Fjölbreytt og krefjandi verkefni

Eðalhús eru með mörg verkefni í gangi sem stendur og enn fleiri í farvatninu. Á meðal verkefna félagsins er bygging á heilu hverfi í Hveragerði fyrir Búmenn; alls 43 íbúðir, ásamt bílakjallara og sameignarhúsi. Búmenn er húsnæðissamvinnufélag sem byggir húsnæði fyrir fólk sem komið er á miðjan aldur; 50 ára og eldri. „Þetta er umfangsmikið verkefni sem við munum ljúka í árslok 2008,“ segir Einar Gunnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri Eðalhúsa.
Eðalahús eru að undirbúa byggingu 18 rað- og parhúsa á Dísarstöðum, sunnan núverandi byggðar á Selfossi, og segir Einar Gunnar að húsin séu í hönnunarferli. Jarðvinna hefst í nóvember og gert er ráð fyrir að húsin fari í sölu næsta sumar.

Glæsihús við Ölfusá
Eðalhús eiga átta stórar lóðir í Árbæjarlandi við Selfoss þar sem áformað er að reisa mjög vegleg og íburðarmikil hús. Lóðirnar liggja að Ölfusá og er hver lóð fyrir sig um 2.500 fermetrar að stærð. „Þetta verður glæsihverfi á einstaklega fallegum stað við árbakkana. Vegaframkvæmdir hefjast líklega næsta vor og byggingarframkvæmdir í kjölfarið,“ segir Einar Gunnar.
Í Tjarnabyggð eru Eðalahús með í byggingu fjögur hús en félagið á 13 lóðir til viðbótar í Tjarnabyggð. Svæðið er fjóra km suður af Selfossi og þar er skipulögð búgarðabyggð á 600 hektara landssvæði. Lóðirnar eru mjög stórar; flestar frá einum og upp í tvo hektara en einnig eru í boði enn stærri lóðir. Heimildir til húsdýrahalds eru rúmar í hverfinu og reisa má byggingar sem eru allt að 1.500 fermetrum. „Heimili, skemma, gróðurhús og hesthús á einum stað,“ eins og segir í kynningu á tjarnabyggd.is.

Skóflustunga. Sr. Baldur Kristjánsson, Guðrún Jónsdóttir, formaður
Búmanna, Einar Gunnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri Eðalhúsa,
og Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri Hveragerðisbæjar þegar fyrsta
skóflustungan var tekin að 43 íbúðum Búmanna í Hveragerði.

Stærsta verkefnið
Umfangsmesta verkefni Eðalhúsa í náinni framtíð er uppbygging á svo kölluðum Sigtúnsreit í miðbæ Selfoss. Deiliskipulag svæðisins er í lögbundnu umsagnar- og athugasemdarferli  og mun að öllum líkindum hljóta endanlegt samþykki í árslok. Á þessum reit er áformað að reisa 2.500 fermetra verslunar- og þjónusturými, ásamt 65 til 70 íbúðum, og er stefnt á að framkvæmdir hefjist næsta vor. „Þrátt fyrir að þetta verkefni sé ekki komið á sölustig þá hafa nú þegar mjög margir haft samband, bæði við mig beint og eins fasteignasölur, til að spyrjast fyrir um framkvæmdina. Á það bæði við fyrirtæki sem vilja komast í verslunar- og þjónustuplássið og eins einstaklinga sem vilja búa í miðbænum. Ég hræðist því ekki að fara út í þessa framkvæmd,“ segir Einar Gunnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri Eðalhúsa.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga