Frá hugmynd til húsnæðis

Eðalhús er öflugt byggingafélag á Selfossi sem sérhæfir sig í byggingu timburhúsa. Félagið, sem fagnar 10 ára afmæli á næsta ári, hefur dafnað vel á undanförnum árum og er enn í örum vexti. Starfsmenn voru í fyrstu fjórir en núa starfa um 60 manns hjá félaginu og sýnt að þeim mun halda áfram að fjölga í náinni framtíð.

Einar Gunnar Sigurðsson er framkvæmdastjóri og eigandi Eðalhúsa. Hann segir félagið hafa vaxið hægt og rólega fyrstu árin en á árabilinu 2002 til 2005 hafi starfsemin tekið mikinn kipp. „Við erum enn í miklum vexti og því stöðugt að leita að góðu fólki til að vinna með okkur. Félagið á því láni að fagna að þar starfar stór og samhentur hópur og starfsmannaveltan er mjög lítil en það er forsenda þess að góður árangur náist í rekstri fyrirtækja. Starfsfólk þarf að vera tilbúið að haga störfum sínum líkt og það væri í vinnu í eigin fyrirtæki og það gerir okkar fólk,“ segir Einar Gunnar.
Meginstarfsemi Eðalhúsa hefur allt frá upphafi verið bygging íbúðar- og sumarhúsa úr timbri. „Sérþekking fyrirtækisins liggur í timbri og í stað þess að fara inn á önnur svið hyggjumst við byggja enn frekar utan á þá þekkingu sem er til staðar,“ segir Einar Gunnar.


Eðalhús Glæsilegt hús á Selfossi sem Eðalhús byggðu.

Eðalhús starfrækir eigin einingaverksmiðju, sem framleiðir timbureiningar í ýmsar gerðir húsa, og pípulagningardeild sem sinnir einkum verkefnum er snúa að byggingarstarfsemi félagsins.
Flest verkefnin Eðalhúsa eru í sveitarfélaginu Árborg og nærsveitum „Þetta er verulega áhugavert svæði þar sem mjög mikið verður um að vera á næstu árum. Við reiknum því með að horfa fyrst og fremst til þessa svæðis,“ segir Einar Gunnar og bætir við að verkefnastaða félagsins sé mjög góð „Við höfum verkefni fyrir þann hóp sem við höfum í dag inn á fyrsta ársfjórðung 2009. Þess utan erum við að undirbúa fleiri verkefni og því sýnt að við þurfum að fjölga fólki enn frekar.“
Eðalhús hafa áunnið sér gott orðspor sem traust og öflugt byggingafélag og Einar Gunnar segir markmiðin skýr: „Við ætlum að eflast enn frekar á byggingamarkaði og byggja á þeim gildum sem félagið hefur alltaf unnið eftir en þau eru: Góð og vönduð vara á sanngjörnu verði – afhent á umsömdum tíma,“ segir Einar Gunnar.

Allt á einum stað
Eðalhús byggir ekki eingöngu hús á eigin lóðum, sem skilað er fullbúnum til kaupenda, heldur einnig allar gerðir timburhúsa að óskum kaupenda. „Við tökum vel á móti öllum þeim er til okkar leita og skiptir þá engu hvort fólk er með lítt mótaðar hugmyndir eða fullkomnar teikningar. Okkar fyrsta verk er ávallt að fara vel yfir málin með kaupendum þar sem allar óskir viðkomandi eru dregnar fram en í kjölfarið fer í gang ákveðið vinnuferli og við skilum okkar verki á því stigi sem verkkaupi óskar,“ segir Einar Gunnar.

Sumir viðskiptavina Eðalhúsa vilja einungis fá teikningar á meðan aðrir vilja tilbúin hús. Einar Gunnar segir að einn helsti styrkur félagsins felist í því að hjá Eðalhúsum geti viðskiptavinurinn fengið alla nauðsynlega þjónustu varðandi húsbyggingar á einum stað.  „Við bjóðum t.d. upp á arkitekta-, verkfræði- og rafmagnsteikningar sem og gerð kostnaðar- og framkvæmdaáætlanna og tilboðsskráa. Ef viðskiptavinurinn kýs svo getur hann farið með þetta frá okkur og látið aðra sjá um byggingarframkvæmdir en við getum einnig klárað verkið fyrir hann. Það er í raun hægt að ganga inn til okkar af götunni með lauslega hugmynd að húsnæði og flytja inn í hugmyndina að nokkrum mánuðum liðnum,“ segir Einar Gunnar.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga