Hús á byggingastigi í Borgarbyggð

Á annað hundrað hús á byggingastigi í Borgarbyggð

Sveitarfélögum á Íslandi fer hraðfækkandi en flest voru þau 229 talsins árið 1950. Fækkunin eykur þjónustustigið við íbúana. Vorið 1994 sameinuðust sveitarfélögin Norðurárdalshreppur, Stafholtstungnahreppur, Borgarnesbær og Hraunhreppur og úr varð sveitarfélagið Borgarbyggð með 2.196 íbúa og þá varð fjöldi sveitarfélaganna 177. Í febrúarmánuði 1998 sameinast Þverárhlíðarhreppur, Borgarhreppur, Borgarbyggð og Áltaneshreppur í 2.399 íbúa sveitarfélag og fjöldi sveitarfélaga varð þá 127. Í júnímánuði sama ár sameinast Lundareykjardalshreppur, Reykholtsdalshreppur, Hálsahreppur og Andakílshreppur í 685 manna sveitarfélag og við það fækkaði sveitarfélögum í 124.

Sveitarfélögin Borgarbyggð, Borgarfjarðarsveit, Hvítársíðuhreppur og Kolbeinsstaðahreppur sameinuðust í eitt sveitarfélag við sveitarstjórnarkosningarnar vorið 2006. Sveitarfélagið er um 4.850 ferkílómetrar að stærð og íbúar eru rúmlega 3700. Mörk svæðisins eru við Skarðsheiði í suðri og Haffjarðará í vestri. Innan Borgarbyggðar eru nú eftirtalin svæði: Kolbeinsstaðahreppur, Hraunhreppur, Álftaneshreppur, Borgarhreppur, Borgarnes, Norðurárdalur, Stafholtstungur, Þverárhlíð, Hvítársíða, Hálsasveit, Reykholtsdalur, Flókadalur, Lundarreykjadalur, Bæjarsveit og Andakíll. Vegna víðfeðmis sveitarfélagsins eiga 9 sveitarfélög land að því, á Vesturlandi, Suðurlandi, Norðurlandi og Ströndum. Við upphaf kjörtímabils 2006 - 2010 eru sveitarfélögin 79 talsins. Gott samstarf hefur verið við Skorradalshrepp að undanförnu  og Borgarbyggð er að þjónusta það sveitarfélag töluvert sem og íbúa þess. Líklegt má telja að innan fárra ára sameinist þessi sveitarfélög, jafnvel á þessu kjörtímabili sem lýkur vorið 2010. Á vegum Skorradalshrepps er unnið að aðalskipulagi og líklegt að því verkefni verði lokið áður en farið verður að ræða möguleika á sameiningu.

Íbúðaverð í Borgarbyggð um 70% þess sem gerist á höfuðborgarsvæðinu
Unnið er samkvæmt Aðalskipulag Borgarbyggðar 1997-2017, en það er nú í endurskoðun og stefnt að því að þeirri skipulagsvinnu ljúki árið 2008 og gildi til næstu 12 ára. Áhugi fyrir skipulagi í dreifbýlinu fyrir frístundabyggð er gríðarlega mikill og því nauðsynlegt að til sé aðalskipulag fyrir allt sveitarfélagið. Vegna aukinna umsvifa hefur sveitarfélagið ráðið verkefnastjóra í skipulagsmálum og þar með stórbæta þjónustuna við íbúana.
Nýlega var tekið fyrir í skipulags- og bygginganefnd Borgarbyggðar auglýst tillaga að deiliskipulagi búgarðabyggðar í landi Galtarholts 2. Skipulags- og byggingarnefnd hefur beint því til landeigenda að þær breytingar verði gerðar á skipulagi svæðisins að byggingarreitir verði afmarkaðir skýrar fyrir annars vegar íbúðarhús og hins vegar atvinnustarfsemi með hliðsjón af verndun votlendis og birkigróðurs. Einnig að tilgreint verði með skýrari hætti hvernig byggingar innan hvers bygginarreits megi reisa m.t.t. stærðar, fjölda hæða og útlits. Þessi fundargerð er kannski dæmigerð fyrir mjög vaxandi verkefni sem fyrir nefndinni liggja í sveitarfélagi eins og Borgarbyggð sem nýtur vaxandi vinsælda hvað varðar búsetu og stöðugt fleiri sækja í að búa í, ekki síst fólk af höfuðborgarsvæðinu. Verð á fasteignum, nýjum sem eldri, er einnig lægra en á höfuðborgarsvæðinu, en verð íbúðar í Borgarbyggð er um 70% þess sem sambærileg íbúð kostar á höfuðborgarsvæðinu.

Fjölgun í þremur byggðakjörnum
Fyrir 12 árum síðan voru 14 sveitarfélög í Borgarfirði norðan Skarðsheiðar en eru í dag tvö, Borgarbyggð og Skorradalshreppur. Íbúatalan í Borgarbyggð er í dag 3.711 íbúar og hefur farið töluvert vaxandi síðustu 3 ár og líkur eru á töluverðri fjölgun á þessu ári. Fjölgunin á sér fyrst og fremst stað í þremur byggðakjörnum, þ.e. í Borgarnesi og í háskólabyggðakjörnunum á Hvanneyri og Bifröst. Á Hvanneyri hefur fólki fjölgað mjög mikið sl. tvö ár, eða úr 230 íbúum í 305 sem er um 30% fjölgun sem er mun meira en almennt gerist á landinu. Það sem einkennir Borgarbyggð mjög er hin dulda búseta á því en reikna má með að um 500 nemendur séu á Hvanneyri og Bifröst sem ekki eru skráðir með lögheimili í sveitarfélaginu og hins vegar er sumarhúsabyggðin mjög fjölmenn, en allt að 1.200 sumarhús eru í sveitarfélaginu og um 600 í nágrannasveitarfélaginu, Skorradalshreppi. Því getur á góðum degi íbúatalan a.m.k. tvöfaldast og það er fólk sem sveitarfélagið er að þjónusta án þess að hafa t.d. af því útsvarstekjur. Margir nemendur á Bifröst og Hvanneyri eru með börn á leikskólaaldri og þörfinni fyrir leikskólapláss þarf sveitarfélagið að sinna en langflestir sem þannig er ástatt um eru með búsetu í sveitarfélaginu. Nýr leikskóli var tekinn í notkun í haust, Ugluklettur. En í háskólasamfélagi er erfitt að fylgjast með hversu margir nemendur á hverjum tíma eru með börn, en með því þarf sveitarfélagið að fylgjast vilji það veita þessu fólki sem besta þjónustu.
Samkvæmt rannsókn sem gerð var á síðasta ári sest nokkur hópur þeirra sem stundar háskólanám í sveitarfélaginu þar að eftir nám en forsvarsmenn sveitarfélagsins vildu gjarnan sjá þann hóp stærri. Töluverð hreyfing er á íbúum í sveitarfélaginu, en á sínum tíma byggðist Borgarnes þannig upp að þangað kom ekki síst fólk úr Dölunum og vestan af Snæfellsnesi. Nú flyst þangað fólk alls staðar að af landinu, m.a. af höfuðborgarsvæðinu, ekki síst ungt fólk sem leitaði burt til náms en snýr nú aftur á heimaslóðir.Torfi Jóhannesson formaður skipulags- og bygginganefndar Borgarbyggðar, 
Sigríður Björk Jónsdóttir varaformaður nefndarinnar 0g Páll S. Brynjarsson sveitarstjóri.


Búseta nálægt vinnustað skiptir minna máli

Páll S. Brynjarsson, sveitarstjóri, segir atvinnumálin í sveitarfélaginu í ágætu horfi en Borgarfjörður er hérað sem hefur byggst upp kringum landbúnað og þjónustu við hann, en á árunum eftir 1990 varð ákveðin niðursveifla en í dag er uppsveifla sem byggir m.a. á nýjum þáttum, ekki síst á háskólunum sem eru að verða stöðugt mikilvægari í atvinnulífinu ásamt eflingu iðnaðar. En enn er þjónusta við landbúnað og framleiðsa bæði á kjötvörum og víni svo dæmi séu tekin og ferðamannaiðnaður mikilvægur þáttur í atvinnulífinu, en í og kringum Borgarnes hafi risið hótel og veitingastaðir sem njóta umtalsverðra vinsælda.
Sigríður Björk Jónsdóttir, varaformaður skipulags- og bygginganefndar, bendir á að oft sé erfitt að sjá fyrir hversu margir háskólanemendur séu með börn og hver sé þörfin fyrir leikskóla. Búseta nálægt vinnustað skipti orðið mun minna máli með bættum samgöngum, frekar að þættir eins og góður grunnskóli og leikskóli vegi þar þyngra. Því til staðfestingar bendir hún á að töluverður hópur fólks í Borgarbyggð sækir vinnu til Reykjavíkur og nær 10% starfsmanna Norðuráls á Grundartanga eigi heimili í Borgarfirði.
Árið 2004 var gerð sameiginleg könnun fyrir Akranes, Borgarbyggð og Árborg sem leiddi í ljós að um 9% íbúa Borgarbyggðar sóttu vinnu utan sveitarfélagsins. Líklegt má telja að með tilkomu Sundabrautar muni hlutfall þeirra sem sækja vinnu á höfuðborgarsvæðinu enn hækka, því þá verður Borgarnes innan við 45 mínútna mörkin sem margir miða við, þ.e. það tekur innan við klukkustund að komast frá heimili á vinnustað. Í þjónustukönnun sem gerð var í sveitarfélaginu kom í ljós að íbúar telja að atvinnumöguleikar séu þokkalegir og sambærilegir við það sem er á höfuðborgarsvæðinu.
Í Borgarbyggð er það í bland einstaklingar og verktakar sem eru að byggja í nýjum svæðum sem hafa verið deiliskipulögð en síðustu ár hafa verið allmargir verktakar í Borgarbyggð í byggingaiðnaðinum, en einnig hafa verið að koma verktakar utan frá inn á svæðið. Ný íbúðargata er að verða til á Varmalandi en starfsmenn Borgarverks hafa unnið að gerð götunnar frá því í lok ágústmánaðar og er gert ráð fyrir að verkinu verði lokið á þessu ári. Samkvæmt deiliskipulagi eiga að koma tvær nýjar íbúðagötur á Varmalandi og er þetta sú fyrri. Við götuna verða tvær parhúsalóðir, tvær raðhúsalóðir og fimm einbýlishúsalóðir. Við efri götuna, sem enn hefur ekki verið boðin út, verða sex einbýlishúsalóðir.
Lóðaútboð er töluvert, en auk Varmalands hafa verið auglýstar 18 lóðir í Bjargslandi í Borgarnesi og 11 lóðir í Flatarhverfi á Hvanneyri. Um er að ræða einbýlishúsalóðir, raðhúsalóðir og parhúsalóðir auk einnar fjölbýlishúsalóðar við Birkiklett í Bjargslandi. Lóðirnar verða byggingahæfar í desembermánuði.

Vaxandi áhugi stórra byggingarfyrirtækja
Ekki hefur verið farin sú leið að vera með alútboð á byggingarsvæðum á síðari árum en í dag skipuleggur sveitarfélagið og gengur frá gatnagerð og augýsir síðan lóðir. Gerð var tilraun í gamla miðbænum í Borgarnesi með að bjóða út byggingareit undir lóðir undir lítil fjölbýlishús sem eru í byggingu og einnig stendur sveitarfélagið í samningaviðræðum við verktakafyrirtækið Eykt sem hefur sýnt því áhuga á fá land og skipuleggja þar byggð í samstarfi við sveitarfélagið. Stærri byggingaaðilar á landsvísu hafa því í vaxandi mæli verið að sýna Borgarbyggð áhuga en kröfur þeirra sem kaupa fasteignir í Borgarbyggð eru svipaðar og á höfuðborgarsvæðinu hvað varðar stærð íbúða, tækni og gæði innéttinga.
Sigríður Björk segir þó að stundum hefði hún viljað sjá meira lagt í þau par- og einingarhús sem sótt hefur verið um til skipulags og bygginganefndar, og ekki sé verið að leggja fram teikningar um mjög stór hús, eða 400 til 500 fermetra, en algengt sé að sjá teikningar af 150 til 200 fermetra húsum. Þó eru þess dæmi að sótt sé um byggingu á mjög stórum sumarhúsum.“Þróunin hér hefur verið svipuð og annars staðar með breyttu íbúðalánakerfi. Þá stækkuðu íbúðir hérna en meðalstærð íbúða í byggingu var minni árið 2003 en þegar fólk hefur greiðari aðgang að fjármagni, þá stækka íbúðirnar oft. Nú erum við einnig að fá umsóknir um fjölbýlishúsalóðir sem ekki hefur átt sér stað um allnokkurt skeið. Þar má t.d. nefna gamla miðbæinn en þar er Reynald Jónsson að að byggja hús með 40 til 50 íbúðum á frjálsum markaði og fyrirtækið Gulur er einnig þar með nokkur umsvif um þessar mundir. Öryrkjabandalagið er búið að fjárfesta í nokkrum íbúðum á þessu svæði en annars eru þetta íbúðir fyrir alla aldurshópa. Nýlega var auglýst eftir umsóknum um lóðir í efri hluta bæjarins og bárust 97 umsóknir um 18 lóðir, þ.e. 4 - 5 umsóknir um hverja lóð!,” segir Torfi Jóhannesson, formaður skipulags- og byggingnefndar.

Í Borgarbyggð er búið að úthluta liðlega 300 lóðum sem er búið að samþykkja deiliskipulag á og hafin er bygging á eða búið að leggja inn teikningar til skipulags- og bygginganefndar. Sveitarstjóri segir að á annað hundrað hús séu á byggingastigi, þar af um 50 í gamla miðbænum og nágrenni, og innan tíðar verði hafin bygging á tveimur fjölbýlishúsum á miðsvæði bæjarins. Verktakar horfa nú mjög til miðsvæða bæjarins, þar er góð þjónusta við íbúana eins og t.d. heilsugæsla, stórverslanir og banki og þar er að rísa nýbygging Menntaskóla Borgarfjarðar sem settur var í fyrsta sinn í haust. Svæðið við brúarsporð Hvítarbrúar er því að verða stöðugt vinsælla, þar er augljóslega staðsettur framtíðarþjónustukjarni sveitarfélagsins.

Fjölbýlishús er að rísa neðan gamla kaupfélagsins og því mun aftur færast töluvert líf í gamla miðbæjarkjarnann.

“Þegar horft er til aðalskipulags Borgarness sést að gert var ráð fyrir að miðbærinn væri niður undir Brákarsundi en þróunin er sú að fyrirtæki, stofnanir og verslanir hafa viljað setjast að á miðsvæði bæjarins við Hvítárbrú. En í gamla miðbænum er hótelið, læknasetur og Landnámssetrið og við sjáum fyrir okkur að við Borgarbrautina verði samfellt þjónustusvæði frá gamla til nýja miðbæjarins og í Stóru-Brákarey er áætluð markviss uppbygging,” segir Páll S. Brynjarsson bæjarstjóri.

Menningarhúsadraumur
Nokkur sveitarfélög eru að byggja menningarhús, ýmist með eða án ríkisstyrks. Sigríður Björk segir að ríkisvaldið hafi ekki gefið kost á því að byggð yrðu menningarhús á Vesturlandi og Suðurlandi en auðvitað eigi allar sveitarstjórnir sér drauma, líka um mennningarhús. Borgarbyggð eigi hluta af húsunum þar sem Landnámssetrið er og sú starfsemi hafi fengið mikla og verðskuldaða athygli.
“Ekki má heldur gleyma því að í sveitarfélaginu eru 9 félagsheimili sem hýsa menningarstarfsemi allt árið, þó misjafnlega mikið eftir húsum og misjafnlega mikið á hverjum tíma. Menntaskólinn hóf starfsemi í haust í gamla Safnahúsinu. Verið er að byggja skólahús á miðbæjarsvæðinu og þar verður einnig aðstaða fyrir ýmsa menningaruppákomu í stórum og glæsilegum sal, ekki síst fyrir tónlistarflutning. Við erum hér í Borgarnesi með ígildi menningarhúss sem er gamla mjólkursamlagshúsið sem verið er að gera upp en þar verða meðal annars vinnustofur fyrir listamenn. Þar verður salur þar sem fyrirhugað er m.a. að setja upp söngleik á vegum tónlistarskólans,” segir Sigríður Björk Jónsdóttir.
Borgarbyggð nýtur vaxandi vinsælda hvað varðar búsetu og stöðugt fleiri sækja í að búa þar, ekki síst fólk af höfuðborgarsvæðinu. Verð á fasteignum, nýjum sem eldri, er einnig lægra en á höfuðborgarsvæðinu, en verð íbúðar í Borgarbyggð er um 70% þess sem sambærileg íbúð kostar á höfuðborgarsvæðinu.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga