Greinasafni: Arkitektar
Íslenska Vinin – The Icelandic Oasis. Einar Þorsteinn hönnuður

 Íslenska Vinin – The Icelandic Oasis Einar Þorsteinn hönnuður
Það eru umbrotatímar í hnattsamfélaginu okkar í dag. Að sumu leyti eru það áhrif frá mistökum fortíðarinnar, en að öðru leyti er það vissulega vegna þess, að það er kominn tími á vissa hluti. Hvort heldur sem er, þá er slíkt tímaskeið sannarlega gott til þess að íhuga hvert stefnir?

Án markmiðs er ekkert hægt að vinna lengur. Og það þarf að vera stærra markmið en svo að bjarga málum fyrir daginn í dag. Best er auðvitað að takast óhikað á við framtíðina, ef maður hefur gott yfirlit yfir fortíðina, svipað og Einar Ben. mælti svo ljóðrænt. En það nægir ekki til, ef engum nýjum hugmyndum er bætt í deigið. Og nýjar gagnlegar hugmyndir, samfélagslega gagnlegar hugmyndir koma aðeins frá þeim, sem skilja samhengið milli fortíðar og framtíðar, eða öllu heldur þetta eilífa, sígilda nú, þeim sem fylgjast með því sem er að gerst á hnettinum okkar.

Fyrir nokkrum árum fór ég nokkuð langa ferð um ýmis lönd til að ræða við þá samferðamenn mína, sem hafa á einhvern hátt haft áhuga á sjálfbærni í borgarskipulagi og húsbyggingum. Allir voru þeir hættir í sinni viðleitni við að koma þar einhverju áþreifanlegu til leiðar. Og þegar ég spurði um ástæðuna, þá var bara eitt svar: “Orkan þarf að verða tíu sinni dýrari til þess að fólk skilji almennt nauðsyn þess að hugsa dæmið allt sjálfbært!”

Segjum sem svo, að þetta sé rétt, en eru þá t.d. sjálfbær hús sem fólk byggir yfir sig ekki alltof dýr? Venjulega á fólk fullt í fangi með að byggja hefðbundin hús til að búa í sjálft. Með hagkvæmum lánum má þó létta þennan bagga. Rétt, en byrjunin verður samt sem áður dýr, ef hún er framkvæmd á þessum grunni. Og hver segir svo að eftir svona stuttan umþóttunartíma, séu bestu verkfærin til sjálfbærni komin fram? -Við skulum samt ekki gleyma því, að það er ekki bara hagur einstaklinga sem skiptir hér máli, “ríkisvaldið” hagnast líka á því, þegar borgararnir eru sjálfbærir í sinni viðleitni. Því þá er orkan sem fyrir hendi er notuð á hagkvæmastan hátt.


Fyrsta hugmynd 2005 af borg undir þaki

En eitt af því, sem ég efast stórlega um, er almennur skilingur á fyrirbærinu “sjálfbærni”. Fyrst þegar þetta orð var ofarlega á baugi hér, fyrir “peningaþensluna miklu”, þá nægði grænn litur til þess að einhver vara væri titluð sjálfbær eða vistvæn. Fólk sá auðvitað í gegnum þetta, en niðurstaðan varð sú, að hugtakið fékk á sig bjagaða mynd.  
 
Sumir vildu meina og meina jafnvel enn, að íslensk hús séu sérstaklega vistvæn af því að þau eru hituð upp með hveravatni eða jarðvarma. En þá gleymist að taka það með í reikninginn, að reyni fólkið sjálft að spara notkunina á heita vatninu, þá eru óðar komnir hagsmunaaðilar orkusölunnar á vettvang til að skipta um heitavatnsmæla í þeim íbúðum! Og jafnvel að saka íbúana um svik! -Sjálfbærni fer ekki eingöngu eftir tegund orkunnar, eða hvernig hún er fengin, heldur fer hún eftir því hversu litla orku þarf að nota, en samt búa við öll þægindi.

Það er auðvitað dýrt að hita upp óeinangrað hús, en það er vel hægt, ef næg orka er fyrir hendi. Og það er hagur húseigandans að einangra húsið sitt rétt og vel, ekki eingöngu vegna orkureikninganna heldur og vegna viðhalds hússins. Því steypan byrjar að brotna niður, daginn eftir að mótin eru rifin utanaf útveggjunum.
Orkusölufyrirtæki efla ekki sjálfbærni og álíta það heldur ekki verkefni sitt. En sá sem selur orku til heimilisnota, ætti að minnsta kosti að skilja, hvers vegna sjálfbærni er þjóðhagslega arðbær. 

Og hveravatn í leiðslunum innanhúss tekur á engan hátt með í reikninginn, allt viðhald á sömu húsum og kostnað við það. Þeim mun minna viðhald, því sjálfbærari eru húsin. Það er alþekkt, að flest íslensk hús þarf að mála og lagfæra steinsteypuna reglulega á fárra ára fresti. Samkvæmt lögum ber steypusalinn enga ábyrgð á vöru sinni eftir að hún er einusinn komin ofaní mótin! En ástæðan fyrir því að yfirleitt þarf að mála ytra byrði íslenskra húsa svona oft, er einfaldlega það, að þau eru vitlaust byggð! Þau eru byggð samkvæmt íslensku byggingarlagi og hefð, en eru samt vitlaust byggð.

Það er að segja: Hús sem eru einangruð að innanverðu eru vitlaust byggð að þessu leiti. Þau sem eru einangruð að utanverðu eru hins vegar rétt byggð hvað hitatap og viðhald varðar. Skýringin á þessu er einföld eðlisfræði: Ef útveggur er ávallt með sama hitastig og ávallt þurr, er bæði viðhald hússins mun minna og einnig meiri sparnaður við upphitun. Því má hiklaust fullyrða, að hús með einangraða útveggi að utanverðu sé sjálfbærra en önnur hús.      

Nú, aðrir skilja vistvæni eða sjálfbærni þannig, að best væri að nota íslenska ull til að einangra hús með. Þetta er nokkuð skringilegt sjónarmið enda vel dýrt. Svo mikil ull er varla til í landinu eftir að fjárbúum hefur fækkað á landinu öllu! Þessi skilningur á vistvæni eða sjálfbærni er töluvert rómantískur og eykur ekki skilning á sjálfbærni bygginga. Hátæknivæðingu má að sjálfsögðu nota til að auka sjálfbærni, en allt sem eykur mengun í byggingarferlinum vinnur hins vegar á móti sjálfbærni. –Og vitaskuld skiptir það máli, hvers konar einangrun er notuð, því ekki er endilega hagkvæmt að nota sömu einangrun innan á útveggi eins og utan á þá. – Tæknilega séð væri hægt að einangra útveggi bæði að innan og utan, en hvort það borgar sig, á eftir að rannsaka mikið betur.

Þegar allt kemur til alls, þá eru það vissar eðlisfræðilegar reglur sem gera útslagið um það, hvort þær venjur og hefðir sem myndast hafa í kringum borgarskipulag og húsagerð, séu notæfar og skynsamlegar eða ekki. “Nothæft” er hins vegar oft tilfinningalega talið vera það, sem maður hefur alist upp með, alveg óháð kostnaði við það sama. Aðalmunurinn hér á tilfinningum og raunsæi er nú einmitt sá, að það þarf einnig að taka mismunandi kostnað með í dæmið. Allar breytingar eru auðvitað ekki vinsælar því ávaninn er sterkur, svo að vægt sé tekið til orða.

En eins og hér er minnst á að ofan, eru nú umbrotatímar og full þörf á að stokka spilin upp á nýtt. Sé nú farið að einangra hús almennt að utanverðu hér á landi, þá er það hið besta mál, en sé svo ekki, eins og ég upplifði sjálfur á árunum 1973 til 2000, væri full ástæða til þess að beina þróuninni í þá átt, t.d. með aðstoð gjalda / styrkja eða byggingarleyfa.

Þessar staðreyndir um gildi eðlisfræðinnar má svo auðvitað færa út yfir alla heimsbyggðina. Og endaþótt oft á tíðum séu settar strangari reglur um byggingar víða um lönd samanborið við Ísland, þá er enn töluvert langt í land með að sjálfbærni sé hvarvetna talin nauðsynlegt innlegg í byggingariðnaði.

Vandamálið á skilgreiningu milli landa, hvað sé sjálbært og hvað ekki, er hins vegar töluvert stórt, þar sem mismunandi veðurfar og loftslag hefur áhrif á þetta. Þess vegna eru margir að vinna forrit, sem getur borið saman t.d. með einkunnagjöf, hvað af ýmsum þáttum gefi endalega sömu niðurstöðu eða gildi. Og þá er enn eftir að taka með i reikninginn mismunandi formun og stærð bygginga, sem einmitt skiptir meginmáli og tekur oft tillit til eðlisfæðinnar.    

Sé litið til þess risastóra sviðs, sem byggingarmál í heimsbyggðinni eru, þá blasir við framkvæmda-skortur einmitt á sviði sjálfbærni. Auðvitað má segja að þetta sé svo nýtt svið, að enn hafi menn ekki áttað sig á gæðunum, sem fylgja orkusparnaði vegna húsa-hitunar/ -kælingar. Enda þótt að mitt eigið sjónarmið sé fremur, að þetta áhugaleysi sé einkum tilkomið af ávana og hugmyndaskorti. En það hvorutveggja eru einmitt verstu fylgifiskar mannkynsins í heild.

En hver svo sem orsökin er, þá er hér enn tækifæri til að skara framúr, afla sér sérþekkingar á þessu sviði og beita sér síðan fyrir því með ráðgjöf til dæmis, að þessi reynsla nýtist sem víðast. Hagnaðurinn af þessu er ótvíræður, svo mikið er víst. Lítil þjóð getur náð töluvert lengra á þessu sviði, en mörg stórþjóðin. Bæði hvað það snertir, að koma eigin málum í framúrskarandi horf og að selja þá vitneskju og reynslu síðan til annarra þjóða. En eðlisfræðin er alveg eins hér á landi og annars staðar! Ójá!

Eins og nú er ástatt í efnahagsmálum þjóðarinnar, þá virðist það nokkuð ljóst, að auknar tekjur hennar eru einna helst bundar við erlend verkefni. Ekki ósvipað því að selja fiskafurðir á erlendum vettvangi eins og lengi hefur verið gert. Hins vegar þarf að víkka út það svið sölu íslenskra framleiðsluvara með nýjum hugmyndum. -Svo heppilega vill til að ímynd landsins erlendis er “hreinleiki”. Hreinleiki af öllum stærðum og gráðum, já það má segja, að menn trúi því jafnvel, að íslenskir sorphaugar séu þeir hreinustu í heimi og eldgosin sömuleiðis!

Þessi gilda og óafturkallanlega ímynd Íslands er í rauninni ómetanlegur sjóður, sem ekki eyðist upp á meðan einhver trúir því að svona sé í pottinn búið. En þó er vert að geta þess, svona okkar á milli sagt, að það mun vera nær sannleikanum, að landsmenn eru hreinlega ekki nógu margir né sérstakir sóðar til þess að menga landið allt svo illilega, að umbætur væru tilgangslausar! Hvað sem því líður, er hreinleika-ímyndin, sem tekist hefur að efla, afar mikils virði á erlendum vettvangi.

Af ýmsum ástæðum tók undirritaður sér visst frí frá sjálbærni byggingarmála undanfarin ár og beið fremur eftir og vonaðist eftir hagkvæmari tímum og auknum skilning á þessu sviði. Tímabil fjármunaþenslu var ekki heppilegt til að benda á sparnaðarleiðir eins og þessa. Áður en græðgin tók landsmenn í gíslingu kringum árið 2000, vann ég að verkefni styrktu af Húsnæðismálstjórn, sem fólst í byggingu íbúðarhúss, sem var um leið sýningarhús fyrir skóla landsins þannig, að nemendurnir gætu skoðað sjálfbært hús í notkun og hvað sjálfbærni þýðir á sviði bygginga.

En það er án nokkurs vafa fljótvirkasta leiðin til að mennta upprennandi kynslóð, sem auk þess vill læra um alla skapað hluti, að sýna þeim snemma hvernig byggingar framtíðarinnar þurfa að vera með raunverulegu slíku húsi. Það má segja að fjármunaþenslu-tímabilið hafi stoppað þetta verkefni af, en nú eftir að hryðjan er yfirstaðin að mestu, gæti allt eins verið ástæða til að endurlífga þetta verkefni.

Borgarskipulag
Sé litið til þróunar borgarskipulags undanfarinna ára er ekki sjáanleg nein afgerandi þróun eða nýjar lausnir þar. Menn halda áfram af gömlum vana að bæta nýjum hvefum við borgirnar og tengja með góðum vegum. Risaborgir eins og Shanghai hafa nú tíu milljón íbúa og fara stækkandi. Og enginn spyr sig í fullri alvöru, hvort svona risaborgir séu hagkvæmar, bæði fyrir íbúana og stjórnkerfið. Og enginn spyr auðvitað heldur, hvort þetta séu sjálfbærar borgir.

Samt sem áður eru Kínverjar nú með nýjar sjálfbærar borgir á teikniborðinu í samvinnu við vestræna sérfræðinga. Enn er ekki vitað, hvernig slíkum árangri á að ná þar í landi, en sennilega aðlaga þeir sig að “vestrænum staðli” eins og aðrar þjóðir. En sagt er að Kínverjar hyggist nú flytja 300 milljónir manns frá sveitunum inní borgirnar.  

Einna sorglegast er að líta til Afríku á þessu sviði, þar sem að skipulag vestrænna landa er apað eftir gagnrýnislaust. Borgarmyndin sem þar hefur myndast er vægast sagt ömuleg. 

Lítil ríki án olíugróða eins og Dubai hefur tekið það til bragðs að fylla upp land við stöndina, raða þar niður byggingarlóðum og selja stór einbýlishús. Þeir vita sem er, að töluverður markaður er fyrir hendi ef fólki, hnattborgurum nútímans, er tryggt visst öryggi. Hins vegar eru önnur sjónarmið virt að vettugi með þessari framkvæmd, því að flestum ber saman um það, að með hlýnandi veðurfari muni jöklar bráðna, til dæmis á Grænlandi og þar með strandlengjan færst ofar vegna hærri sjávarfalla á hnettinum öllum. Lóðir við sjávarströnd fara þá á kaf eða minnka verulega.

Það merkilega við þessar byggingarframkvæmdir í Dubai er það, að þetta mun vera í fyrst sinn á hnettinum, að stór íbúðarhverfi eru reist, sem viðkomandi land hefur í raun litla sem enga þörf fyrir. En eins og áður er sagt, er heldur ekki reiknað með innlendum kaupendum, heldur erlendum. Og þá fyrst og fremast auðvitað nágrönnum þessa lands. Þetta er einn fylgifiskur hnattvæðingarinnar. Mér skylst að öll einbýlishúsin séu uppseld!

Þrátt fyrir fáar nýjungar á sviði borgarskipulags, er þó á allra síðustu misserum smám saman að koma í ljós einhvers konar undiralda í skilningi manna á því, hvernig má sameina sjálfbærnissjónarmið og borgarskipulag. Til dæmis var nýlega kynnt risastór fljótandi bygging á mörgum hæðum, þar sem m.a. skyldi rækta grænmeti með nýrri tækni. Og staðsetning þessarar fljótandi byggingar var fyrst um sinn Hudson River við Manhattan. Þannig var talið að selja mætti grænmetið ferskt til New York búa án mikils flutningskostnaðar. Fleiri skipuleggjendur eru að huga að “hnattrænum” lausnum á sviði borgarskipulags.

Með því að fylgjast með stefnum og stefnuleysi í borgarskipulagi undanfarin áratug, hef ég eins og þessir aðilar ekki komist hjá því að skoða nýja möguleika í borgarskipulagi fyrir allan hnöttinn. Og þess vegna hef ég kynnt nýja hugmynd, sem nú er nefnd: Icelandic Oasis.
  
Árið 1975 þegar visjónerinn, Buckminster Fuller, kom í sína fyrstu Íslandsheimsókn var það fyrsta sem hann sagði mér, að Íslendingar þyrftu ekki að fara neitt, því að allar leiðir lægju til þeirra á hnettinum. Hann hafði skoðað hnöttinn okkar vandlega, og gert af honum nýtt og nákvæmt heimskort úr tuttugu þríhyrningum, einkum til að átta sig á því, hvernig væri best að reka þetta risastóra “fyrirtæki” sem menn kalla nú “hnöttinn”. Þá hafði hann m.a. fundið út, að Ísland liggur í miðjum “air-ocean world” eða loft-hafs heiminum. Sem þýðir, að eftir að flugvélarnar eru notaðar sem aðal-samgöngutækið, þá er jafnlöng leið og stytsta leið fyrir alla til Íslands frá byggðum löndum hnattarins. 

Mér datt strax í hug, að þá væri eðlilegast að Sameinuðu Þjóðirnar hefðu sitt aðalaðsetur á Íslandi, enda væri þá svipuð fjarlægð fyrir alla þjóðfulltrúana til þings hnattarins. En ástæðan fyrir því að aðalstöðvar Sameinuðu Þjóðanna er núna í New York, voru einmitt áður góðar samgöngur þangað með skipum á fyrri tímum! Nú, má hafnarborgin New York hins vegar líta um öxl til betri tíma.

Ég hef lagt það til alla tíð síðan, að Sameinuðu Þjóðirnar ættu best heima á Íslandi og ýmsir hafa tekið undir það í gegnum tíðina.

Sunarið 1980 fórum við Trausti Valsson arkitekt síðan í töluverðan leiðangur uppá hálendi Íslands til þess að leggja hornstein að nýrri borg, “H-borg”, sem þar myndi smám saman myndast eftir að hálendisvegirnir, sem Trausti lagði til fyrir margt löngu síðan, væru fullgerðir. Við lögðum svo þennan hornstein í vörðu á “Hringöldu” nokkurri, ekki langt frá Nýjadal. Síðan hefur ekkert gerst og vaninn kom í veg fyrir frekari skoðun þessa máls. 

Ég var vissulega sammála Trausta vini mínum og er enn, um hugmyndaleysi og vannýtingu á landsvæðum eyjunnar Íslands. Ekki síst eftir að nútímatækni bíður uppá alveg nýja möguleika. Núverandi nýting landsins er nánast spegilmynd að nítjándu öldinni og þeirri hugsun, sem þá var í gildi. Landsmenn eru ekki fleiri en svo, að þeir komast fyrir við strönd eyjunnar, en hálendið í miðjunni er einkum notað til sauðfjárbeitar og svo á síðustu árum fyrir innlenda og erlenda ferðamenn. Hér er landsvæði sem lítið er unnt að gera við, töldu menn, og ákváðu síðan að friða eins mikið af því og unnt var vegna áætlaðra virkjunarframkvæmda. Það lá beint við og hljómaði auk þess ansi vel í ræðuhöldum tillidaganna!

Allar þessar virkjunarframkvæmdir utan byggða á hálendinu og þarviðtengd álvinnsla er hins vegar hugmynd sem er komin til ára sinna. Skammt hugsað dæmi, því að sama fólk sér framtíð Íslendinga þannig að allir vinni í álverksmiðjum á endanum! Það er alvarlega vanhugsað að verksmiðjuvinna sé endilega hlutskipti landans. Og verksmiðjur falla ekki vel að íslenskri náttúrufegurð. 

En í þessari ferð okkar Trausta um hálendið fæddist sú hugsun, að endaþótt og sannarlega væri ástæða til að friða mikið af sérkennilegu landslagi á hálendinu, þá væri enn mikil víðátta eftir þar á milli, sem væri of verðmætt til þess að ánafna sauðkindinni. Og það væri óhugsandi og fjarri öllum raunveruleika að svona lítil þjóð eins og Íslendingar eru, ættu að hafa þá sérstöðu meðal Evrópuþjóða að eiga og viðhalda stærsta samfellda eyðilandi innan Evrópu. Landsvæð sem senn nýttist eingöngu sem bakgrunnur “ævintýraferða” innlendra og erlendra ferðalanga.

Ef það verður ofaná, að Ísland gangi í Evrópusambandið, þá munu menn þurfa að sætta sig við margar reglugerðir sem nú er ekki þörf á. Eitt af því verður örugglega nýting á því íslensku landi þar sem engin búseta er fyrir hendi á. Þegar hefur heyrst sú skoðun frá Bruessel, að friða skuli íslenska malarvegi vegna þess að fáar Evrópuþjóðir eiga slíka vegi ennþá!   

Eftir nokkurra ára umþóttun og dvöl erlendis urðu mér æ ljósari þeir gallar sem borgarskipulag víða um hnöttinn býr við vegna vanans. Ég ákvað þá að taka upp að nýju þessa hugmynd okkar Trausta og endurmeta hana að nokkru. Nýja hugmyndin fólst í því að leggja drög að prótótýpu eða “sýnishorni borgar” fyrir hnöttinn allan og næstu framtíð hans. Staðsetningin var eins og fyrr á hálendi Ísland, en nú mikið nær flugvellinum á Akureyri, enda gert ráð fyrir að eigendur eða fjárfestar við þessa framkvæmd væri að mestu leiti erlendir aðilar. 

Það sem mælti með þessari staðsetningu og landsvæði, er fyrst og fremst það, að nægilegt heitt vant er til upphitunar. Heitt vatn frá ónotuðu háhitasvæðum. Enda var gert ráð fyrir því, að borgin sjálf væri yfirbyggð. Þar kom til greina margs konar þak yfir byggingunum í “borginni”, en sennilega væri þak svipað tjaldi einna heppilegast, en fleira kæmi til greina.

Þessari hugmynd fylgdi það að þá nýttist orkan sem eftir er hér á staðnum, en ekki þyrfti að flytja hana nokkur þúsund kílómetra með 10 til 20% tapi.

Tækniþróunin hefur fært okkur ýmisleg uppí hendurnar, sem mælir með yfirbyggingu heilla borga. Mjög sterk og hagkvæm glær fólía er nú fáanleg og hún er yfirleitt notuð í uppblásna “kodda” til þess að veður geti ekki sligað hana og jagað sundur. Þeir sem hafa komið til Eden í Cornwall hafa séð þetta.

Kosturinn við þak yfir borgir, er auðvitað sá, að yfirborð margra húsa, sem standa saman, er lang oftast mikið strærra en heilt þak yfir þeim. Og eigi sjónarmið sjálfbærni að ráða hér, þá er það betri kostur, að hanna stærri hlut en minni, því að stærri hlutur tapar hitaorkunni mun hægar frá sér en minni hlutur. Það sem sparast við borgarþakið eða borgarhlífina er að einangrunarkostnaður húsanna getur orðið mun minni og auk þess er þarmeð unnið á móti vindkælingu, sem er stór þáttur í orkuneyslu.  
      
Hér er að sjálfsögðu um stórverkefni að ræða, en hér fer margt saman sem gagnlegt yrði. Ég geri ráð fyrir því, að hér verði um að ræða fyrstu raunverulegu vistvænu “borg” hnattarins. Þar er innifalið að mjög margar nýjar lausnir fyrir slíkt byggingarlag kæmu fram. Einnig að umfjöllun um verkefnið myndi vekja heimsathygli og síst veikja ímynd landsins útávið.

Endaþótt að efnahagskreppa sé í hugum margra sá tími sem stöðva þarf allar stórframkvæmdir, þá er samt svo í nútímanum að vonlaust er að draga sig inní einhverja skel. Mun betra er að sækja fram á sviði þar sem allar þjóðir heims verða fyrr eða síðar að taka til hendinni. Á hitt er svo að líta, að lítið land á norðurslóðum, sem vill mennta upprennandi kynslóð sem best, er engan veginn í stakk búið til að mennta sitt unga fólk fyrir önnur lönd. Því auðvitað munu ungir Íslendingar vinna hjá öðrum þjóðum, ef ekkert stórverkefni, þ.e. atvinna, er fyrir þá á heimaslóðum. Hvert sem verkefnið er, þá verður að hugsa þennan leik frammí tímann.

En það segir sig sjálft, að þetta verkefni sjálfbærrar borgar á norðurhveli jarðar verður að fjármagna með erlendu fjármagni að mestu. Tekjurnar sem koma á móti er svo sala á íbúðum og vinnustöðum í þessari borg á erlendum vettvangi. Það er ekki nokkur vafi, að nóg fólk er til á hnettinum sem vilja eiga nokkrar íbúðir og ferðast á milli. Þó að það kosti að töluverður lúxus muni þurfa vera í þessari borg, enda það fólk vant því að hafa slíkt umhverfi, sem eru helstu væntanlegu eigendur íbúða þar.           

Þá er að geta þess að núna er búið að “finna upp” flugbílinn! Það er verkfræðingurinn Yoeli í Ísrael sem hefur leyst þetta. Bandaríski flugherinn er svo að þróa þetta faratæki áfram fyrir sínar þarfir um þessar mundi. En við, eða öllu heldur afkomendur okkar, fá svo þetta einkafarartæki uppí hendurnar þar á eftir. Svipað gerist með Boeing þoturnar áður en þær gátu nýst fyrir farþegarflug!

Þessi tækniþróun mun gerbreyta því hvernig og hvar borgir verða byggðar og skynsamlegt að hugsa vel útí það strax. Alveg eins og Buckminster Fuller nefndi um árið.

Margir hafa haft á orði við mig, að þeirra land væri mun hentugra til þess að reisa svona sýnishorn af “borg framtíðarinnar”. En því svara ég á þann hátt, að það geti vel verið rétt, en vegna þeirrar staðreyndar að enn er mikið eftir af heitu vatni undir yfirborðinu á Íslandi og svo af öðrum persónulegum ástæðum, vilji ég leggja til að hugmyndin verði fremur hluti af íslenkum veruleika.

Eitt af því, sem ætti heima í þessari fyrstu sjálfbæru “borg” hnattarins, er stofnun til rannsókna á nýjum orkulindum. Orka er eitt af því sem Ísland hefur getað virkjað fyrir sig í gegnum tíðina. Og enn er nokkur orka eftir á landinu. En það er hjákátlegt ef “orkuþjóð” fylgist ekki vel með þeirri þróun sem á sér nú stað erlendis og reynir að leggja eitthvað til málanna. Öfugt við olíu, kjarnorku og önnur efni sem hægt er breyta í rafmagn er helsta orkutækni framtíðarinnar bundin við nýja þekkingu á eðlisfræði og að mestu óháð jarðvegstegundum sem finnast hér á hnettinum.

Hér er enn langt í land með að nokkur lausn sé fundin, en mjög margar stofnanir víða um lönd vinna nú hörðum höndum að því að finna eðlisfræðilega lykilinn að nýrri orku. Um leið er þessi leit stjórnmálalega erfið vegna þess, að mörg lönd treysta blint á olíuna og eru hagsmunalega háð þeim hópi sem selur þess konar orku í dag.

Fyrir tveim árum hélt ég sýningu á fyrstu hugmyndum mínum á Icelandic Oasis í gallerí Program hér í Berlín. Í gegnum læristól prófessors Wolfram Pop við Tækniháskólann hér, unnu yfir tuttugu nemendur í arkitektúr að þessari sýningu en auk þess Simon Irgens og Julie Fjeldsted. Ég hafði áður fengið þá arktitekta, Gui Trotti í Boston og Bjarke Ingels í Kaupmannahöfn, til að vera með í þessu stóra verkefni. Auk þess styrktu sendiráð Danmerkur, Íslands og Noregs þetta Berlínska verkefni.

Verkefnið var þannig unnið, að ég lét nemana hafa yfirlit yfir eðli verkefnissins, en þau höfðu svo alveg fjálsar hendur við að forma “borgina” undir þakinu. Það komu ýmsar gagnlegar hugmyndir fram sem vel má notast við. En til þess að venjulegur sýningargestur áttaði sig á þessu nýja borgarformi í svona miklum minni mælikvarða, var ákveðið að allt yfirborð innan borgarinnar væri með fimmfalt symmetrískum raster. Það er að segja ekki með ferköntuðu steinflísa-yfirborði eins og hvarvetna er. Þetta var gert með tveimur tvívíðum formum, sem saman mynd eins konar hringi ofanfrá séð. En hafa þá náttúru að ganga alltaf upp, sama hvernig byrjað er að leggja þau niður.

Þessi sýning tókst vel og fékk góða umfjöllun í fjölmiðlum Berlínarborgar. Þó að seint sé, er hún einnig kynnt hér núna. En næsta Maí 2011 mun ég hafa yfirlitssýningu í Hafnarborg í Hafnarfirði yfir það flesta sem ég hef unnið við í gegnum tíðina. Icelandic Oasis mun einnig kynnt þar, þó í smærri mynd.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga