Greinasafni: Arkitektar
Góð hönnun er góð fjárfesting

Eyjólfur hefur, allt frá því EPAL tók til starfa fyrir 32 árum, lagt sig í líma við að kynna góða hönnun, hvort heldur sem er innlenda eða erlenda.
Í EPAL hefur frá upphafi mátt sjá það nýjasta á sviði húsgagnahönnunar en ekki síður klassíska hönnun fyrri tíma. Margir koma í verslunina rétt eins og þeir sækja söfn til að fylgjast með, njóta og dást að fallegum og vönduðum hlutum.

Eyjólfur Pálsson, eigandi EPAL, sýnir hér nýjan stól, Copy and paste eftir Sigurð Gústafsson.Framleidd voru 99 númeruð eintök og er þessi stóll númer 75. Eyjólfur valdi númerið þar eð EPAL var stofnað árið 1975.

Á þreföldu verði
„Góð hönnun stenst svo sannarlega tímans tönn og það er mikilvægt að menn geri sér grein fyrir gildi klassískrar hönnunar, hvað fólk er með í höndunum,“ segir Eyjólfur. Sem dæmi nefnir hann að á uppboði hjá Bruun Rasmussen í Kaupmannahöfn í fyrra hafi margra ára gamalt borðstofuborð eftir Poul Kjærholm, sem kostar 100 þúsund danskar krónur nýtt í dag, farið á 300 þúsund danskar krónur eða um þrjár milljónir íslenskra króna. Þar með hafði borðið selst á þreföldu nývirði en það stafar af því að margir áhugamenn um hönnun vilja frekar eiga notaða klassíska hluti heldur en splunkunýja þótt þeir séu sams konar, aðeins úr nýrri framleiðslu.
Fallega hannaður hlutur vekur ekki aðeins ánægju heldur er hann líka góð fjárfesting. Hins vegar má ekki gleyma því að það eru ekki allir hlutir hannaðir af jafnþekktum hönnuðum og hlutir minna þekktra hönnuða geta að sjálfsögðu verið góðir og átt eftir að halda velli ef hönnunin er góð.

Eftirvænting ríkir vegna stækkunar
Undanfarin tíu ár hefur EPAL verið í Skeifunni 6 og þar verður opnuð ný hæð 1. nóvember nk. Sjö metra breiðar svalir verða yfir versluninni og í miðjunni verður tíu metra lofthæð með 70 fermetra ofanljósi. Mikil eftirvænting ríkir hjá starfsmönnum og eigendum vegna breytinganna og helmings stækkunar verslunarinnar. Fullyrða má að viðskiptavinir muni horfa til hennar með álíka eftirvæntingu.
Eyjólfur segist finna aukinn áhuga á íslenskri hönnun bæði hjá almenningi og opinberum aðilum. Það komi m.a. fram í því að íslensk húsgögn hafi verið valin í sendiráð og sendiherrabústaði Íslands t.d. í Berlín, Indlandi og Færeyjum. „Arkitektar og ráðamenn eru
farnir að líta meira til íslenskrar hönnunar þótt ekki sé hægt að nota hana eingöngu þar sem við eigum því miður ekki nógu mikið af henni enn,“ segir Eyjólfur að lokum.

                     /

                 /        


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga