvarðar.  Hiti er í gólfplötu sem er steypt. Í heildina er þetta mjög góð eign sem ég verð stoltur að skila af mér,“  segir Runólfur Viðar.

Sumarhús

Mikið hefur verið að gera í sumarhúsabyggingum hjá Runólfi Viðari og starfsmönnum hans að undanförnu og ekkert lát þar á. „Ekki alls fyrir löngu lukum við byggingu á tæplega 107 fermetra mjög vönduðu heilsárshúsi í Miðengi í Grímsnesi en húsinu fylgdi 25 fermetra gestahús og 160 fermetra verönd. Á sama stað erum við svo langt komnir með að byggja 180 fermetra heilsárshús sem við munum skila fullbúnu að utan. Það er misjafnt á hvaða byggingarstigi fólk vill fá eignirnar afhentar en metnaður okkar er ávallt sá sami,“ segir Runólfur Viðar.
Nýverið hóf fyrirtækið byggingu á 103 fermetra heilsárshúsi í Grýluhrauni í Grímsnesi. „Því húsi verður skilað fullbúnu í hólf og gólf í mars. Í kjölfarið hefst smíði á þremur sumarhúsum í Grímsnesinu og ég veit að fleiri eru við að leggja inn pöntun. Það er ekkert að því að byggja sumarhús á Suðurlandi yfir vetrarmánuðina enda undanfarnir vetur verið mjög snjóléttir,“ segir Runólfur Viðar.
Auk einbýlis- og sumarhúsa tekur Viðar-smíðar að sér að byggja sólpalla og annast flest þau verk er tengjast viðhaldi og nýbyggingum. „Ef fólk kýs vönduð vinnubrögð á sanngjörnu verði þá er bara að taka upp símann og hringja,“ segir Runólfur Viðar brosmildur og bjartsýnn á framtíðina.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga